15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það var fyrir fram vitað, að meiri hl. landbn. mælti ekki með mínum brtt. En ég vil bæta því við þær upplýsingar, sem hv. þm. N-Þ. gaf hér áðan, þar sem hann gat þess, að samkv. minni brtt. mundu útgjöldin vegna fjárskiptanna í Dala- og Strandahólfi hækka um rúml. 1 millj. kr., — það mun vera rétt, ég vefengi ekki þær tölur, — en ég vil geta þess, að upphæðin kemur ekki til greiðslu á einu ári, því að hún skiptist á 3 ár og því sem næst þannig, að á næsta ári mundu koma til útgjalda um 400 þús., á þar næsta ári um 450 þús. og 250 þús. síðasta árið. Þarna er því ekki tekinn sá óskapa baggi á herðar ríkisvaldinu, sem margur mundi ætla, og samanborið við ýmis önnur mál, sem nú liggja fyrir hv. Alþingi, er hérna um smámuni eina að ræða. Ég trúi því tæpast, að Alþingi láti það um sig spyrjast, þótt fámennur bændahópur, sem á þarna í vök að verjast, fari fram á smáupphæð, að því verði neitað, þegar samþ. eru tugir millj., er ýmsir aðrir eiga í hlut.

Ég vil endurtaka það frá 2. umr. þessa máls, að þessi fjárskipti eru gerð algerlega fyrirvaralaust. Það er ekki neinn fyrirvari til þess að búa sig undir þau á nokkurn hátt með aðra framleiðslu og því gífurlegur tekjumissir fyrir hvern og einn bónda, sem á þarna hlut að máli. Auk þess hafa menn á undanförnum árum verið það bjartsýnir, að þeir hafa lagt í stórframkvæmdir og skapað sér miklar skuldir, sem þeir verða að standa straum af, hvort sem þeir hafa búfé eða ekki. Í þriðja lagi vil ég minna á það, sem er ekki veigaminnsta atriðið varðandi þetta mál, en það eru áhrif fjárskiptanna á hlutaðeigendur, hin sálrænu áhrif, sem eru mjög lamandi, þannig að það má búast við, að fjöldi bænda hverfi algerlega frá búum sínum, ef ekki verður nokkurn veginn hægt að ganga á sómasamlegan hátt frá þessum lögum, svo að það sé ekki fjárskorti einum um að kenna, að bændur þurfi að hrökklast frá búum sínum. Ég tel það mjög óæskilegt, og ég vænti því þess, að hv. alþm. fallist á mína brtt.