16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

123. mál, hlutafélög

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Dagskrártill. okkar þremenninganna virðist hafa farið heldur í taugarnar á sumum hv. dm., eins og t.d. síðasta ræðumanni.

Ég ætla ekki að ræða efnishlið þessa máls, en ég verð að segja, að um það form þess gildir vissulega dálítið sérstakt. Það er ósiður yfirleitt að taka eina grein út úr stórum gömlum lagabálki og breyta henni, þegar full ástæða er til þess að endurskoða og breyta lagabálkinum í heild.

Hv. síðasta ræðumanni er að vísu dálítil vorkunn í þessu efni, þar sem Akureyri mun vera eini staðurinn, sem ég veit til, sem orðið hefur eitthvað fyrir barðinu á þessu ákvæði, en Akureyri er ekki allt Ísland.

Þá er sá mikli munur í þessu efni, að frv. um ný hlutafélagalög er tilbúið. Hv. þm. Barð. var í einhverjum vafa um, í hvaða skúffu þetta frv. lægi. Ég held, að það liggi í skúffu hæstv. forsrh. Hitt er mér hins vegar ókunnugt um, hvort hv. þm. Barð. hefur aðgang eða lyklavöld að þeirri skúffu.

Ég get því ekki skilið né samþykkt, að þessi dagskrártillaga sé út í bláinn, þvert á móti. Hér er sá mikli munur, að frv. er tilbúið, það dagaði uppi hér í þessari hv. deild á síðasta þingi. Það liggur tilbúið. Það þarf einungis að athuga það nánar og leggja það síðan fram. Það væri allt annað, ef taka þyrfti þetta mál frá grunni og semja ný lög. Hér liggur frv. tilbúið og bíður athugunar.