01.03.1956
Neðri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 409, sem er frv. til laga um atvinnuleysistryggingar, er lagt hér fram af hálfu ríkisstj., og vil ég leyfa mér að fara um það og þetta mál nokkrum orðum.

Þetta frv., sem hér er flutt nú í hv. Nd., er flutt samkvæmt fyrirheiti því, sem ríkisstj. gaf um setningu slíkrar löggjafar í sambandi við lausn verkfallsins um mánaðamótin apríl-maí s. l. Ég vil strax geta þess, sem í raun og veru allir hv. þdm. hafa að sjálfsögðu athugað, að það samkomulag, sem þá var gert milli deiluaðila og ríkisstj., er birt hér sem sérstakt fskj., fskj. I, og þarf ég því ekki að lesa það upp, en fskj. I, þeir níu punktar, sem þar eru taldir, er raunverulega grundvöllurinn að þessu frv.

Ég skal strax taka það fram, að skömmu eftir lok verkfallsins skipaði ríkisstj. fimm manna nefnd til þess að semja nauðsynleg lagafrv., þannig að hægt væri að efna þau heit, sem gefin voru í sambandi við lausn vinnudeilunnar, og samkvæmt fyrsta atriði samkomulagsins skyldu lög þessi sett í samráði við verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda. Samkvæmt tilnefningu þessara aðila voru því skipaðir í þá nefnd, sem samið hefur þau frv., sem hér er um að ræða og raunverulega eru tvö, þeir Eðvarð Sigurðsson af hálfu Alþýðusambands Íslands og Björgvin Sigurðsson af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands.

Þegar þessi n. var skipuð, var starfandi önnur nefnd að samningu nýrra laga um almannatryggingar eða endurskoðun á þeirri löggjöf og ýmsum breytingum, og þar sem atvinnuleysistryggingarnar eru ein grein almannatrygginga, hefði kannske í raun og veru verið eðlilegast, að ákvæðin um atvinnuleysistryggingar hefðu verið samin sem einn kafli í almannatryggingalögunum og felld inn í þá löggjöf, sem var til endurskoðunar alveg á sama tíma. Og m. a. af því, hve þessi mál eru náskyld, varð að ráði að skipa aðra nm. en þá, sem vinnuveitendur og samtök verkamanna skipuðu, úr þeirri nefnd, sem starfaði þá að endurskoðun almannatryggingalaganna, og voru þá skipaðir í n. þeir Gunnar J. Möller hæstaréttarlögmaður, Haraldur Guðmundsson forstjóri og alþm. og Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, og var hann um leið skipaður form. n., en þessir þrír menn áttu sæti í þeirri nefnd, sem fjallaði um almannatryggingarnar.

Það kom fljótt í ljós, eftir að n. fór að starfa, að það horfði fremur óvænlega um það, að samkomulag gæti náðst um að taka þetta upp sem einn kafla í hinni almennu almannatryggingalöggjöf, og þar sem það virtist vera ýmsum erfiðleikum háð, var að því horfið að gera það ekki, heldur skipa þessum málum með sérstöku frv. og sérstökum lögum.

Það var ætlun ríkisstj. að leggja þetta frv. fyrir hið háa Alþ. snemma á þingtímanum, miklu fyrr en nú hefur orðið, og tel ég rétt að skýra lauslega frá því, hvaða ástæður liggja til þess, að það hefur ekki tekizt fyrr en nú að leggja frv. hér fram. Meginástæðan er sú, að þegar farið var að ræða um setningu þessarar löggjafar og þá um leið að sjálfsögðu, hvaða meginatriði skyldu vera í því frv., er lagt yrði fyrir Alþ., kom í ljós, að ýmis ákvæði í þeim punktum, sem eru grundvöllur að frv. og samið var um varðandi lausn vinnudeilunnar, voru mjög umdeild af þeim, sem hér áttu hlut að máli. í n. varð því fljótt ágreiningur um þessi atriði og þá einkum milli fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, sem áttu sæti í n. Tafði þetta að sjálfsögðu mjög störf n., og má segja, að þeim ágreiningi sé ekki lokið, því að fullt samkomulag hefur alls ekki náðst um þetta mál, þó að frv. að sjálfsögðu verði nú að koma fram og megi alls ekki dragast lengur, að það komi hér til meðferðar í Alþingi.

N., sem fjallaði um þetta mál, hefur haldið eitthvað rúmlega 20 bókaða fundi, en auk þess hafa verið haldnir fjöldamargir fundir, sem ekki eru bókaðir, en sérstaklega form. n. og einstakir nm. hafa setið varðandi ýmis sérstök atriði, og mun óbætt að fullyrða það, að n. hefur orðið að leggja geysimikið starf í þetta frv., og gildir það fyrir alla nm., þó að hins vegar sé víst, að form. n. hefur orðið þar að leggja mest erfiði á sig, eins og málið hefur legið fyrir.

Tillögur um samkomulag innan n., sem ríkisstj. lagði mikla áherzlu á að reynt yrði að ná, ef unnt væri, hafa að sjálfsögðu verið ræddar fram og aftur, eins og gengur, en árangurinn hefur verið sá, eins og ég drap á áðan og mun koma að síðar, að samkomulag hefur ekki náðst í n. um öll atriði. Mun ég skýra nánar frá því, áður en ég lýk þessu máli mínu hér, og það eru í raun og veru fjórir nm., sem skilað hafa ágreiningsatriðum, varðandi frv., eins og ég kem að síðar, þ. e. a. s. þeir Björgvin Sigurðsson fyrir Vinnuveitendasambandið, Eðvarð Sigurðsson fyrir Alþýðusamband Íslands og svo þeir Haraldur Guðmundsson og Gunnar Möller, sem einnig hafa gert ágreiningsatriði, sem skýrt verður frá.

Ég vil geta þess nú strax, að um eitt helzta ágreiningsefnið í n., sem var um greiðslu bótanna, hvar og hvernig þær skyldu greiddar út, þá bauð ríkisstj., þar sem þarna virtist vera um atriði að ræða, sem engin leið var að fá samkomulag um innan deiluaðilanna, Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins, að leggja málið í gerð, en þessu var hafnað af báðum aðilum. Ég vil jafnframt geta þess, að ríkisstj. var mjög fús til þess að taka fleiri ágreiningsatriði sömu tökum, ef unnt hefði verið að fá deiluaðila til þess að hlíta því, og ríkisstj. var fyrir sitt leyti algerlega reiðubúin til þess að hlíta úrskurði slíks gerðardóms um þau atriði, sem lögð yrðu fyrir.

Ríkisstj. hefur frá upphafi viljað í öllum atriðum efna það heit, sem hún gaf, þegar samkomulagið varð. En henni hefur verið mikill vandi á höndum varðandi þau atriði, eins og allir hv. þdm. munu sjá og skilja. Ríkisstj. vildi í lengstu lög freista þess að fá samkomulag í þessu efni, ef þess væri nokkur kostur, en ef það ekki fengist, þá að deiluaðilar kæmu sér saman um gerð, sem óhlutdrægt skæri úr því, hvernig bæri að skilja hin einstöku atriði í þeim samningi, sem gerður var þegar vinnudeilan var leyst. En þar sem þetta hefur ekki tekizt, hefur ríkisstj. nauðug eða viljug orðið að leggja úrskurð á vissa hluti í sambandi við þetta, þar sem ekki náðist samkomulag og ekki fékkst heldur samkomulag um, að þessir punktar yrðu lagðir fyrir sérstakan gerðardóm, sem ríkisstj. þá ætlaði að beygja sig fyrir. En sum af þessum atriðum, sem valdið hafa ágreiningi, eru þannig vaxin, að hver úrskurður, sem á það yrði lagður, mundi vera talinn brigð á því, sem heitið var, af öðrum hvorum aðila.

Svo má nú segja, að önnur ástæða fyrir því, hve seint frv. kemur fram, sé sú, að það hafa verið miklar annir hjá ríkisstj. varðandi önnur mál, sem hefur orðið að leysa, og hefur það að sjálfsögðu að nokkru leyti tafið framkomu þessa frv.

Ég er í raun og veru ekki með neinar afsakanir gagnvart þessu hér. Í samkomulaginu var sagt, að frv. skyldi afgreitt á næsta þingi, og ríkisstj. telur það skyldu sína að vinna að því, að frv. verði afgreitt á því þingi, sem nú situr.

Ég skal nú með örfáum orðum snúa mér að frv. sjálfu, en ég skal strax taka það fram, að ég mun alls ekki fara hér að minnast á einstakar greinar frv., tel það líka að öllu leyti ástæðulaust. Í því efni nægir að vísa til frv. sjálfs og þeirra aths., sem fylgja varðandi hverja grein og eru að mínum dómi mjög glöggar og nægilegar í þessu efni. En ég vil fara nokkrum almennum orðum um þetta mál þrátt fyrir það.

Skal ég þá fyrst taka það fram, að ákvæðin um atvinnuleysistryggingar voru fyrst lögtekin hér á landi með lögum um alþýðutryggingar frá árinu 1936, en í V. kafla þeirra laga var gert ráð fyrir, að verkalýðsfélögin mynduðu atvinnuleysistryggingasjóði með iðgjaldagreiðslum sjóðfélaga sinna. Skyldi ríkissjóður og hlutaðeigandi sveitarsjóður greiða hvor um sig framlög til sjóðanna, er árlega næmu frá hvorum aðila 50% greiddra iðgjalda sjóðfélaganna sjálfra. Þessi ákvæði hafa reynzt dauður bókstafur, þó að 20 ár séu síðan þetta var lögfest í heimildarformi, og hafa aldrei komið til framkvæmda á neinn hátt.

Í öðru lagi vil ég þó geta þess, að með lögum nr. 42 frá 1943 var svo ákveðið, að verja skyldi 3 millj. kr. af verðlækkunarskatti til þess að efla alþýðutryggingarnar, en þegar núverandi lög um almannatryggingar voru sett, var fé þessu óbeint ráðstafað til væntanlegra atvinnuleysistrygginga, og leyfi ég mér þar að vísa í 100. gr. þeirra laga um þetta efni. Þessi sjóður nam nú um síðustu árslok um það bil 4 millj. 360 þús. kr., og það má því segja, að þessi upphæð sé stofnfé atvinnuleysistryggingasjóðsins, sbr. 1. gr. frv. eins og það liggur nú hér fyrir, og vil ég einnig vitna í 7. atriði samkomulagsins í fskj. því, sem ég hef nefnt hér áður. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í ýmsum atriðum mjög frábrugðið þeim l., sem í öðrum löndum gilda um þessar tryggingar, þar sem þær hafa verið teknar upp, og það er ýmislegt, sem veldur því, og m. a. ýmis ákvæði, sem sett voru í margáðurnefndum samningi, sem gerður var þegar vinnudeilan var leyst. Ég vil aðeins nefna hér tvö atriði, þó að af fleiru væri að taka. Í fyrsta lagi vil ég nefna það, að það náðist ekki samkomulag um, að verkamenn sjálfir greiddu einhvern hluta af iðgjöldum til atvinnuleysistryggingasjóðanna, en sá háttur mun víðast hvar, a. m. k. hér í öllum nágrannalöndum okkar, vera á hafður og þá framlög annarra aðila, ríkissjóðs og sveitarsjóða, miðuð við það á einn eður annan hátt; hlutföllin náttúrlega geta verið mjög breytileg í þessu efni og munu vera það. Í margnefndu samkomulagi bundu atvinnurekendur sig við það að greiða iðgjöld til sjóðsins í vissum hlutföllum. Framlög sveitarsjóðs og ríkissjóðs eru svo miðuð við iðgjöld atvinnurekendanna, framlög sveitarsjóðanna jafnhá iðgjöldum atvinnurekendanna og framlag ríkissjóðs tvöfalt við það. — Ég vil svo í öðru lagi nefna annað, og það er það ákvæði, sem einnig er bundið í margnefndu samkomulagi, að það, sem innheimt er á félagssvæði og í starfsgrein hvers einstaks félags eða félagssambands, skuli lagt inn á sérreikning þess félags eða sambands í sjóðnum. Vitna ég þar í 1. gr. frv. sérstaklega og svo í fjórða atriði samkomulagsins. Þetta hefur a. m. k. að ýmsu leyti veikar hliðar í för með sér. Vil ég aðeins í þessu sambandi á það benda, án þess að ástæða sé til að fara að rökræða það sérstaklega, því að það er enginn ágreiningur um, að samkvæmt því samkomulagi, sem gert var, skuli þessu skipað á þennan hátt, að á þeim stöðum, þar sem mikil atvinna er, verða að sjálfsögðu iðgjöld atvinnurekenda mikil, og sama gildir þá að sjálfsögðu um framlög ríkis og sveitarsjóða. Sjóðir þessara staða verða því væntanlega og vonandi brátt allmiklir, og ef við reiknum með venjulegu atvinnuástandi, geta þeir á tiltölulega fáum árum orðið í sjálfu sér geysimiklir sjóðir. En einmitt á þessum stöðum mun yfirleitt þurfa lítils fjár til þess að greiða atvinnuleysisbætur, vegna þess að þar er yfirleitt næg atvinna.

En öfugt við þetta er því farið á þeim stöðum, þar sem atvinnan er mjög stopul. Þar verða iðgjöld atvinnurekenda að sjálfsögðu tiltölulega lág og framlög sveita og ríkis slíkt hið sama, en á þessum stöðum verður einmitt þörfin fyrir atvinnuleysisbætur mikil vegna meira atvinnuleysis þar en í hinum öðrum landshlutum, og möguleikarnir þá um leið litlir til þess að mæta þeirri miklu þörf, sem þar kann að vera. Það má því í raun og veru segja, að þörfin fyrir bótagreiðslur sé að nokkru leyti í öfugu hlutfalli við fjármagn það, sem fyrir hendi er til greiðslu bótanna. Það er nú vitanlega mjög vafasamt, svo að ég hafi ekki stærra orð, að þetta sé rétt, og þess vegna vildi ég drepa einmitt á þetta atriði hér nú. En eins og ég sagði áður, þá er ég ekki með þetta af því, að ríkisstj. hafi dottið í hug að breyta þeim ákvæðum, sem um þetta gilda í margnefndu samkomulagi.

Það má að vísu taka það fram, að í 19. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir, er heimild til þess að lána milli sérreikninga, ef ríkisábyrgð er fyrir hendi, og má segja, að það létti nokkuð fyrir í þessu efni, en leysir þó ekki sjálft vandamálið í sjálfu sér. Og ég vil segja, að í þessu sambandi er það að mínum dómi mikilsvert atriði, sem segir í aths. við 3. gr., en þar segir, að n. hafi verið sammála um það varðandi þau útlán, sem fært yrði að veita úr sjóðnum, að forgangsrétt eigi lán, sem ætluð eru til varanlegrar atvinnuaukningar á þeim stöðum, þar sem sérstaklega mikil þörf er fyrir slíkar framkvæmdir, og vil ég ekki lítið úr því gera, að það megi nota sjóði, sem væntanlega safnast, einmitt til þess að jafna atvinnuskilyrðin á þennan hátt.

Ég hef hér drepið aðeins á tvö atriði í þessu frv., sem ég hygg að séu býsna sérstæð og afbrigðileg frá því, sem er yfirleitt í löggjöf annarra nágrannaríkja okkar, sem eru þó með svipaða löggjöf á flestum sviðum um þetta. Það mætti nefna ýmislegt fleira, en ég sé ekki ástæðu til þess og sleppi því a. m. k. nú algerlega að sinni.

Ég skal taka það fram, að frv. er að sjálfsögðu frumsmíð, eins og ekki þarf að nefna, þar sem þetta er í fyrst sinn, sem veruleg löggjöf hefur verið sett um atvinnuleysistryggingar. Þó að vísir til þess væri lagður fyrir 20 árum, var það ekki nein heildarlöggjöf um þetta atriði, og ég tel alveg víst, að við framkvæmd l. muni brátt koma í ljós, að það hafi láðst að setja ýmis ákvæði, sem þar þurfa að vera, og að breyta þurfi jafnframt ýmsum ákvæðum, sem í frv. eru, eins og þau eru nú. Og í þessu sambandi vildi ég þá líka minna á það, að eitt atriði í hinu margnefnda samkomulagi, sem einnig er að sjálfsögðu tekið inn í þetta frv., er um það, að lög þessi skuli endurskoðuð eftir tvö ár, og þá gefst að sjálfsögðu kostur á því að nota þá reynslu, sem fengin er, og að öðru leyti endurbæta þessa 1öggjöf eftir því, sem hið háa Alþ. þá mun telja rétt að gera.

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvort ég mætti ekki hér nú um leið minnast á næsta mál á dagskránni, vinnumiðlun. Þessi frv. heyra algerlega saman, og ég tel ástæðulaust í sjálfu sér að vera með sérstaka framsögu fyrir það frv., og ef hæstv. forseti leyfir það, þá mun ég segja örfá orð um vinnumiðlunarfrv., sem flutt er hér á þskj. 410. Ég mun ekki fara mörgum orðum um það frv.

Það var strax ljóst, að til þess að hægt væri að framkvæma atvinnuleysistryggingalöggjöfina, yrði um leið að koma á fót öruggu kerfi um vinnumiðlun, og er frv. um vinnumiðlun að sjálfsögðu því byggt upp algerlega í sambandi við hitt frv. Í n. var ekki verulegur ágreiningur um það frv., að ég hygg, og einstakir nm. hafa ekki látið bóka neina fyrirvara varðandi það frv. Hins vegar mun það nú vera svo, að það eru einhver smærri atriði í því frv., sem ágreiningur er um og jafnvel ágreiningur innan ríkisstj. um einstök atriði þar. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég er fús til samvinnu við þá n., sem fær þessi frv. til meðferðar, til þess að reyna að jafna þann ágreining, ef hann er einhver verulegur. Ég get aðeins um þetta hér og þykir rétt að taka það fram.

En að öðru leyti vil ég taka þetta fram: Við höfum að vísu lög hér á Íslandi um vinnumiðlun, en þau lög eru aðeins heimildarlög. En þar sem rétturinn til atvinnuleysisbóta skal sannaður með vottorði vinnumiðlunar, nægja alls ekki heimildarlög í þessu skyni, og þess vegna varð að setja lög um vinnumiðlun, um leið og hin löggjöfin yrði sett. Það verður m. ö. o. að tryggja vinnumiðlun á öllum þeim stöðum, sem lögin eiga að taka til, en samkvæmt frv., eins og það liggur fyrir, tekur það til kauptúna, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og svo kaupstaða. En til þess að fyrirbyggja allt of umfangsmikið skrifstofubákn í sambandi við vinnumiðlunina, er svo ákveðið í frv., að hver sveitarstjórn annist hana í sínu sveitarfélagi í samráði við og með aðstoð fulltrúa frá verkamönnum og atvinnurekendum. Sveitarstjórnum er heimilt að fela vinnumiðlunina oddvita sínum eða sveitarstjórum, ef þeir eru, bæjarstjórum á stærri stöðum, eða sérstökum manni, og einnig er bæjarstjórnum heimilt að setja á fót vinnumiðlunarskrifstofur, ef þær telja ástæðu til að hafa þann hátt á, að þar sé beint um ákveðna, sérstaka stofnun að ræða til að gegna þessum málum. Þessi vinnumiðlun verður rekin undir yfirumsjón félmrn., en félmrn. skal njóta ráða og aðstoðar fulltrúa bæði frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands um allt það, sem vinnumiðlun snertir. Það er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður beri 1/3 hluta kostnaðar við vinnumiðlun sveitarfélaga, og er þetta ákvæði í samræmi við þau ákvæði, sem eru eða voru í eldri lögum um vinnumiðlun.

Við samningu frv. um vinnumiðlun hafa mjög verið hafðar til hliðsjónar samþykktir alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnumiðlun, sem Ísland er þátttakandi í, eins og hv. alþm. vita, og ef þetta frv., eins og það nú liggur fyrir, verður að lögum, þá má fullgilda þær samþykktir ILO, þ. e. a. s. alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fjalla um þessi efni. Það hefur verið athugað, að þessi löggjöf, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, fullnægir að öllu þeim ákvæðum eða þeim skilyrðum, sem þar eru sett um þessi efni, en til þessa hefur vantað ákvæði í lög hjá okkur, til þess að við gætum fullgilt þær samþykktir ILO, sem snerta þessi atriði. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að flest nágrannaríkja okkar, þ. e. a. s. Norðurlöndin, hafa fullgilt þessar samþykktir ILO.

Ákvæði núgildandi laga um atvinnuleysisskráningu eru felld inn í frv. eins og það nú liggur fyrir, þar sem slík skráning er að sjálfsögðu einn þáttur í vinnumiðluninni.

Ég mun nú mjög fara að stytta mál mitt, en tel þó rétt með örfáum orðum að geta um fyrirvara einstakra nm. varðandi frumvarpið. Eins og ég tók áðan fram, hafa ekki verið bókuð nein ágreiningsatriði varðandi frv. um vinnumiðlun.

Björgvin Sigurðsson fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, hefur lagt til, að iðgjaldagreiðsluskylda atvinnurekenda verði bundin við þær launagreiðslur einar, sem inntar eru af höndum til tryggðs aðila. Vil ég þar vitna í annað atriði samkomulagsins. Hér má segja að sé eitt dæmi um nokkuð óljóst orðalag í þessu samkomulagi, sem a. m. k. auðveldlega getur valdið ágreiningi um það, hvernig beri að skilja, og það má mjög spyrja: Hver er tryggður aðili? Er það sá einn, sem nýtur bóta? Og ef svo er: Hvernig geta þá skattayfirvöldin vitað það, þegar iðgjöld eru lögð á, hverjir kunna að njóta bóta? En sé með tryggðum aðilum átt við þá eina, sem eru meðlimir í verkalýðsfélagi, má segja, að álagningin væri framkvæmanleg, a. m. k. fræðilega, en það yrði feiknaviðbótarstarf, sem lagt yrði á skattayfirvöldin, ef fara ætti að þessari greiningu, og þar að auki er sá alvarlegi ljóður á þessu ráði, að með þessu móti yrðu launagreiðslur atvinnurekenda lægri vegna þeirra verkamanna, sem eigi eru meðlimir í verkalýðsfélagi, en það mun hafa verið meginregla hvarvetna, þar sem verkalýðsfélög starfa, að þau hafa ekki sætt sig við, að unnið væri fyrir lægra kaup en þau hafa samið um við atvinnurekendur, og þetta gildir ekki aðeins um félagsmenn, heldur og alla þá aðra, sem unnið hafa vinnu, sem taxti hefur verið settur um. Í frv. er því svo ákveðið, að atvinnurekendur greiði iðgjöld vegna allrar þeirrar vinnu, sem unnin er á þeim stöðum, þar sem lögin gilda og hlutaðeigandi verkalýðsfélag hefur sett eða samið um kauptaxta fyrir. Björgvin bendir að vísu algerlega réttilega á það í fyrirvara sínum, að ósamkvæmni sé í því, að meðlimir verkalýðsfélaga einir geti öðlazt bætur, þótt iðgjöld séu greidd vegna allra verkamanna. Rétt er að vekja athygli á því, að þeir eru nú að vísu ekki sjálfsagt mjög margir, sem annars ættu rétt til atvinnuleysisbóta, sem eru ekki félagar í verkalýðsfélagi, svo að þetta getur ekki í heildinni raskað stórmiklu, þó að segja megi, að hér sé ekki um rökrétta framkvæmd að ræða að öllu leyti.

Svo er það annað atriði, sem Björgvin Sigurðsson einnig bókar ágreiningsatriði um, og það er varðandi, að þar sem tekjur atvinnuleysistryggingasjóðs eiga að færast á sérreikninga hlutaðeigandi verkalýðsfélaga, verður ekki séð, að fært sé að ráðstafa þeim til utanfélagsmanna, slíkt væri brot á samkomulaginu. En Björgvin hefur haldið því fram, að það ákvæði frv., sem ákveður, að úthlutunarnefnd annist bótagreiðslur, — vitna ég þar í 21. gr. frv., — sé brot á þeim forsendum, sem samkomulagið hafi verið byggt á, og þetta er að því leyti rétt, að orðið „úthlutun“, sem viðhaft er í samkomulaginu, sbr. 6. atriði þess, bindur það ekki í sér, að bæturnar skuli greiðast af úthlutunarnefndum, en það er einmitt þetta atriði, sem ríkisstj, bauð deiluaðilum að leggja í gerðardóm og fá þannig útkljáð, en báðir aðilar höfnuðu slíku, eins og ég hef áður tekið fram. En að vandlega athuguðu máli var ákveðið eða litið svo á, að umrætt fyrirkomulag skyldi standa opið og valin sú leið, sem nánar segir frá í 21. gr., sem fulltrúi verkalýðssamtakanna, Eðvarð Sigurðsson, taldi sig eftir atvikum geta unað við.

Önnur fyrirvaraákvæði Björgvins hafa minni þýðingu, og sé ég ekki ástæðu til að fara inn á þau, enda er hægt að kynna sér þau í þeirri grg., sem fylgir frv.

Eðvarð Sigurðsson, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, gerir athugasemdir við skipan sjóðsstjórnar og skipan þeirra tveggja manna í úthlutunarnefnd, sem laus er látin í samkomulaginu. Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði út af fyrir sig. En loks telur hann, að hámark bóta samkvæmt 18. gr. ætti að vera hærra en þar er ákveðið, en hámark bótanna samkv. 18. gr. er hið sama og bætur vegna slysa. En ef borin eru saman þessi tvö atvik, þ. e. a. s. slys sem grundvöllur bótagreiðslna annars vegar og atvinnuleysi sem grundvöllur bótagreiðslna hins vegar, þá virðist mér það koma mjög glöggt fram, að hið fyrra er mun traustari grundvöllur fyrir bótagreiðslum en hið síðarnefnda, og má minna á það, að slysið er það atvik, sem fyrst þótti ástæða til að tryggja með sérstakri löggjöf hér á landi. Atvinnuleysið hefur alltaf þótt öllu vafasamari grundvöllur, enda er það fyrst nú, sem ráðizt er í slíkar tryggingar hér hjá okkur. Það er því að mínum dómi ósamræmi í því, ef greiða ætti hærri bætur vegna atvinnuleysis en vegna slysa, sem fyrir kæmu. Tekjuöflunin út af fyrir sig virðist ekki geta ráðið úrslitum í þessu efni. Atvinnurekendur einir bera uppi slysatryggingarnar, en atvinnuleysistryggingarnar verða bornar uppi af opinberum aðilum að 3/4 hlutum, eins og áður hefur verið sagt, og af atvinnurekendum að ¼ hluta.

Þá vil ég nefna fyrirvara Haralds Guðmundssonar. Hann vill mynda sérstaka ríkisstofnun til þess að annast vinnumiðlun, atvinnuleysistryggingar o. fl. Ég hef áður vakið athygli á því, að atvinnuleysistryggingar séu í raun og veru aðeins ein grein almannatrygginganna. Haraldur Guðmundsson mun hafa aðhyllzt þessa skoðun, þegar hann á árinu 1936 beitti sér fyrir setningu alþýðutryggingalaganna þá. Þá var hann félmrh., en atvinnuleysistryggingarnar eru sérstök tryggingagrein, eins og áður er fram tekið, innan almannatryggingalaganna, algerlega samsvarandi slysatryggingum og sjúkratryggingum. Þær eiga því í raun réttri heima á sama stað og þessar tryggingar, eða hjá Tryggingastofnun ríkisins, og sá staður er þeim nú búinn í því frv., sem hér liggur fyrir, eftir því sem frekast er hægt að koma því við.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um fyrirvara Haralds Guðmundssonar varðandi frv. Ég vil svo að lokum geta þess, að Gunnar J. Möller tók ekki afstöðu til 21. gr. frv., en lét þess getið í gerðabók n., að hann teldi eðlilegast, að félmrh. legði frv. fram með þeirri túlkun á sjötta atriði samkomulagsins, sbr. fskj. I, sem honum þætti helzt hlýða að tiltækilegt væri.

Ég skal nú ljúka máli mínu, en vil aðeins segja að lokum, að eins og ljóst er af samkomulaginu, sbr. margnefnt fskj. I, hefur ríkisstj. gefið fyrirheit um, að frv. þetta skuli lagt fram á þessu þingi og afgreitt á því, hafi hún vald á málinu. Og þótt langt sé liðið á þetta þing, þegar mál þetta er nú lagt fram, vil ég leyfa mér að leggja megináherzlu á það, að hv. Nd. og sú n. þá fyrst, sem fær málið væntanlega til meðferðar eftir þessa umr., vinni örugglega og fljótt að því.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. báðum vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.