15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af þeirri brtt., sem hv. þm. Dal. hefur borið fram á þskj. 170, hefur landbn. beðið sauðfjársjúkdómanefnd að gera áætlun um kostnað við fjárskiptin í Dalahólfinu, eins og gert er ráð fyrir kostnaði við þau, í fyrsta lagi samkv. gildandi lögum um fjárskipti, í öðru lagi samkv. því frv., sem nú liggur fyrir, ef það yrði að lögum, og í þriðja lagi ef frv. yrði að lögum með þeirri breytingu, sem hv. þm. Dal. leggur til að gerð verði á því.

Samkv. áætluninni er það svo, að fjárskiptin á þessu svæði mundu kosta samkv. gildandi lögum 10 millj. 940 þús. kr., samkv. því frv., sem fyrir liggur, rúml. 16 millj. kr., eða 16 millj. 25 þús. kr., og samkv. frv., ef sú brtt. yrði samþ., sem fyrir liggur frá hv. þm. Dal., 17 millj. 125 þús. kr. Þetta er, eins og ég sagði, áætlun frá sauðfjársjúkdóman. um fjárskipti á þessu svæði, í fyrsta lagi samkv. gildandi lögum, í öðru lagi samkv. því frv., sem fyrir liggur, ef að lögum verður, og í þriðja lagi samkv. frv., ef það yrði samþ. með breytingunni frá hv. þm. Dal.

Ef þessar tölur eru athugaðar nánar, en eins og ég sagði áðan, eru þær auðvitað allar áætlunartölur, kemur í ljós, að frv. hefur í för með sér, ef að lögum verður, rúmlega 5 millj. kr. hækkun á kostnaði fram yfir það, sem verða mundi samkv. gildandi lögum. Þessar rúml. 5 millj. eru sú hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir að verði á bótum. Ef hins vegar till. hv. þm. Dal., sem nú liggur fyrir, yrði samþ., mundi það enn auka kostnaðinn um rúmlega 1 millj. kr.

Þótt viðurkenna beri þörf þeirra, sem hér eiga hlut að máli, fyrir bætur í þeim erfiðu kringumstæðum, sem þeir eiga í nú, hefur meiri hl. n. samt ekki séð sér fært að mæla með till. hv. þm. Dal., enda þótt hún gangi skemmra en sú till., sem hann flutti við 2. umr.