26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

111. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa verið talsvert skiptar skoðanir í umræðum þessa máls hér í deildinni að því er ýmis atriði frv. snertir. Þótt fjhn. skilaði sameiginlegu áliti og mælti með samþykkt frv., var ágreiningur innan n. um einstök atriði í frv., og tveir nm. hafa lagt fram brtt., sem eru allvíðtækar, á þskj. 437. Þessar brtt. tóku þeir aftur við 2. umr. til 3. umr., vegna þess að tilraun átti að gera til þess að fá fullt samkomulag í málinu milli þeirra, er greint hafði á. Fjárhagsnefndarmenn hafa síðan 2. umr. fór fram athugað málið, og niðurstaða þeirra í milli hefur orðið sú, að fjhn. leggur fram á þskj. 559 þrjár brtt., og er ætlazt til, ef þær verða samþykktar, að ágreiningi milli fjárhagsnefndarmanna sé lokið, og vænti ég, að tillögurnar á þskj. 437 verði dregnar til baka og látnar víkja fyrir tillögunum á þskj. 559.

Um þessar tillögur þrjár, sem fjhn. ber fram að þessu sinni, vil ég segja þetta:

Fyrsta till. er um breytingar á 7. gr. Hún er engin efnisbreyting, en hún mælir fyrir um það, sem telja má raunar mjög eðlilegt og sjálfsagt, að tollheimtumenn hafi samráð við hafnaryfirvöld, ef þeir telja sig þurfa að hafa áhrif á það, hvar skipi er lagt til afgreiðslu í höfn. Brtt. mýkir ákvæði greinarinnar, en breytir þeim að öðru leyti ekki.

Önnur brtt. er um, að 10. gr. frv. falli niður. Nýmæli það, er í gr. þessari felst, er, að tollgæzlumenn megi gera húsrannsóknir í verzlunum og vörugeymslum án yfirvaldsúrskurðar. Fjhn. telur rétt að taka ekki upp nýmælið, vegna þess að þetta er mjög viðkvæmt mál, að láta aðra hafa leyfi til að beita leit í húsum en þá, sem yfirvöld úrskurða að megi gera það, og vitanlega er þetta líka álitamál. Verði greinin felld niður, gilda áfram núverandi lagaákvæði, að leyfi yfirvalda þurfi að fá til leitar í verzlunarhúsum og vöruhúsum. Mun nú yfirleitt vera auðvelt að fá slík leyfi, ef rökstuddur grunur hvílir á, að leit þurfi að gera.

Þriðja brtt. er umorðun á b-lið 18. gr., og hún er í raun og veru mikil efnisbreyting. Í stað þess, að samkv. því, sem segir í frv. í þessum lið, eiga afgreiðslumenn að fá löggildingu hjá fjmrn., er í brtt. svo fyrir mælt, að vörugeymsluhús, sem ótollafgreiddar vörur eru fluttar í, þurfi rn. að hafa viðurkennt sem geymslustaði í samráði við viðkomandi tollstjóra. Ég vænti þess, að eins og hv. þm. Barð. og hv. þm. Seyðf., sem vildu fella þennan lið niður og fluttu um það tillögu, hafa fallizt á þessa brtt. í staðinn fyrir sína till., þá muni einnig hv. þm. Vestm. fyrir sitt leyti telja þessa breytingu aðgengilega, en hann talaði eindregið á móti liðnum eins og hann er í frv.

Ég hef áður í umræðum þessa máls vitnað oft í tollstjórann í Reykjavík, af því að ég tel, að hann hafi ábyggilegasta reynslu í þessum málum og sé því dómbærastur um þau efni. Og nú þykir mér þá rétt að geta þess einnig, að ég hef átt tal við hann um brtt. þær, sem fjhn. leggur fram, og tel mig geta fullyrt, að hann telji þær sæmilega aðgengilegar og muni ekki gera neitt veður út af því eða lýsa neinni óánægju fyrir hönd sinna starfsbræðra, þó að þær verði samþykktar. Ég hygg, að hann sé eftir atvikum samþykkur því, að þær verði samþykktar, og telji rétt að samþykkja þær.