08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

116. mál, félagsheimili

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér er ekki ljóst, hvort þessi till. liggur fyrir eða liggur ekki fyrir. (Forseti: Hún liggur ekki fyrir, skilst mér.) Nú, þá sé ég ekki, að n. eigi neitt vangert, fyrst þessu er ekki vísað til hennar aftur. En hitt vildi ég í leiðinni leiðrétta enn hjá hv. þm. N-Ísf., að ég las alveg hárrétt upp úr lögunum, hver er stjórn félagsheimilasjóðs. Það er hæstv. menntmrh., og hann hefur ráðunauta sér við hlið, íþróttanefnd ríkisins og fræðslumálastjóra. Þetta er hér skýrt tekið fram, svo að ég skil ekki, hvernig stendur á því, að hann heldur því enn fram, að það sé til sérstök stjórn fyrir félagsheimilasjóð. Auk þess drap ég á það, að við hefðum haft umsögn íþróttanefndar ríkisins um sams konar frv., sem lá fyrir Alþ. fyrir einu eða tveim árum. Breytingin er engin önnur á þessu frv. nú, miðað við það, sem þá var, en búnaðarfélög eru komin inn, sem ég hélt ekki að skipti miklu máli og n. þurfi ekki sérstaklega að halda fund til þess að ræða málið eða vísa málinu til íþróttanefndar, ef hann meinar það, bara út af búnaðarfélögunum. Mér finnst blærinn á þessu vera heldur hitt, að það eigi að tefja málið.