06.12.1955
Neðri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra er flutt af hæstv. ríkisstj., í meginatriðum eftir tillögum frá sauðfjársjúkdómanefnd. Landbn. hefur haft frv. til meðferðar og m. a. rætt það við framkvæmdastjóra sauðfjárveikivarnanna. Niðurstaða n. er sú, að hún mælir með því, að frv. verði samþykkt með lítils háttar breytingum, sem ég skal gera grein fyrir, en þess er þó að geta, að form. n., hv. þm. Dal., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og sé ég, að hann hefur borið fram brtt. við 4. gr. frv. á þskj. 162.

Þar sem nál. hefur ekki verið útbýtt fyrr en á þessum fundi og hv. þm. því ekki haft tíma til að kynna sér það, skal ég rifja lauslega upp efni frv., en á sínum tíma var raunar við 1. umr. gerð grein fyrir því af hæstv. landbrh. Frv. er fram komið fyrst og fremst vegna fjárskipta, sem ákveðin hafa verið í svokölluðu Dalahólfi, en það er svæði, sem á sínum tíma var afgirt vegna fjárskipta og nær yfir, ef ég man rétt, fimm hreppa í Dalasýslu og hluta úr tveimur hreppum í Strandasýslu. Nú hefur svo illa til tekizt, að mæðiveikin hefur komið upp aftur á þessu svæði eða hluta þess í Dalasýslu. Má segja, að það þurfi reyndar engum að koma á óvart, þó að ekki hafi tekizt gersamlega að útrýma þessari veiki alls staðar með fjárskiptunum. En veikin hefur, eins og ég sagði, komið upp aftur á þessu svæði, og fjárskipti verið þar ákveðin, en niðurskurður hafinn á þessu hausti á nokkrum hluta svæðisins. Vegna þess að hér er um að ræða niðurskurð og fjárskipti í annað sinn á sama svæði, sem nú verður að framkvæma við að ýmsu leyti erfiðar aðstæður, hefur þótt óhjákvæmilegt að hækka til muna bætur vegna fjárskiptanna, og það er meginefni frv. Aðalbreytingin, sem er í 4. gr. frv., er í því fólgin að hækka afurðatjónsbætur fyrir hverja bótaskylda kind úr ½ lambsverði í 3/4 lambsverðs og sauðleysisbætur á sama hátt. Jafnframt þessu er svo ákveðið í sömu grein, að fjáreigendur skuli eiga kost á að fá keypt líflömb sem svarar 80% af bótaskyldri fjártölu. Ef ekki fæst sú lambatala á fyrsta hausti sem lömb eru flutt inn á svæðið, eiga hlutaðeigendur rétt á bótum fyrir það, sem á vantar, og eru þær bætur jafnar sauðleysisbótum, að sjálfsögðu þó því aðeins, að þeir, sem í hlut eiga, hafi óskað eftir þessari tölu. Þetta er nokkur breyting og aukning bótaréttar frá því, sem er í gildandi lögum. Þá er ákveðið í frv. að miða afurðatjóns- og sauðleysisbætur við verðlag það ár, sem bótagreiðslan fer fram á, í stað þess að fara eftir meðalverði tveggja s. l. ára, eins og gert hefur verið. Auk þessara meginbreytinga í frv., sem felast í 4. gr. þess, eru nokkrar minni breytingar og sumar annars efnis, og er gerð grein fyrir þeim bæði í grg. frv. sjálfs á þskj. 123 og í nál. á þskj. 161. Meðal þessara breytinga er t. d. sú, að heimilað er að fyrirskipa fjárskipti, þótt atkvæðagreiðsla hafi ekki farið fram á fyrirhuguðu fjárskiptasvæði, ef brýna nauðsyn þykir til bera. Nú er það svo í lögum, að slík atkvæðagreiðsla verður að hafa farið fram, áður en fyrirmæli eru gefin. En það þykir nú nauðsynlegt að breyta þessu og heimila fyrirmælin, þótt atkvæðagreiðsla hafi ekki farið fram, sérstaklega með tilliti til þess, að það geti verið, að það sé svo lítið ráðrúm, svo lítill tími til stefnu, að naumast sé tími til þess að hafa atkvæðagreiðslu með þeim umbúnaði, sem henni fylgir. Ég skal einnig nefna það, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að ákvæði laganna nái til kýlapestar og riðuveiki.

Ég skal þá aðeins stuttlega gera grein fyrir þeim brtt., sem nefndin stendur að og prentaðar eru á þskj. 16l. Þær eru þrjár.

Í fyrsta lagi leggur nefndin til, að á eftir 1. gr. frv. komi ný grein, þess efnis, að sauðfjársjúkdómanefnd sé heimilt að bæta að nokkru tjón vegna banns við flutningum sauðfjár og nautgripa yfir varnarlínur, ef sýnilegt er, að búfjáreigandi verður fyrir verulegu tjóni vegna bannsins. Er gert ráð fyrir, að sauðfjársjúkdómanefnd ákveði upphæð bótanna hverju sinni. Samkvæmt 13. gr. laganna er það svo, að bannað er að flytja sauðfé yfir varnarlínur nema með leyfi sauðfjársjúkdómanefndar. Í sömu grein er gert ráð fyrir, að landbrh. geti einnig látið þetta bann ná til annars búpenings. Þessu banni hefur verið beitt talsvert gagnvart flutningi nautgripa nú á síðari árum vegna hættu á útbreiðslu garnaveiki, en bann við flutningi sauðfjár til lífs yfir varnarlínur hefur verið algert nú um mörg undanfarin ár, að undanteknum sjálfum lambaflutningunum til fjárskiptanna. Þetta kemur að sjálfsögðu eða getur komið nokkuð hart niður á þeim, sem í hlut eiga. Það er algengt, að þeir, sem flytjast búferlum, geta ekki selt til lífs neitt teljandi af sauðfé sínu og verða að slátra því, en geta svo ekki fengið keypt annað en lömb á því svæði, sem þeir flytja inn á, og slíkt getur að sjálfsögðu valdið töluverðu tjóni. Líkt getur staðið á um nautgripi. Nú um nokkur undanfarin ár hefur ekki orðið hjá því komizt að bæta mönnum nokkru fyrir þetta bann, en sauðfjársjúkdómanefnd telur og landbn. hefur á það fallizt, að æskilegt sé að hafa um þessar bætur í sambandi við búferlaflutninga skýrari ákvæði en nú eru í lögum, og þess vegna er brtt. fram borin.

Önnur brtt. n. er um það, að á eftir 6. gr. frv. komi ný grein um breytingu á 45. gr. laganna, þess efnis, að sektir fyrir brot gegn lögunum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma hækki nokkuð, og er það m. a. með tilliti til þess, að verðlag hefur breytzt síðan lögin voru sett 1947.

Loks er þess að geta, að n. leggur til, að aftan við frv. komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, þess efnis að fella þetta frv., ef að lögum verður, ásamt lögum frá 1950, inn í meginmál laganna frá 1947 og gefa lögin frá 1947 út svo breytt. Nefndin telur það til hagræðis fyrir þá, sem hlut eiga að máli, að þetta verði gert, til þess að auðveldara verði að átta sig á, hvernig þau ákvæði eru um þessi efni, sem eftirleiðis gilda eftir væntanlega samþykkt þessa frv.