22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

123. mál, hlutafélög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú hljóðs bæði af efnisástæðum og svo einnig vegna þess, að stundvísi hæstv. forseta er farin að verða svo nákvæm, að það mátti eins búast við því eftir þeirri reynslu, sem við höfum, að umr. yrði lokið, þar sem frsm. minni hl. er ekki í þingsalnum, þegar umr. nú halda áfram, en mér er kunnugt um það, að hann hefur haft í undirbúningi að flytja skriflega brtt. við málið og mun gera grein fyrir því, enda hygg ég, að hann sé hér alveg á næstu grösum, alveg á sama hátt og sá þm. Sjálfstfl., sem á mælendaskrá var hér í gærkvöld, þegar umr. var slitið að ófyrirsynju.

Ég skal í þessum umr. aðeins binda mig við það atriði, sem meginmáli skiptir í sambandi við þetta mál, sem hér fyrir liggur, og það er í raun og veru það, hvort sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir að samþ. á hlutafélagalögunum, á eðli málsins samkvæmt að geta tekið til eldri félaga, sem stofnuð eru, þegar ástæður eru þannig, að eldri ákvæðin gilda, og gildi þeirra hefur verið forsenda fyrir stofnun félaganna og þeim stofnsamningum, sem gerðir hafa veríð.

Það hefur réttilega verið bent á það í nál. minni hl., að áður á þingi hafa þau sjónarmið fram komið, að það út af fyrir sig er atriði, hvort menn vilja gera þessa breytingu á hlutafélagalögunum í sambandi við þær félagsstofnanir, sem eiga sér stað héðan í frá. Hitt er svo allt annað, hvort með slíkri löggjöf er hægt að breyta eða hvort slík löggjöf getur náð til félaga, sem áður eru stofnuð, og eldri samninga um þetta atriði. Í sjálfu sér virðist það vera fullkomlega hæpið lagalega séð, að það fengi staðizt. Það er ekki aðeins, að þetta hafi komið fram hjá hæstv. núverandi forseta deildarinnar í umr. um þetta mál 1953, heldur er einnig kunnugt um, að aðrir hv. dm. hafa látið í ljós þessar sömu skoðanir, bæði undir meðferð málsins, við málflutninginn og við atkvgr. Ég tel því, að það skipti miklu máli og sé rétt, að menn íhugi þetta betur og að deildin freisti þess að færa þetta mál í það horf, sem virðist vera mjög eðlilegt, að skilja algerlega hér á milli, hvort ákvæði laganna eigi að taka til eldri félaga eða eingöngu þeirra, sem stofnuð eru eftir að lögin taka gildi.