01.03.1956
Neðri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal taka það fram strax í byrjun, að ég mun ekki ræða neitt að ráði sérstakar greinar frv., heldur tala almennt um málið og þýðingu þess.

Frv. til laga um atvinnuleysistryggingar á þskj. 409, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi og er til 1. umr. hér í hv. d., er flutt af hæstv. ríkisstj. Ástæðurnar fyrir því, að frv. þetta er flutt af ríkisstj., eru þær, sem flestum eru kunnar, að í lok verkfallsins s.l. vor var um það samið við hæstv. ríkisstj. fyrir forgöngu hinnar ríkisskipuðu sáttanefndar og með fullu samþykki samninganefndar verkalýðsfélaganna, að sett yrðu lög um atvinnuleysistryggingar á næsta Alþingi. Um þetta mjög svo merkilega mál var svo gert samkomulag í 9 liðum. Ég tel, eins og hæstv. félmrh. tók fram, að það sé ekki þörf á því að fara að lesa þessi atriði upp, en frv. sjálft er byggt á þessum níu atriðum.

Hæstv. ríkisstj. skipaði svo fimm manna nefnd til að semja frv. að lögum um atvinnuleysistryggingar. Skyldi frv. þetta einmitt byggt á hinum níu atriðum, eins og ég hef áður tekið fram, sem sáttanefndin og samninganefndir beggja aðila höfðu komið sér saman um og samþykkt og urðu svo grundvöllur þess og eitt aðalatriði í því, að samkomulag náðist í hinum langvarandi og víðtæku verkföllum s.l. vor.

Við samanburð þessa samkomulags og frv. um atvinnuleysistryggingar verður ekki annað sagt en að nm. hafi tekizt starfið vel, og þótt ýmislegt megi að sjálfsögðu að þessu frv. finna og þó að í því séu viss ákvæði, sem verkalýðshreyfingin hefði óskað að væru á annan veg en frv. gerir ráð fyrir, mun verkalýðshreyfingin í heild fagna þessu frv. og telja, að með samþykkt þess sé mjög merkum áfanga náð í hagsmunabaráttu hennar. Í umr. um þetta mál er rétt að benda á þá staðreynd, að það var fyrir atbeina og fórnfúsa baráttu meðlima verkalýðshreyfingarinnar s.l. vor, sem þetta merka mál er nú fram komið.

Í samningunum s.l. vor var um þetta mál samið við hæstv. ríkisstj. sem einn þátt til lausnar verkfallsins. Atvinnuleysistryggingarnar eru því raunverulegur hluti af þeim kjarabótum, sem fengust í verkfallinu síðasta. Í útreikningum um það, hvað þær kjarabætur hafi numið miklu, sem fram fengust í síðasta verkfalli, var talið og það sjálfsagt með réttu, að samkomulagið um atvinnuleysistryggingarnar mundi samsvara 4% kauphækkun. Ég held, að það sé ekki hægt að reikna þetta í hreinni prósenttölu. Ég held, að þetta mál sé miklu stærra en það, að hægt sé að meta það nú eins og það kemur til með að verka í framtiðinni. Það munn þeir staðir á landinu, sem búið hafa við atvinnuleysi mánuðum saman og árum saman, koma til með að skilja. Nú er það til í dæminu, að verkalýðssamtökin hefðu getað knúið fram beina kauphækkun, sem svaraði til þessa samkomulags, sem varð við ríkisstj. um atvinnuleysistryggingarnar, eða m.ö.o. máske knúið fram 4% grunnkaupshækkun til viðbótar þeirri grunnkaupshækkun, sem fékkst, gegn því þá að fá engar atvinnuleysistryggingar. En forustumenn og meðlimir verkalýðssamtakanna voru ekki í neinum vafa um það, hvora leiðina skyldi farið. Með því að semja um, að sett yrðu lög um atvinnuleysistryggingar, var verið að stórauka öryggi verkafólksins gagnvart hugsanlegu atvinnuleysi. Með þessu var verið að semja fyrir framtíðina. Þetta er mjög merkilegt atriði í sögu þessa máls, sérstaklega þegar það er haft í huga, að sá hluti verkalýðsins, sem stóð í verkfallinu og færði mestar fórnirnar, hafði ekki búið við neitt teljandi atvinnuleysi í mörg ár og að ekkert sérstakt benti þá til þess, að atvinnuleysi væri hér á næstu grösum.

Þetta sjónarmið þeirra forustumanna verka. lýðshreyfingarinnar, sem stóðu í deilunni, sýnir máske betur en flest annað styrkleika og þann mikla samhug, sem er ríkjandi meðal verkalýðshreyfingarinnar. Þegar um þetta mál var samið á s.l. vori, var því lýst yfir af trúnaðarmönnum verkalýðssamtakanna, að þrátt fyrir það að þeir til samkomulags og til lausnar verkfallinu hefðu samþ. till. ríkisstj. um atvinnuleysistryggingar, þá væru þeir mófallnir því ákvæði 4. gr. samkomulagsins að skipa sérstaka stjórn fyrir sjóðinn, þar sem verkalýðssamtökin ættu t.d. ekki nema einn fulltrúa. Þeirra krafa var, að stjórn sjóðsins væri að öllu leyti í höndum verkalýðssamtakanna sjálfra. Endir þessa kröfu hefur verkalýðshreyfingin tekið, enda er hún byggð á fyllstu rökum. Gert er ráð fyrir í 22. gr., að lög þessi skuli endurskoðuð eftir tvö ár og haft um það samráð við verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda. Þá mun að sjálfsögðu verða upptekin krafan um yfirráðarétt verkalýðsfélaganna yfir sjóðnum, ef ekki hefur áður tekizt að fá þessu ákvæði breytt á þann veg, sem verkalýðssamtökin geta sæmilega vel við unað. Eins og þetta ákvæði er nú í frv., er það þannig, að stjórn sjóðsins skal skipuð 7 mönnum, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands og fimm kjörnir af alþingi. Þessu fyrirkomulagi geta verkalýðsfélögin ekki unað til frambúðar, enda strax í upphafi lýst yfir af fulltrúa verkalýðsfélaganna og undirstrikað af fjölmörgum verkalýðsfélögum síðar, að þau mundu vinna að því að fá þessu breytt í það horf, sem þau gætu sætt sig við, þannig að yfirstjórn atvinnuleysistryggingasjóðs yrði í höndum verkalýðssamtakanna sjálfra. Þetta er mjög mikið stefnumál fyrir verkalýðshreyfinguna í heild. Með því að neita verkalýðssamtökunum um þennan sjálfsagða rétt, að fá í sínar hendur stjórn sjóðsins, er samtökum verkafólksins í landinn sýnd óviðeigandi tortryggni, sem er í alla staði óverðskulduð. Menn verða að hafa það í huga, að þetta mál er eitt atriði í samningi, sem gerður var við verkalýðssamtökin, með samkomulagi verkalýðsfélaganna að leggja t.d. 4% af þeim kjarabótum, sem þau knúðu fram í verkfallinu s.l. vor, í atvinnuleysistryggingasjóð. Ég gat þess áðan, að það voru töluverðar líkur til þess, að verkalýðshreyfingin hefði getað knúið í gegn grunnkaupshækkun, sem þessu nam. Menn skulu bara minnast þess, að verkalýðshreyfingin hér í Reykjavík var algerlega ólömuð þegar samið var, og ekkert bendir til þess, að hún hefði ekki getað haldið verkfallinu áfram og knúið í gegn t.d. sem svarar 4% hærri grunnkaupshækkun. En verkalýðsfélögin og forustumenn þeirra völdu hinn kostinn og sýndu þar með, eins og svo oft áður, fullkomna ábyrgðartilfinningu í starfi. Það er því í fylista máta hin mesta óhæfa að mínum dómi að ætla sér að svipta verkalýðsfélögin þeim sjálfsagða rétti að hafa yfirstjórn þessara mála í sínum höndum. Slíku óréttlæti man verkalýðshreyfingin ekki una, og hún mun nota fyrsta fáanlega tækifærið til þess að ná þessum rétti í sínar hendur, þeim rétti, sem henni tvímælalaust ber. Ég skal taka það fram, að eins og frá var gengið hinum níu atriðum, var þegar búið að semja um þetta atriði, þannig að sú nefnd, sem samdi lögin, hafði bundnar hendur í þessu máli og gat þar af leiðandi ekki annað en haldið sér við þau atriði, sem þar var búið að semja um.

Ég vil taka það fram, að ég er að öllu leyti sammála fyrirvara og skýringum, sem fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Eðvarð Sigurðsson, hefur gert við frv., og tel því ekki ástæðu til þess að ræða frekar um smærri agnúa, sem kynnu að vera á frv., eins og t.d. um hámark bótaupphæða, sem ég er honum sammála um að sé of lágt. Allt slíkt stendur þó væntanlega til bóta, þegar sýnt þykir, að sjóðurinn þoli hærri bótagreiðslur.

Atvinnuleysistryggingarnar hafa verið baráttu- og dagskrármál allrar verkalýðshreyfingarinnar fjöldamörg ár. Á undanförnum þingum hafa verið flutt bæði frv. og þáltill. um, að komið yrði á atvinnuleysistryggingum. Þm. Sósfl. hafa þing eftir þing flutt frv. til laga um atvinnuleysistryggingar, en án þess að slík frv. hafi náð samþykki Alþingis. Ég vil alveg undirstrika það, sem hv. 7. landsk. þm. sagði, sem talaði hér áðan á undan mér, að það er enginn vafi á því, að ef hv. Alþ. hefði skilið gildi þess fyrir verkalýðshreyfinguna að samþykkja lög um atvinnuleysistryggingar, hefði verkfallið á s.l. vori verið leyst fyrr, og það ætti að vera mjög eftirminnilegur lærdómur fyrir hv. Alþ. og hv. alþm. að minnast þess að taka meira tillit til þeirra óska og krafna, sem bornar eru hér fram á hv. Alþ. fyrir hönd verkalýðsstéttarinnar, heldur en gert hefur verið að undanförnu.

Í desemberverkfallinu 1952 var t.d. það ein af aðalkröfum verkalýðssamtakanna, að komið yrði á fót atvinnuleysistryggingum. Þeirri kröfu var þá algerlega vísað á bug af samninganefnd atvinnurekendanna. Og ekki virtist hæstv. ríkisstj. þá hafa verið til viðræðu um þetta merkilega mál. Á síðasta Alþ. varð það að samkomulagi milli þm. Sósfl. og Alþfl. að flytja saman frv. til laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi sameiginlega afstaða beggja flokkanna hefur að mínum dómi orðið til þess m.a. að létta undir með þeim mönnum í sáttanefndinni og samninganefnd verkalýðsfélaganna á s.l. vori um að fá málið leitt í gegn á farsællegan hátt. Með því að flytja þetta mál sameiginlega á þinginu var það undirstrikað mjög ákveðið, að hér væri á ferðinni mál, sem verkalýðshreyfingin léti sig miklu skipta og stæði algerlega einhuga um, og að ekki mundi öllu lengur á því stætt fyrir andstæðinga þess að hunza málið á sama hátt og gert hafði verið undanfarin mörg ár. í framsöguræðu fyrir málinu á þinginu í fyrra sagði ég m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að undirstrika enn betur en áður samhug verkalýðshreyfingarinnar í málinu var það talið sjálfsagt, að flm. að þessu frv. væru frá báðum verkalýðsflokkunum, enda fullt samkomulag innan verkalýðshreyfingarinnar um málið. Þetta frv. er eitt af þeim málum, sem ekki verður hægt að ganga fram hjá til lengdar. Um það munu verkalýðssamtökin í landinu sjá. Þau eru orðin það afl, sem ekki er hægt að ganga fram hjá, hvorki í þessu máli né öðrum.“

Það voru ekki liðnir nema nokkrir mánuðir frá því að við fluttum frv. um atvinnuleysistryggingar og þar til verkalýðshreyfingin hafði náð fram samningum um, að atvinnuleysistryggingum yrði komið á. Það kostaði að sjálfsögðu alþýðuna hér í Reykjavik og viðar mikla baráttu að ná þessu máli fram, ná þessum stóra áfanga, en þannig hefur það verið og þannig mun það verða, að engar verulegar hagsbætur til handa hinu vinnandi fólki ná fram að ganga nema fyrir ötult starf, fórnfúsa og harða baráttu. Verkalýðshreyfingin á Íslandi getur sannárlega fagnað unnum sigri í þessu mikla hagsmunamáli hennar. Sá sigur vannst vegna þess, að öll verkalýðshreyfingin stóð sameinuð um málið. Sú staðreynd mun verða til þess, að hið vinnandi fólk til sjávar og sveita mun draga réttar ályktanir þar af, enda mun ekki af veita, eins og nú horfir.