08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstfl. hér í hv. þd. að flytja brtt. á þskj. 319 við frv. það, sem hér liggur fyrir til umr.

Eins og kunnugt er, fluttu hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og hv. þm. V-Sk. (JK) brtt. um það við 2. umr. þessa máls, að ríkissjóður greiði félagsheimilasjóði 750 þús. kr. á ári. Vildu þeir með þessari brtt. freista þess að auka möguleika sjóðsins til þess að rækja hlutverk sitt, eða a.m.k. koma i veg fyrir, að bolmagn hans minnkaði, eftir að sú breyting hefur verið gerð á l., sem í frv. þessu feist. Þessi brtt. var felld. Við þm. Sjálfstfl. hér í hv. efri deild höfum talið nauðsynlegt að gera enn eina tilraun til þess að koma í veg fyrir, að starfsmöguleikar félagsheimilasjóðs verði á næstunni skertir verulega. Við höfum þess vegna leyft okkur að leggja fram till. um það, að á eftir 1. gr. frv. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Fari rekstrarhagnaður Áfengisverzlunar ríkisins fram úr áætlun fjárlaga árið 1957, skal það, sem umfram er, renna í félagsheimilasjóð, þó ekki yfir 1.5 millj. kr.“

Við teljum, að með þessari brtt. sé farin sanngjörn og skynsamleg leið til þess að efla félagsheimilasjóð og koma í veg fyrir, að það frv., sem hér liggur fyrir til umr. og væntanlega verður samþ., verði til þess að rýra starfsmöguleika sjóðsins.

Í till. er gert ráð fyrir því, að það, sem fram yfir er áætlaðan rekstrarhagnað af rekstri Áfengisverzlunar ríkisins á þessu ári, renni til félagsheimilasjóðs, þó ekki meira en 1.5 millj. kr. á ári.

Á s.l. ári, árið 1956, varð hagnaður af áfengisverzluninni samtals 79.6 millj. kr., eða tæpar 80 millj. kr. Nú hefur verðlag á „afurðum“ fyrirtækisins, ef svo mætti að orði komast, verið hækkað verulega, ég hygg um eða yfir 10%. Allar líkur benda til þess, að nú á þessu ári, eins og svo að segja alltaf áður, muni tekjur áfengisverzlunarinnar fara fram úr áætlun, en þær eru á fjárl. yfirstandandi árs áætlaðar 85 millj. kr.

Með þessari till. er ekki gert ráð fyrir að svipta ríkissjóð neinum þeim tekjum, sem gert er ráð fyrir í fjárl., og það er ekki lagt heldur til, að honum sé bakaður neinn útgjaldaauki. Hér virðist því vera fundin mjög góð og nokkurn veginn örugg leið til þess að efla félagsheimilasjóð, sem allir vilja kalla sitt óskabarn, enda þótt framkoma þeirra við barnið sé nokkuð misjöfn.

Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að þessi brtt. okkar verði samþ., og ekki sízt vegna þess, að hæstv. menntmrh. lýsti hér mjög eftir því í gær, við 2. umr. um þetta mál, að ábendingar yrðu fram settar um nýjar og jafnvel „frumlegar“ leiðir til þess að afla félagsheimilasjóði nýrra tekna.

Í þessu sambandi vildi ég aðeins gefa nokkrar upplýsingar um starfsemi félagsheimilasjóðs, sem gagnlegt er að fyrir liggi, þegar hv. þm. greiða atkv. um þá brtt., sem hér liggur fyrir. Af þessum upplýsingum kemur það m.a. í ljós, hversu geysiþýðingarmiklu hlutverki þessi sjóður gegnir og hversu nauðsynlegt það er að tryggja heilbrigða starfsemi hans.

Frá því er lögin um félagsheimilasjóð tóku gildi 1. jan. 1948, hafa samtals verið veittir styrkir til 91 félagsheimilis, og upphæðin, sem til þessara bygginga hefur verð veitt, er 11.9 millj. kr. Hluti félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti nam á árinu 1955 rúmlega 1.6 millj. kr. Það liggja ekki fyrir endanlegar skýrslur um, hve mikill hluti sjóðsins hefur orðíð á s.l. ári, en það er áætlað, að hann muni a.m.k. verða 1.7 millj. kr.

Eins og kunnugt er, fékk félagsheimilasjóður fyrsta árið, sem hann starfaði, 50% af skemmtanaskattinum. Þá var lögunum breytt, og samkvæmt þeirri breytingu fékk félagsheimilasjóður 40% af skattinum. Hélzt sú skipan í 2 ár, eða til ársins 1951. Þá var enn höggvið í þennan sama knérunn og hluti félagsheimilasjóðs lækkaður niður í 35%.

Ég álít, að einmitt með hliðsjón af þessu, að Alþ. hefur sífellt verið að rýra tekjur félagsheimilasjóðs, beri því nú að gera nokkra yfirbót, gera nú myndarlegt átak til þess að efla sjóðinn að nýju. Til þess ber vissulega brýna nauðsyn. Í byggingu eru nú 55 félagsheimili í landinu. Af þeim er 13 að verða lokið og sumpart að fullu lokið. Byggingu allra þessara félagsheimila hefur sjóðurinn stutt; en þar að auki liggja fyrir hjá sjóðsstjórninni í dag 42 umsóknir, sem engin leið er til þess að sinna og verður að vísa frá í bili.

Af þessu sést, hversu geysibrýn nauðsyn er á því að efla sjóðinn. Því miður er ekki að því stefnt með því frv., sem hér liggur fyrir. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að gera fleiri aðila hæfa til þess að fá sjálfstæða byggingarstyrki úr sjóðnum.

Ég þarf ekki að taka það fram, sem kom fram í ræðu minni við 2. umr. og einnig hjá öðrum hv. þm., sem hér hafa talað, að því fer víðs fjarri, að við, sem teljum þetta frv. varhugavert, séum með því að fjandskapast við byggingu félagsheimila af hálfu búnaðarfélaga og verkalýðsfélaga. Við höfum þvert á móti bent á það, að verkalýðsfélögin hafa á mörgum stöðum úti um land verið með í byggingu félagsheimila. Með þessu frv. er lagt til, að þau geti sem sjálfstæðir aðilar fengið styrk úr félagsheimilasjóði, og ég mundi sízt hafa á móti því, ef sjóðurinn hefði fjárhagslegt bolmagn til þess. En það er alveg rétt, sem hv. þm. S-Þ. sagði hér í gær, að með þessu frv. er verið að lögbinda það eitt í raun og veru að því er varðar verkalýðsfélögin, að stærstu verkalýðsfélögin hér í Reykjavík eigi rétt á því að fá sjálfstæðan styrk úr sjóðnum. Á öðrum stöðum á landinu hafa verkalýðsfélögin verið með öðrum félagasamtökum og munu halda áfram að vera það, því að þau hafa ekki bolmagn til þess að ráðast ein í slík stórfyrirtæki. En það er einna helzt hér í Reykjavík, sem slíkt gæti átt sér stað.

Ef hv. þd. samþ. þá brtt., sem við sjálfstæðismenn flytjum hér um að bæta starfsskilyrði félagsheimilasjóðs til þess að mæta þeim nýju viðhorfum, sem skapast með samþykkt þessa frv., þá mundi ég treysta mér til þess að fylgja þessu frv., því að þá væri lagður raunverulegur grundvöllur að því, að eitthvert gagn yrði að slíkri lagasetningu. Eins og frv. er nú, er það gersamlegt yfirborðskák, sem engum kemur að gagni, en getur orðið til ills. Hv. þm. S-Þ., sem talaði hér í gær, en nú er hér fjarstaddur, hafði á þessu mjög glöggan skilning og hann lýsti því hreinlega yfir, að hann væri mótfallinn frv., en greiddi því atkv. „af hollustu við sína ríkisstjórn“. Ég veit, að mörgum öðrum hv. stjórnarstuðningsmönnum er svipað innanbrjósts.

Ég vil nú skora á þessa hv. þm., sem svo mikla stjórnarhollustu vilja sýna að samþykkja mál, sem þeir eru á móti og telja yfirborðsmál, að samþykkja þá þessa brtt., sem gerir þetta mál allt miklu raunhæfara en það nú er.

Ég vil svo leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að þar sem mjög illa er mætt í hv. þd. í dag, þá verði atkvgr. um málið frestað til mánudags, þó að umr. verði lokið.

Ég vil aðeins að lokum geta þess, að hv. n., sem um þetta mál hefur fjallað, hefur ekki látið svo lítið að senda stjórn félagsheimilasjóðs frv. til umsagnar. Ég mundi hafa talið, að ekki færi illa á því, að stjórn þess sjóðs, sem hér á hlut að máli, yrði til kvödd og fengi að segja álit sítt á frv., og það mun yfirleitt vera háttur þingnefnda að senda þeim aðilum, sem þingmál snertir sérstaklega, þau til umsagnar.

Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti treystir sér til þess, úr því sem komið er meðferð málsins hér í hv. þd., að beina því til hv. menntmn., að hún sendi frv. til umsagnar stjórnar félagsheimilasjóðs. Það er að vísu venjulegra, að slíkt sé gert fyrir 2. umr., meðan n. fjallar um mál. En þar sem hv. n. hefur orðið það á í messunni að gera þetta ekki, þá virðist mér, að hæstv. forseti gæti hæglega beint því til n. að senda málið til umsagnar stjórnar félagsheimilasjóðs, sem ég er fullviss um að mundi snúast snarlega við og ekki láta bíða lengi eftir áliti sínu.