21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

157. mál, fjáraukalög 1953

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjvn. leggur til, að frv. það, sem hér liggur fyrir til fjáraukalaga fyrir árið 1953, verði samþykkt. N. bar frv. saman við ríkisreikninginn fyrir árið 1953 og gekk úr skugga um, að frv. er tölulega í fullu samræmi við reikninginn. Einnig athugaði n., að uppsetning frv. er í öllum atriðum á þá leið, sem fjvn. á síðasta þingi mælti fyrir um með athugasemdum sínum þá við frv. til fjáraukalaga fyrir 1952 og Alþingi féllst á. Sérstaklega á ég þar við skiptingu inn- og útborgana á 20. gr., sem er að sumu leyti eins og jöfnunarreikningur og kemur þar af leiðandi ekki öll fjáraukalögunum við. Annars má deila um það, hvernig skuli byggja npp fjáraukalögin. Út í það sé ég enga ástæðu til að fara. Alþingi hefur látið það form gilda, sem á þessu frv. er.

Á frv. eru taldar umframgreiðslur alls rúml. 94 millj., en þar af rúml. 34 millj. eignaaukning á 20. gr., en það eru veitingar til verklegra framkvæmda ríkisins, fasteignakaupa, enn fremur lánveitingar og sjóðmyndanir.

Ef litið er yfir 2. gr. frv., sést, að tekjur umfram fjárlagaáætlun hafa verið mestar af áfengisverzluninni og tóbakseinkasölunni, nettótekjur af áfengisverzlun umfram áætlun hátt á elleftu millj. króna og af tóbakseinkasölunni hátt á sjöundu millj. króna. Ef rennt er aftur á móti augum yfir viðbótarútgjöldin, sem orðið hafa samkv. einstökum greinum fjárlaganna, ber tvær greinar hæst. 13. gr. A er með 11.4 millj. umfram áætlun. Er það til vegagerða og viðhalds á vegum og til brúabygginga og viðhalds á brúm. Er þetta því fé, sem ekki hefur verið á glæ kastað. Hin greinin, sem hæst ber í umframgreiðslum, er 19. gr. 1. Þar eru umframborganir 11.7 millj. kr. Eru það útgjöld vegna dýrtíðarráðstafana, niðurgreiðslur, sem ekki mun hafa verið hægt að komast hjá og ekki er því um að sakast í þessu sambandi.

Annars tel ég enga ástæðu til þess að tala um einstaka liði frv. þessa. Það er um efni frá tíma, sem er liðinn fyrir tveim árum. Fjáraukalagafyrirkomulagið er orðið fremur óraunhæft, eins og ég mun hafa áður sagt hér á Alþingi. Umframgreiðslur eru staðfestar, um leið og ríkisreikningurinn fyrir hvert ár er samþykktur í þingdeildunum, en stjórnarskráin mælir svo fyrir, að fjáraukalög skuli lögð fyrir sameinað Alþingi. Þessu verður sennilega breytt, þegar stjórnarskráin verður að öðru leyti lagfærð, en þangað til verða fjáraukalög lögð á tvennan hátt fyrir Alþ., þ. e. með ríkisreikningnum og í sérstöku formi eins og þessu, sem hér liggur fyrir.

Ein prentvilla er í frv. til lýta, en sú villa villir þó ekki um fyrir neinum. Hún er í þriðju línu upp af grg. frv. Þar stendur „út eru veittir“, en á auðvitað að vera: út eru veittar, þar sem um krónur er að ræða. Þetta verður að sjálfsögðu leiðrétt í næstu prentun frv.

Eins og ég tók fram í upphafi og nál. á þskj. 512 ber með sér, mælir fjvn. með því, að frv. þetta verði samþykkt eins og það liggur fyrir.