15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

103. mál, sauðfjársjúkdómar

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Í landbn., þar sem þetta mál hefur verið til umr., var öll landbn. sammála um að afgr. frv., sem gerir ráð fyrir 5 millj. hækkun frá því, sem var, hefði verið skorið niður eftir þeim lögum, sem áður giltu. Það fannst öllum, að það væri sjálfsagt að gera það og taka það til greina, að þetta er vágestur og hefur komið, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, þm. Dal., alveg fyrirvaralaust. Þessi upphæð, sem hann er að tala um, 1 millj. í viðbót, er auðvitað smáupphæð, það vorum við allir sammála um, á móti því, sem nú er. En ef við ættum víst, að veikin kæmi ekki fram síðar og þetta væri síðasta sporið til að vega að þessum vágesti hjá bændastéttinni, mæðiveikinni, væri ekkert um þetta að segja. Nú vitum við það ekki, og meðan svo er, álít ég persónulega, að Alþingi og þm. yfirleitt hafi sýnt fullan skilning um að mæta þessari plágu landbúnaðarins og sé mjög hættulegt, á meðan ekki er víst, að veikin sé búin, að hækka styrkinn eftir kröfum einstakra manna, þó að þær séu á rökum byggðar, alls ekki vegna þess, hve upphæðin sé há, og ekki vegna þess, að þeir eigi þetta kannske ekki skilið, en það er hættulegt fordæmi, ef við stöndum fyrir því á næstu árum og þá eiga ekki að koma til greina kröfur frá einstaklingum, því að Alþingi hefur sýnt fullan skilning á þessu. Þess vegna greiddi ég atkv. á móti till. um daginn og mun gera það aftur núna.