08.02.1957
Neðri deild: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

97. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv. var flutt í hv. Ed. og er komið þaðan. Í þeirri deild var gerð breyting á 1. gr. frv. samkv. till. frá hv. allshn. þeirrar deildar. Bætt var inn í frvgr. tveimur orðum, og frv. þannig breytt liggur hér fyrir á þskj. 214.

Ég hef litið yfir þessi lög, sem hér á að breyta, og mér sýnist, að ef frv. þetta verður samþ., eins og það nú liggur fyrir, þ.e.a.s. með þeirri breytingu, sem hv. allshn. þessarar d. flytur eða gerir till. um, og hefur ekki áhrif á það atriði, sem ég ætla að minnast á, þá sýnist mér, að það muni vanta í lögin, eftir að búið er að breyta þeim þannig, ákvæði um þinglýsingu skjala í Rvík, hvernig hún eigi að fara fram, því að það stendur hér í frvgr. á þskj. 214, að dómari lesi upp á bæjarþingi í kaupstöðum utan Reykjavíkur, en á manntalsþingi í hreppum o.s.frv., og ég hef ekki getað séð annars staðar í lögunum nein ákvæði snertandi Rvík.

Ég vildi beina því til hv. frsm. allshn. að athuga þetta, en sé þetta misskilningur hjá mér, þá óska ég skýringa á þessu atriði frá honum eða hv. nefnd.