16.03.1956
Neðri deild: 88. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv. þessu, hét ríkisstj. í sambandi við lausn vinnudeilunnar seint í aprílmánuði s.l. að beita sér fyrir því, að sett yrðu lög um atvinnuleysistryggingar. Í samkomulaginu, sem þá var gert, voru tekin fram nokkur ákveðin atriði um meginefni væntanlegrar löggjafar, eins og t.d. um það, hvernig framlögum í sjóðinn skyldi háttað, hvar sjóðurinn eða sjóðirnir skyldu geymdir og eins um stjórn sjóðanna.

Ríkisstj. skipaði síðan 5 manna nefnd til þess að semja frv. til laga um atvinnuleysistryggingar, eins og heitið hafði verið. Í þessari n. áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands og einnig Hjálmar Vilhjálmsson skrifstofustjóri félmrn., Gunnar Möller hæstaréttarlögmaður og Haraldur Guðmundsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins.

Innan þessarar n. náðist ekki fullt samkomulag um öll einstök atriði frv., og hafa 3 nm. skilað sérálitum. Annars mun vera óhætt að segja, að n. standi óskipt að höfuðatriðum frv.

Félmn. hefur athugað þetta frv. og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. Þessu frv. fylgir mjög ýtarleg grg. Einnig gerði hæstv. félmrh. þessu máli mjög góð skil við 1. umr., svo að það er ástæðulaust fyrir mig að skýra frá efni frv.

Eins og hv. þm. vita, er hér á ferðinni mjög vandasamt mál, ekki sízt vegna þess, að þetta er í fyrsta skipti, sem sett er heildarlöggjöf um atvinnuleysistryggingar. Um þetta mál hafa fjallað sérfræðingar á sviði tryggingamálanna og einnig menn, sem hafa staðið og standa mjög framarlega í samtökum launþega, og einnig framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands.

Sennilega liggur málið þannig fyrir, að ef það yrði ekki afgreitt í því formi, sem það er sett fram í frv., yrði mjög erfitt, eins og langt er liðið á Alþ., að afgreiða málið. Þess ber og að gæta, að í frv. er gert ráð fyrir því, að lögin verði endurskoðuð innan tveggja ára. Það má búast við því, að á þeim tíma komi í ljós ýmsir agnúar á þessari löggjöf. og þá verður að sjálfsögðu ástæða til þess að taka þetta mikla mál til heildarendurskoðunar.