05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

116. mál, félagsheimili

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er vafalaust rétt, sem hér hefur verið orðað, að félagsheimilasjóði veitir ekki af auknu fé, og hefur hæstv. menntmrh. boðað hér í d. fyrir alllöngu, að ríkisstj. hefði í undirbúningi till. um það. Þess vegna er það, að n. sú, sem hefur til meðferðar frv. frá hv. þm. V-Sk. (JK) um þetta efni, hefur ekki skilað sérstöku áliti, og hefur því áður verið lýst yfir hér í hv. deild.

En þótt þetta sé vafalaust, að sjóðnum veitir ekki af auknum tekjum, þá er ég ekki viss um, að sú orðalagsbreyting, sem hér er farið fram á á lögunum um félagsheimili, kalli sérstaklega á auknar tekjur, ef rétt er á haldið.

Ég veit að vísu ekki vel, hvernig á að skilja þessa upptalningu. Að sjálfsögðu hefði ég átt að lesa lögin um félagsheimili. Þá hefði ég kannske vitað nú það, sem ég ætla að leyfa mér að spyrja hv. n., sem fjallað hefur um þetta mál, um.

Er það meiningin með þessari upptalningu, að hvert af þessum félögum eigi rétt á því að fá styrk til að byggja félagsheimili? Í sveitum er það svo og án efa í kauptúnum, sem eru mjög stór, að það er ekki nema eitt félagsheimili, þó að því sé komið upp, og það nægir algerlega fyrir hvers konar félagssamtök í því plássi, og meira að segja með því fyrirkomulagi er þessi félagsheimilabygging komin út í öfgar, t.d. þegar litlir nágrannahreppar byggja félagsheimili hvor fyrir sig, en gætu ákaflega vel sameinazt um eitt.

En setjum svo, að það væri kauptún með svona þúsund íbúa, og gerum ráð fyrir, að þar væri nú ekki sem bezt samkomulag og metnaður á milli. Er þá meiningin, að það eigi að skilja lögin svo, að ungmennafélagið gæti fengið að byggja sérstakt félagsheimíli, verkalýðsfélagið, íþróttafélagið, lestrarfélagið, bindindisfélagið, skátafélagið og kvenfélagið og svo ef til væri búnaðarfélag þar að auki? Ég held, ef engin ákvæði eru um þetta í lögunum, að n. ætti að athuga, hvort ekki ætti að setja einhverjar tak markanir fyrir því, hve mörg félagsheimill mætti byggja í einni og sömu sveit ellegar í einum og sama bæ eða kauptúni.

Það var þetta, sem ég vildi spyrja hv. n. um, hvort þetta hefði verið athugað og hvort nokkur ákvæði væru til í lögunum, sem gæfu stjórnarvöldunum rétt til að áskilja það, að félagssamtök séu í félagi um félagsheimill. Eins og hv. þm. V-Sk. gat um hér rétt áðan, er það venja í sveitum, ef félagsheimili kemst þar upp, að þá mega þar vera hvers konar fundir og hreppsfélagsins um leið. Og líka er venja, að öll þau félög, sem starfandi eru í sveitinni, auk hreppsfélagsins, standi að byggingu félagsheimilis. Ég býst við, að í bæjum þyrfti að setja einhver takmörk í lögin um þetta, ef þau eru ekki fyrir hendi, því að ef það ætti að fara að verða svo, að hvert félag, t.d. í tiltölulega litlum bæ, byggði sitt sérstaka félagsheimili, þá virtist mér, að farið væri að eyða óþarflega miklu fé í fjárfestingu í þessu skyni. Það eru fá félög, þótt menningarfélög séu, sem þurfa stöðugt á húsnæði að halda. Þau geta ósköp vel verið í sama húsnæði og ýmis önnur félög. Við skulum nú hugsa okkur t.d., að það væri ungmennafélag og íþróttafélag, því að sums staðar er það, að það er sérstakt íþróttafélag, þó að ungmennafélag sé starfandi, — eins og ungmennafélag og íþróttafélag gætu ekki verið í sama húsnæði? Ég vildi mjög gjarnan fá skýringu á því, hvort það er meiningin, að hvert af þessum félagssamtökum eigi að geta krafizt styrks í félagsheimili.