01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

1. mál, fjárlög 1956

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þar sem ég tala hér síðastur manna í kvöld, hafði ég ekki í hyggju að veitast persónulega að andstæðingum mínum né á þann hátt, að það gaefi þeim tilefni til andsvara, þar sem þeir hafa ekki tækifæri til slíks. En þó má ég til með að víkja örfáum orðum að hæstv. fjmrh. að marggefnu tilefni.

Í tilefni af hinum broslegu tilraunum Eysteins Jónssonar til að skeyta skapi sínu á okkur þjóðvarnarmönnum og hinum aumlegu tilburðum hans til að hártoga efnahagsmálatillögur okkar á þann veg, sem einkennir helzt þroskastig pilta á barnaskólaaldri, vil ég þó aðeins segja, að ég fagna því, að honum hefur sviðið undan málflutningi okkar þjóðvarnarmanna og hann óttast þann hljómgrunn, sem till. okkar hafa fengið með þjóðinni, því að svo vel þekki ég Eystein Jónsson, að ég veit, að þegar ótti hans um, að þjóðin velti honum úr ráðherrastóli, ef hann hættir ekki íhaldsþjónustunni, er orðinn nægilega mikill, þá mun hann heldur kjósa ráðherrastólinn en íhaldsþjónustuna, jafnvel þó að það kosti hann að sitja í vinstri stjórn, sem hugur hans stendur þó sannarlega ekki til, eftir að hann hefur verið teygður og togaður jafnátakanlega í Heiðnabergi íhaldsins og málflutningur hans ber nú ljósast vitni.

Eysteinn Jónsson las hér yfirlýsingu formanns Framsfl., sem hann flutti við atkvgr. um vantrauststillögu okkar á ríkisstj., þar sem því er beinlínis lýst yfir, að Framsfl. sjái ekki ástæðu til að stofna til stjórnarkreppu á þessu stigi málsins, vegna þess að hann hafi samið um skattaálögurnar við Sjálfstfl. og með þeim séu sköpuð ný vandamál, sem nú þarfnist athugunar. Er ekki að furða, þótt Eysteinn Jónsson reisi sig hér á þingi eftir það afrek að hafa beinlínis samið við íhaldið um ný vandamál almenningi til handa, stærri og örlagaríkari en áður hafa þekkzt. Þar er skýringin á því, að hann lýsti trausti sínu á íhaldinu. Hann treystir því einu til að vilja semja um að stofna til nýrra vandamála og erfiðleika fyrir alþýðustéttir landsins, og er það traust hans ekki ástæðulaust.

Í umræðunum á mánudagskvöldið lauk Ólafur Thors ræðu sinni með því að tilkynna kjósendum Sjálfstfl., að þeir mættu alveg eins gera ráð fyrir, að kosningar yrðu nú í vor eins og vorið 1957, en þá ættu þær að fara fram lögum samkvæmt. Það var vart við því að búast, að forsrh. gæti á þessu stigi málsins, meðan þing hefur ekki verið rofið, tilkynnt það, sem augljóst er, að stjórnarflokkarnir munu nú þegar hafa komið sér saman um að rjúfa það þing, sem nú situr, og efna til kosninga á komandi vori. Skattaálögur þær, sem hafa verið eitt helzta deilumálið í þessum umræðum og Alþ. hefur nú samþykkt til að fleyta um örskamma stund sökkvandi fleyi, hafa það í för með sér, að til enn alvarlegri ráðstafana verður að grípa um það bil, er Alþ. á að koma saman næsta haust. Þær ráðstafanir munu verða þess eðlis, ef núverandi stjórnarflokkar eiga að móta þær í sameiningu, að þá mun ekki fýsa að gera almenningi grein fyrir þeim án þess að hafa látið alþingiskosningar fara fram áður. Er ekki með þessu sagt annað en það, sem allir vita. Það er því full ástæða til þess að brýna það fyrir öllum landslýð, að í kosningunum næsta vor munu ráðast mikil örlög, þar sem sérhver alþingiskjósandi hefur það í sínum höndum að leggja atkv. sitt á þær vogarskálar, þar sem vegast á gæfa og ógæfa íslenzkrar þjóðar.

Það hefur sannazt áþreifanlega í þessum ræðum, sem ég sagði við upphaf þeirra, að í íslenzkum efnahagsmálum væri nú aðeins um tvær leiðir að velja. Önnur er leið núverandi ríkisstj., sem hún sjálf hefur lýst með orðunum: alger neyðarúrræði til bráðabirgða, álögur á álögur ofan, uppbætur, styrkir, víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, þjóðnýting á sönnuðum og ósönnuðum töpum einstaklinga og fyrirtækja o. s. frv., sem óþarft er að rekja. Það hefur komið ótvírætt í ljós í þessum umræðum, að bæði Sósfl. og Alþfl. eru þessari leið fylgjandi, leið nýrra skatta til að veita þeim sem auknum styrkjum handa framleiðslugreinunum, sem að sjálfsögðu þrífast ekki í sjúku efnahagskerfi. Munurinn er aðeins sá, að Alþfl. og Sósfl. vilja taka skattinn hjá þeim, sem græða, en ekki af almenningi eins og stjórnarflokkarnir. Þetta er að sjálfsögðu áferðarbetri leið. En ef betur er gáð, er hér aðeins um stigsmun að ræða, en ekki eðlismun. Þar að auki höfum við af því bitra reynslu, að þeir, sem græða, hafa jafnan fundið einhver ráð og einhverjar leiðir til að veita þeim sköttum, sem á þá hafa verið lagðir, yfir á herðar almennings, enda er þeim í því efni auðveldur leikurinn, ef þeir njóta til þess samúðar og styrks frá ríkisvaldinu. Hin leiðin í íslenzkum efnahagsmálum er sú leið, sem Þjóðvfl. einn allra flokka hefur barizt fyrir, leið allsherjar endurreisnar með hag framtíðarinnar og komandi kynslóða fyrir augum, sú leið, sem íslenzkt alþýðufólk hefur sjálft markað, en ekki æfðir stjórnmálamenn.

Úrslit kosninga á komandi vori hljóta óhjákvæmilega að hafa úrslitaáhrif á það, hvor þessara leiða verður farin, hvort áfram verður flotið að feigðarósi eða allrar orku neytt til að berjast móti þeim ógæfustraumi, sem enn á ný hefur borið okkur óravegu af réttri leið. Öllum þeim, sem heils hugar eru, ætti að vera það sérstakt fagnaðarefni að fá tækifæri til að ráða úrslitum með atkv. sínu á slíkri örlagastund í lífi þjóðarinnar. Ekkert mun á það skorta, að nú sem endranær verði brögðum beitt til að villa kjósendum sýn um það, á hvern hátt þeir geti bezt náð því marki, sem meginþorri allra landsmanna eygir nú sem sinn einasta vonarneista, gerbreytta stjórnarstefnu, vinstri stjórn, sem af heiðarleika, drenglund og manndómi stjórnar landi okkar og hagnýtir hin miklu gæði þess og möguleika með hagsmuni alþýðustéttanna allra fyrir augum. Sem betur fer, eru mörg tákn á lofti, sem gera kjósendum valið auðveldara en oft áður, hin langvarandi óáran í efnahagsmálunum með yfirvofandi hruni, hinir augljósu ágallar í forustuliði gömlu vinstri flokkanna, sem um langt árabil hefur komið í veg fyrir samstarf þeirra um stjórn landsins, enda þótt kjósendur hafi veitt þeim yfirgnæfandi atkvæðamagn til þess í hverjum kosningum eftir aðrar. Þessir ágallar birtast fyrst og fremst í hægrimennsku foringja Alþfl. og Framsfl. og því, að áhrifamiklir aðilar í forustuliði gömlu flokkanna hafa hneigzt til oftrúar á handleiðslu erlendra valdhafa í austri og vestri þrátt fyrir sára reynslu íslenzkrar þjóðar af erlendum valdhöfum og erlendri íhlutun um margar og myrkar aldir og dæmi, sem ekki gleymast, meðan íslenzk saga er lesin, um íslenzka menn, sem beygðu sig undir ok erlends valds fyrir metorð og fé.

Auðvitað er öllum ljóst, að meginþorri þeirra, sem hafa greitt gömlu flokkunum atkv. sitt í kosningunum að undanförnu, er ekki haldinn sömu hneigð til að krjúpa erlendu stórmenni og forustulið þessara flokka. Áþreifanlegasta sönnun þess er sú, að rétt fyrir síðustu kosningar tóku fyrrverandi kjósendur allra gömlu flokkanna höndum saman í nýjum samtökum, Þjóðvarnarflokki Íslands, og lýstu því yfir, að það væri Íslendingum farsælast að binda sína eigin bagga sjálfir. Þeir, sem fengið höfðu ofbirtu í augun af erlendri dýrð, lustu upp hrópi miklu yfir þessari einstöku fávizku og spáðu þessum samtökum, sem ekkert áttu til að berjast með annað en góðan málstað, miklum ósigri. Augsýnilegt var þó þegar í upphafi, að óttinn hafði gripið um sig í röðum hinna gömlu flokka. Sögðu þeir þjóðinni, að þessi samtök væru svo vonlaus um að fá mann kosinn á þing, að til þess þyrfti að gerast kraftaverk. Íslenzk alþýða um land allt svaraði þessum hrakspám með því einfalda ráði að sýna, að hún væri þess umkomin að gera slíkt kraftaverk, ef ekkert minna dygði. Síðan hefur óttinn haldið áfram að grafa um sig innan hinna gömlu flokka. Skrif formanns Framsfl. og hin tíðu bónorðsbréf Alþfl. og Sósfl. til þjóðvarnarmanna um kosningabandalög sýna, svo að ekki verður um villzt, að Þjóðvfl. er það eina afl í íslenzkum stjórnmálum, sem mun takast að láta draum yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar um heiðarlega, raunhæfa vinstri stjórn rætast. Skrif Tímans og Alþýðublaðsins að undanförnu staðfesta og það, sem mjög mörgum er nú ljóst, að ef alþingiskjósendur hefðu tekið þá ákvörðun í síðustu kosningum að hafa skipti á þingmannatölu Þjóðvfl. og Sósfl., þá hefðu þjóðvarnarmenn nú þegar verið búnir að knýja fram myndun vinstri stjórnar. Annað þurfti ekki til. En þá hefði okkur þjóðvarnarmönnum líka tekizt að koma í veg fyrir þær álögur, sem nú hafa verið lagðar á alþýðu landsins, en okkur tókst ekki nú. En því vil ég heita íslenzkum almenningi fyrir hönd Þjóðvfl., að ef þið gerið hlut hans slíkan í næstu kosningum, að hann geti knúið fram myndun vinstri stjórnar, er hafi meiri hluta Alþ. að baki sér, þá skal flokkurinn einnig koma því til leiðar, að þeim óbærilegu álögum, sem nú hafa verið á ykkur lagðar, verði af ykkur létt með afnámi þeirra laga, sem nú hafa verið samþykkt.

Það er því ljóst, að íslenzk þjóð getur aðeins með einu móti unnið sinn kosningasigur í næstu kosningum: með kosningasigri Þjóðvarnarflokks Íslands. Þess vegna heiti ég á þjóðvarnarmenn og einlæga vinstri menn um land allt að hefja undirbúninginn að þeim sigri nú þegar af þeirri dirfsku, drenglund og fórnfýsi, sem sæmir íslenzkum málstað. — Góða nótt.