23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

129. mál, náttúruvernd

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál, sem lá fyrir Alþ. í fyrra, en fékk þá ekki afgreiðslu. Þetta frv. er um náttúruvernd, er mjög ýtarlegur lagabálkur, 36 gr. og 7 kaflar. Frv. fylgir ýtarleg grg. Í sjálfu sér er það ekki meining mín að fara að gera þetta frv. að sérstöku umræðuefni. En það eru viss atvik, sem valda því samt, að ég vildi gjarnan koma hér á framfæri málaleitan frá félagsskap hér í landinu, Skógræktarfélagi Íslands, sem ég tel að hafi verið algerlega sniðgengið í þessu máli.

Í frv. er gert ráð fyrir í 10. gr., að menntmrh. skipi náttúruverndarráð með aðsetri í Reykjavík til fjögurra ára í senn. Er það skipað sjö mönnum, forstöðumönnum þriggja deilda náttúrugripasafnsins, einum manni með sérþekkingu á búnaðarmálum samkv. tillögu Búnaðarfélags Íslands, einum manni, sem Ferðafélag Íslands nefnir til, einum verkfræðingi samkv. tillögu Verkfræðingafélags Íslands og einum embættisgengum lögfræðingi, er menntmrh. skipar án tilnefningar, og er hann formaður ráðsins.

Ég álít, að svo fjölmennt ráð sem hér er gert ráð fyrir muni verða allþungt í vöfum og mundi undir vissum kringumstæðum a.m.k. geta orðið til þess að torvelda starfsemi ráðsins frekar en hitt.

Þegar þetta mál var lagt fram í fyrravetur, stóð yfir fulltrúafundur skógræktarfélaganna, sem Skógræktarfélag Íslands hafði boðað til. Á þessum fundi var þetta mál allmikið rætt, og komu þar fram ýmsar ábendingar í sambandi við frv., þar sem fulltrúar skógræktarfélaganna töldu, að betur hefði mátt fara á ýmsan hátt en gert væri ráð fyrir í frv. Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn var á Þingvelli 25. og 26. júní 1955, var svo þetta mál tekið til allrækilegrar umræðu, og var svo hljóðandi till. samþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn á Þingveili 25. og 26. júní 1955, telur það mikla annmarka vera á frv. því til laga um náttúruvernd, sem lagt var fyrir Alþingi 1954, að nauðsynlegt sé að taka það til endurskoðunar, áður en það er lagt fyrir Alþingi á ný, og leggur fundurinn áherzlu á það, að fulltrúar, tilnefndir af Skógræktarfélagi Íslands, verði kvaddir til samstarfs um þá endurskoðun.“

Þessi till. hefur þegar verið send hinu háa Alþingi, en til frekari áréttingar hefur Skógræktarfélag Íslands í bréfi, sem sent var Alþingi, bent á nokkur þau atriði í frv., sem helzt þóttu aðfinnsluverð:

„Í 10. gr. er kveðið svo á, að sjö menn skuli taka sæti í náttúruverndarráði. Eiga þrír að vera hinir fastskipuðu deildarstjórar náttúrugripasafnsins, þrír tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands, Ferðafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands, en einn á að vera embættisgengur lögfræðingur, tilnefndur af ráðherra.

Frá sjónarmiði Skógræktarfélags Íslands og skógræktar ríkisins þykir stórum athugavert, að eigi skuli tekið hið minnsta tillit til þeirra stofnana við stjórn þessara mála.

Hér á landi hefur fram farið töluverð náttúruvernd, þótt eigi hafi verið haft hátt um það. Hefur öll sú náttúruvernd farið fram á vegum skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands, þegar frá eru skilin friðun Þingvallar og Dimmuborga í Mývatnssveit, en hin síðasttalda friðun komst á fyrir atbeina Gunnlaugs Kristmundssonar. Verndun einkennilegra staða og einkum gróðurs á slíkum stöðum hefur þegar borið mikinn árangur. Má þar fyrst nefna Þórsmörk, sem nú væri sennilega aleydd af gróðri, ef ekki hefði verið hafizt handa um friðun hennar um 1925. Þá mundi og lítið vera eftir af Botnsskógi í Ásbyrgi, ef skógrækt ríkisins hefði ekki tekið þann stað undir verndarvæng sinn, og sennilega væri töluverður uppblástur jarðvegs orðinn þar, ef ekkert hefði verið að gert. Þá má telja friðun Hallormsstaðarskógar og Vaglaskógar til náttúruverndar svo og friðunina í Þjórsárdal, Skarfanesi og Haukadal, við Hreðavatn, að Stálpastöðum og Þórðarstöðum, svo að fáein dæmi séu nefnd. Flestir þessara staða eru mikið sóttir af ferðafólki á sumrin og öllum opnir sem eins konar þjóðgarðar. Þá er friðun Bæjarstaðaskógar verk Skógræktarfélags Íslands, og upphafið og allt undirbúningsstarfið að friðun Heiðmerkur var unnið af því félagi. Þá hafa héraðsfélög Skógræktarfélagsins mjög víða friðað og verndað einkennilega staði, og er sumt af því ekki síður náttúruvernd en það, sem áður hefur verið talið.

Þar sem þessir aðilar eru höfundar að verndun fjölda staða um land allt, hljóta þeir að hafa ýmissa hagsmuna að gæta í sambandi við væntanlega náttúruvernd. Væri ekki síður ástæða til, að þeir ættu sjálfkjörna fulltrúa í væntanlegu náttúruverndarráði, en náttúrugripasafnið. Annars litu ýmsir fundarmenn svo á, að hið væntanlega náttúruverndarráð væri of fjölmennt og stjórn þessara mála yrði allt of þunglamaleg og viðamikil, ef óbreytt yrði frá frv.

Í 1. gr. frv., d-lið, er talið heimilt að friðlýsa landssvæði, sem eru ríkiseign og sérstæð um landslag, gróðurfar eða dýralíf, til þess að varðveita þau og breyta þeim í þjóðgarða. Nái slíkt ákvæði fram að ganga óbreytt, virðist svo sem væntanlegt náttúruverndarráð geti með einföldu samþykki tekið hvaða skóglendi sem því lízt undan skógrækt ríkisins og ráðskazt með það að vild sinni. Hér verður að setja einhverjar takmarkanir.

Hvergi er minnzt á gálausa meðferð elds í frv., þótt fyllsta ástæða væri til að setja ákvæði um slíkt. Væri ekki óeðlilegt að fella ákvæði um þetta í 3. gr. frv. og þá ekki sízt, hverjum slökkva beri. Undanfarin vor hefur oft hlotizt töluvert tjón af íkveikjum á víðavangi, og oft hefur alveg verið látið undir höfuð leggjast að slökkva slíka elda, þar sem hreppsnefndir eða aðrir aðilar hafa ekki getað komið sér saman um, hver ætti að greiða kostnaðinn.

Þetta, sem hér hefur verið talið, er hið helzta, sem aðalfundur Skógræktarfélags Íslands sá ástæðu til að benda á og óska breytinga á. Ýmsir smáagnúar virðast vera á frv., sem skipta minna máli. Í því sambandi má benda á, að 5. gr. um innflutning dýra er svo skilyrðislaus, að leita verður til væntanlegs náttúruverndarráðs, áður en menn flytja inn hænsni, páfagauka eða kanarífugla. Þá mætti og í 6. gr. benda á, að dvöl eða umferð fólks er lítt æskileg á engjum, þótt þær teljist til óræktaðs lands. Þrátt fyrir þetta voru menn á einu máli um, að setja beri lög um náttúruvernd hið fyrsta, en umfram allt þarf að haga slíkri lagasetningu þannig, að framkvæmd laganna verði auðveld og greinar laganna auðskildar hverjum manni.“

Nú vil ég aðeins bæta því við, að mér kemur það mjög einkennilega fyrir, þar sem þetta erindi frá Skógræktarfélagi Íslands hefur legið hér fyrir á skrifstofu Alþingis, að hv. menntmn. skuli ekki hafa kynnt sér þessa afstöðu Skógræktarfélagsins.

Ég skal svo ekki orðlengja miklu meira um þetta mál, en vildi mega vænta þess af hæstv. forseta, að hann tæki málið út af dagskrá og gæfi þar með nefndinni tækifæri til að kynna sér þessar ábendingar frá Skógræktarfélagi Íslands, ef verða mætti til þess, að tekið yrði tillit til óska þess um breytingar. Sérstaklega er það eitt atriði, sem ég tel í alla staði ófært í frv., og það er það, að Skógræktarfélag Íslands skuli engan mann eiga að hafa í stjórn náttúruverndarráðs. Ég vil alveg sérstaklega undirstrika það, að ég tel mjög illa farið, ef verður gengið fram hjá jafnstórum og þýðingarmiklum aðila eins og Skógræktarfélag Íslands er og kemur vonandi til með að verða á komandi árum og hlýtur samkv. stefnu sinni og starfi að vinna meir og betur að náttúruvernd en nokkur annar félagsskapur.