07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

116. mál, félagsheimili

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Út af þeirri till., sem flutt er nú um 750 þús. kr. framlag til félagsheimilasjóðs, vil ég segja það, að ég er alveg sammála hv. þm. V-Sk. um, að það verður að auka fé sjóðsins. Ég hef sagt þetta áður og vil undirstrika það nú. En mér kemur það dálítið kynlega fyrir sjónir, þar sem hann, sem hefur þennan mikla áhuga á þessu, á sjálfur sæti í fjvn., að þaðan skyldi ekkert koma um þetta. (JK: Nú, kom ekkert?) Þessar 750 þús.? (JK: Ein milljón). Nú, er þetta ekki viðbót. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum, hv. fjvn. er þá búin að fjalla um málið og þar með eru þeir aðilar, sem eiga fyrst og fremst að fjalla um fjárveitingar til sjóðsins, búnir að segja sitt. Til hvers er þá að koma með þetta, sem á þó ekki að koma fyrr en á næsta ári, og áður en til þess kemur, kemur þó væntanlega fjvn. til þess að ákveða fjárframlög það ár, svo að ekki leysir það fjárhag sjóðsins á þessu ári?

En þó að ég greiði atkv. gegn þessu, þá er það af því, að ég treysti þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að hér verði séð fyrir auknu fé handa sjóðnum, og þess vegna og á þeirri einu forsendu greiði ég atkv. gegn þessari till., en ekki af því, að ég sé á móti auknu fé til félagsheimilasjóðs.