29.05.1957
Efri deild: 114. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa skriflegri brtt., sem mig langar til að flytja við þessa 3. umr. málsins. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir fyrri málsgr. 2. gr. laganna komi ný málsgr., svo hljóðandi:

Menntamálaráðherra getur sett sem skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum til félagsheimilis, að fleiri en eitt félag standi að byggingu þess, til þess að afnotaþörf verði sem bezt fullnægt og rekstur geti orðið sem hagkvæmastur.“

Ég vona, að um það þurfi ekki að vera ágreiningur í þessari hv. d., að það sé eðlilegt, að hægt sé að stuðla að því, að fleiri en eitt félag sameinist um byggingu félagsheimilis, þannig að afnotaþörf þeirra félaga, sem starfandi kunna að vera á hlutaðeigandi svæði og vilja eignast félagsheimilisaðstöðu, verði sem bezt fullnægt, enda yrði með því móti rekstur félagsheimilisins tvímælalaust hagkvæmari en ella, þ.e. ef hvert félag um sig fengist við að koma upp félagsheimill yfir sína starfsemi.

Þá er hér einnig til umr. og atkvgr. tili. á þskj. 319 frá hv. þm. N-Ísf. (SB) o.fl. um, að af rekstrarhagnaði áfengisverzlunar skuli renna 1.5 millj. í félagsheimilasjóð, ef hann fer fram úr áætlun fjárl. fyrir 1957.

Um þessa tili. vil ég aðeins segja það, að í frv. því um breyt. á l. um skemmtanaskatt, sem þessi hv. d. hefur þegar afgr. og komið er til 3. umr. í Nd., er fjallað um fjármál félagsheimilasjóðs á þann veg, að gert er ráð fyrir, að honum verði tryggður helmingur tekna af skemmtanaskatti. Mun þetta þýða tekjuaukningu fyrir félagsheimilasjóð á næsta ári um það bil eina millj. kr. og væntanlega meir, er frá líður, en þessar tekjuöflunarreglur eiga að taka gildi þegar á miðju þessu ári. Með því treysti ég því, að svo vel sé séð fyrir tekjuþörf félagsheimilasjóðsins, að allir hlutaðeigendur megi vel við una.

Til viðbótar því aukaframlagi félagsheimilasjóðs, sem gera má ráð fyrir að nái fram að ganga í hv. Nd. nú síðdegis í dag, er ástæðulaust að ætla félagsheimilasjóði enn meiri tekjur, og legg ég því til, að till. á þskj. 319 verði felld.