26.03.1956
Efri deild: 96. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

165. mál, atvinnuleysistryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og bæði nál. á þskj. 578 ber með sér og tekið hefur verið fram hér af hv. frsm., gafst hv. heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. lítið tækifæri til þess að lesa og athuga gaumgæfilega frv. það, sem hér liggur fyrir til 3. umr., og vil ég taka undir það með hv. frsm., að ég tel, að hv. Nd. hefði mátt ætla þessari d. lengri tíma til þess að athuga frv. en gert hefur verið. En mér þykir einnig ástæða til þess að minnast á, og það undrar mig meira, að enginn hæstv. ráðh. hefur látið falla eitt einasta orð um þetta mál hér við þrjár umræður, hvorki við 1. umr., 2. né 3., og verður það ekki skoðað öðruvísi en svo, að hér sé raunverulega um samning að ræða, sem engan veginn sé hægt að breyta í einu né neinu, og hefur enda hv. heilbr.- og félmn. gengið út frá því, eins og sést í nál., svo að það kann að vera, að það hefði verið tómt mál að tala um það, þótt n. hefði haft málið til meðferðar lengur en raun ber vitni um.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að það hefur verið hér gefið eitt fordæmi áður á líkan hátt og nú, þ.e. þegar samið var um að greiða allt að 16 millj. kr. úr almannatryggingasjóðunum til þess að leysa verkfall, sem ekki þótti mögulegt að leysa á annan hátt en þann að breyta þeim lögum raunverulega utan þings, þótt leitað væri samþykkis þingsins formlega síðar. Ég hygg, að margir hafi harmað það, að það skyldi vera farið inn á þá leið, en nú er þetta endurtekið hér, og skal ég ekki fara frekar út í það, en ég vil — og það var þess vegna, sem ég stóð upp — benda á, að ég skil svo þennan samning, sem hér er gerður, að hann standi ekki lengur en á meðan vinnu- eða kjarasamningurinn stendur á milli atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda í þessu landi, og strax og þeim kjarasamningi er sagt upp eða honum breytt, séu báðir aðilar lausir í sambandi við þetta mál, og það er m.a. vegna þess, sem ég get fellt mig við, að þessi lög verði samþ. nú. Fyrir þessu er einnig fordæmi. Þegar útrunninn var samningstíminn eða það tímabil, sem samið var um í sambandi við lausn vinnudeilunnar, þar sem tekið var inn, að greiddar skyldu fjölskyldubætur með 2. barni, gert annað verkfall út af töluvert hærri kröfum til atvinnurekenda, áleit hæstv. ríkisstj., að hún væri laus af þeim samningum, enda er það svo nú, að þeim lögum er breytt aftur þannig, að ef frv. verður samþ., verður ekki greitt með 2. barni, eins og þá var gert ráð fyrir, svo að ég tel ekki, að þetta frv. taki til lengri tíma en þess tíma, sem þessi kjarasamningur gildir, og gefst þá tækifæri til þess að athuga mörg ákvæði í frv., þegar gerður verður næsti kjarasamningur. Og það er eingöngu með það fyrir augum, að ég hef samþ. að leggja til fyrir mitt leyti, að frv. verði samþ. óbreytt. Það er þá hér um samning að ræða, sem ekki er hægt að rifta, en sé honum breytt á einhvern hátt síðar meir, sé það einnig frjálst atriði að mega ræða um ýmsar breytingar á þessari löggjöf.