08.02.1957
Neðri deild: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

97. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram í hv. Ed. af þeim sýslumönnum, sem þar eiga sæti, tveimur eða þremur, — ég man ekki, hvort þeir voru allir með eða einungis tveir flytjendur þess, — og er efni þess eingöngu það að gera form þinglýsingar á skjölum einfaldara en nú er, þannig að það valdi minni fyrirhöfn fyrir yfirvöldin og sé kostnaðarminna. Ég hygg, að engin rök geti verið á móti þessu fyrirkomulagi, heldur verði þetta öllum til góðs og jafnauðvelt fyrir þá, sem hlut eiga að máli, að fylgjast með því, sem fram fer, eftir breytinguna. Allshn. var því sammála um, þeir er á fundi voru, að mæla með frv.

En fyrir n. var lagt erindi, sem borizt hafði frá sýslumanninum í Norður-Ísafjarðarsýslu og fjallar um þau sérstök atvík, er þar hafa orðið, að hreppur eða hreppar hafa algerlega lagzt í eyði, en vitanlega eru engu að síður eignir á þessum stöðum, sem ganga manna á milli og ef til vill eru veðsettar, og þá getur verið erfitt að koma því við að halda dómþing á þeim stöðum, þar sem engir búa framar, og þess vegna er ráðgert, að slík þing sé heimilt að halda á sýsluskrifstofunni, ef um algera eyðihreppa er að ræða.

Við vorum sammála um að telja þetta fyrirkomulag heppilegt, enda kemur það frá þeim manni, sem bezt allra þekkir til, hvað bezt hentar f þeim efnum, og tókum því upp hans till. og flytjum hana sem brtt við frv.

Ég legg til, að brtt. verði samþykkt og frv. síðan vísað til 3. umr.