14.12.1955
Neðri deild: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

122. mál, almannatryggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er raunverulega ekki gott að ætla að taka sérstaka afstöðu um mál eins og þetta. Það, að þetta mál skuli vera fram komið á þann hátt, sem það er fram komið, er auðsjáanlega af því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki lengur neitt vald á gangi málanna í þinginu, frekar en hún hefur vald á gangi málanna með þjóðinni. Það, að það skuli hafa verið lagt fyrir stjfrv. um þessi mál í upphafi þings, þingið vera búið að sitja nú á þriðja mánuð og það stjfrv. skuli enn ekki vera afgreitt og svo skuli verða að afgreiða svona eins konar bráðabirgðalög á síðustu dögunum fyrir jól, það sýnir, að hæstv. ríkisstj. er að missa öll tök á því að stjórna landinu. Það á kannske eftir að koma betur í ljós á öðrum sviðum. En eitt finnst mér þó a.m.k., að hv. stjórnarsinnar ættu að geta gert svona undir það síðasta, jafnvel þótt þeirra stjórn kunni að vera í pólitískum andarslitrum, og það er að sitja þannig hér í þingsalnum, að þeir komi tekjumálum stjórnarinnar í gegn, svo að stjórnarandstaðan þurf`i ekki að hjálpa stjórninni til þess að tóra þessa dagana, sem eftir eru, með því að greiða atkvæði á móti þeim.