05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Það er sýnilegt, að ógerlegt er að gera málinu þau skil, sem nauðsynlegt er, á þeim fimm mínútum, sem ég hef til umráða.

Ég verð að segja það strax, að svar ráðherrans var algerlega ófullnægjandi og frásögnin mjög lituð. Það er gott að heyra, að samningar hafa tekizt milli ríkisstj. og eigenda Hamrafells um það, að skipið verði í flutningum með dieselolíu og benzín. En hæstv. ráðh. láðist að geta þess, um hvaða farmgjald hefur verið samið með þessu skipi. Það hefur að sjálfsögðu geysilega mikið að segja fyrir útveginn í landinu, hvort þessu skipi verður greitt 100 shillingar á tonn fyrir flutning eða 200 shillingar á tonn. En hæstv. ráðh. láðist að geta um þetta. Ég vænti þess, að hann geti gefið Alþ. svar við þessari spurningu. Hann sagði, að með því að hafa Hamrafellið í förum væri séð fyrir flutningi á dieselolíu, sem bátaflotinn notar. Það er að öllum líkindum rétt, en þó vantar, eins og hann tók fram, einn farm, sem enginn veit enn hvort hægt er að fá skip til að flytja. En ef það fæst ekki og þó að Hamrafellið sé í förum, þá verður a.m.k. einhvern tíma vertíðarinnar olíulaust, ef aukaskip fæst ekki. Hæstv. ráðh. sagði, að svartolíubirgðir með því dýra skipi, sem tekið var fyrir 220 sh., mundu endast þangað til um miðja vertíð. Þetta er ekki rétt. Með þeim farmi, sem það skip flytur, verða svartolíubirgðir í landinu til febrúarloka. Eftir þann tíma eru engar birgðir í landinu tryggðar til þess að reka togarana.

Við skulum vona, að þetta breytist, að hægt verði að fá skip til flutninganna. En eins og stendur í dag, hefur ekki verið hægt að fá tilboð um eitt einasta olíuskip, og birgðir af olíu fyrir togara endast ekki nema til febrúarloka.

Hæstv. ráðh. sagði: Ja, þetta er ekki mitt mál. Þetta er mál togarafélaganna. Mér kemur þetta ekkert við. — Þetta er einkennilegt svar hjá hæstv. ráðh. Samt hefur hann verið í samtölum við félögin allan tímann, og hann hefur bæði synjað þeim um leyfi og leyft þeim að leigja skip. Hvað kom til? Til hvers var sá ráðh. að leyfa innflytjendum að leigja skip, sem hafði ekkert með málið að gera? Eða til hvers var sá ráðh. að synja mönnum um að leigja skip, sem málið var alveg óviðkomandi? Í afriti af bréfi til olíufélaganna, sem ég hef hér í höndunum frá ráðuneytinu, dags. 16. nóv., stendur m.a.: „Ráðuneytið taldi sig ekki vilja mæla með þessari leigu.“ Og svo segir aftur: „Ráðuneytið var ekki viðbúið að samþykkja þessa hækkun heldur.“ Og enn segir á öðrum stað í þessu sama bréfi: „Ráðuneytinu þótti ekki rétt að mæla með þessari leigu.“

Hvað á svona tvískinnungur að þýða af ráðherra, sem kemur hér fram til þess að gefa þinginu skýrslu? Hann segir, að málið komi sér ekkert við.

Mér sýnist, að hæstv. ráðh. hafi látið sér málið koma mjög mikið við, og ég vil endurtaka það að íhlutun hans í þessu máli, með leigu skipanna, hefur orðið þess valdandi, að togararnir verða að borga 2000 kr. á dag aukalega, meðan þeir eru að nota þessi 11 þús. tonn, sem hafa verið keypt síðast.

Sakirnar standa þá þannig nú, að ekki er til olía fyrir togarana nema til febrúarloka. Það lítur vel út með, að bátaflotinn hafi olíu yfir vertíðina, en þó með því móti, að skip fáist leigt til flutnings á einum farmi, ef ekki tveimur. Eins og sakir standa í dag, er ekki hægt að fá leigt skip hvar sem er á markaðinum. Vonandi breytist það.

Þetta er árangurinn af íhlutun hæstv. ráðh. Málið hefur verið þæft af ráðaleysi og þekkingarskorti, vegna þess að ráðh. ætlaði að sýna þjóðinni, að hann léti ekki olíufélögin fara undir fötin við sig í þessu máli til þess að hækka olíuverðið. En því miður brást bogalistin, og mistökin verða þau, að togaraflotinn, eins og ég sagði, verður að borga 2000 kr. á dag meira en áður.

Ég sé, að minn tími er búinn, en ég þyrfti miklu lengri tíma til þess að hrekja allar staðhæfingar hæstv. ráðh., sem ég tel að hafi ekki allar við sterk rök að styðjast.