05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það voru aðeins nokkur orð. — Hv. 2. þm. Reykv., fyrirspyrjandi, segir hér, að svar mitt hafi verið algerlega ófullnægjandi. Ég svaraði öllum hans fsp. nákvæmlega eins og efni standa til, en það þótti honum ófullnægjandi, af því að honum þótti líklega hlutur olíufélaganna, sem hann er hér að reyna að vinna fyrir, heldur lakari en hann hafði búizt við. En það verður hver að hafa það eins og það er að heyra sannleikann lesinn upp yfir sér, jafnvel þó að hann hefði nú kannske kosið eitthvað annað.

Hv. fyrirspyrjandi innti hér eftir því, hvaða farmgjald hefði verið samið um við Hamrafellið. Ég minntist ekki á þetta í mínu svari. Það var í fyrsta lagi vegna þess, að um þetta hafði ekki beint verið spurt, og í öðru lagi líka vegna þess, að frá þessu atriði hefur enn ekki verið fyllilega gengið, þó að það hafi verið gengið frá því, að öruggt sé, eins og ég sagði, að skipið verður í flutningunum.

Þá vildi hv. 2. þm. Reykv. gera hér nokkuð úr því, að það mundi vanta einn farm af bátaolíu á vertíðinni og yrði bátaflotinn því olíulaus einhvern tíma á vertíðinni. Það er rétt eins og það sé með öllu útilokað að fá olíu flutta til landsins. Og hvað hefði þá orðið, þó að þetta eina skip, sem olíufélögin eru að reyna að hengja hatt sinn á og átti að flytja hingað togaraolíu, hefði komið? Þau hafa ekki einu sinni beðið um meðmæli mín til þess að fá að leigja eitthvert skip undir þessa bátaolíu.

Þá endurtekur hv. fyrirspyrjandi það, að ég hafi synjað þessum félögum um leyfi til þess að flytja olíu til landsins og að í öðru tilfelli hafi ég veitt þeim leyfi. Þetta er með öllu rangt. Ég hef margsinnis tekið það fram við þau, og þau líklega vita um það, hvað þeirra samningar eru, að ég hef ekki synjað þeim um neitt leyfi. Þau höfðu fullt leyfi til þess að flytja olíuna til landsins með hvaða skipi sem er og hafa það enn í dag, og ég hef vitanlega ekkert vald á því sem slíkur, hvort þau taka heldur þetta eða hitt skipið, á meðan þau hafa samninga um að eiga að annast þessa flutninga. Hitt er annað mál, eins og ég sagði í því bréfi mínu, sem hv. 2. þm. Reykv. vitnaði hér í, að ég hafði beinlínis tekið það fram í bréfi til olíufélaganna, að ég vildi ekki mæla með því fyrir mitt leyti. Þau vissu mætavel um það, hvernig þessi mál lágu. Verðlagsmálin lágu hjá öðrum ráðherra en mér. Og við það rn. höfðu þau einnig rætt um þau mál.

Hitt kippi ég mér ekkert upp við, ekki neitt, hvorki hér á Alþ. né annars staðar, og alveg sérstaklega þar sem ég á nú sæti í ríkisstj., að olíufélögin kenni mér um það, þegar gengið er svolítið að þeim. Það kemur mér ekkert á óvart. Ég hef fengið það á mig, þegar ég hef haft minni aðstöðu til að hafa þar áhrif á heldur en nú. Og það er því ekki verið að kenna þeim ráðherrum um það, sem þessi mál falla undir, þegar nokkuð er hert að þeim, heldur er mér kennt um það. Það er af ofur skiljanlegum ástæðum.

Ég hef því ekki enn sem komið er haft neina íhlutun í frammi um það, hvernig þau haga sínum olíuflutningum til landsins. Hitt er svo annað mál, að ég hef oft látið þá skoðun í ljós, að olíufélögin eigi ekki að hafa neinn einkarétt á því, þau eigi ekki að hafa neinn samning um það að vera eini aðilinn, sem flytur olíu til landsins, það sé með öllu ástæðulaust að fela þeim það. Ég álít, að þau hafi ekki dugað þannig í því verki, að það sé nein sérstök ástæða til þess að fela þeim það verk.

Ég hef ekki sagt, að þetta mál komi mér ekki við. Og það er einmitt vegna þess, að það skipti mig miklu máli að vita um það, hvort olía var flutt til landsins eða ekki, að ég tók það að mér að mæla með því, sem mér sýndist á hverju stigi málsins vera þess eðlis, að það væri ekki sanngjarnt að neita olíufélögunum um. Mér er það alveg ljóst, að það er vitanlega ekki hægt að velta yfir á olíufélögin öllum fragtahækkunum, hversu miklar sem þær eru, og þó að ég hafi stundum talið, að þeirra hagur væri óþarflega góður, þá mun ég alveg hiklaust mæla með því fyrir mitt leyti, þar sem ég verð spurður um, að þau fái sanngjarnan hlut upp borinn af óvæntri og stórkostlegri hækkun, sem á þau getur fallið.

Ég sagði það hér og byggði á þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um olíubirgðir, að olíubirgðir af fuelolíu eða togaraolíu væru þannig, að þær mundu duga með þeim farmi, sem nú er á leiðinni, fram á miðja vertíð, og þetta er aðeins í sambandi við þá reynslu, sem verið hefur af notkun á þessari olíu á hverjum mánuði. Ég er fullviss um það, að þetta mun reynast rétt hjá mér, að það er mun meira en út febrúarmánuð, og það mun standa, sem ég sagði, að olíubirgðir eru raunverulega til fram á miðja vertíð. En ég er svo ekkert hræddur um, að það fáist ekki næg olía til þess að birgja togarana upp. Ég er alveg sannfærður um það, að okkur verður ekkert frekar neitað um það nú en áður að geta gripið til þeirra miklu olíubirgða af þessari olíutegund, sem eru í Hvalfirði, ef svo kynni til að takast, að erfitt væri að fá olíuna flutta nú í vetur. Ég efast ekkert um það, að það muni takast, enda hafa þegar farið fram það miklar viðræður um það málefni, að ég tel að það megi reikna fyllilega með því, auk þess sem ég er sannfærður um, að okkur mun takast eins og öðrum að fá a.m.k. eitt skip til þess að taka að sér flutning á einum farmi af þessari olíutegund einhvern tíma síðar í vetur.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist svo á það, að með því, hvernig þarna hefði tekizt til með leigu á skipi fyrir togaraolíu, hefðu útgjöld togaranna hækkað um 2000 kr. á dag. Þó að þessi upphæð sé auðvitað ekki rétt, þá skiptir það ekki höfuðmáli. En ég vil hins vegar minna hann á það, að bæði þegar hann hefur sjálfur verið í því embætti, sem ég hef nú með að gera, og eins þegar flokksbróðir hans var í því embætti, þá þurfti ekkert stríð til, að togararnir fengju slíka hækkun eins og 2000 kr. á dag. Það var rétt um síðustu áramót, sem slík hækkun skall yfir, án þess að nokkurt Súezstríð hefði komið þá til. Og þá stóð það ekki í þeim að renna í gegn slíkri hækkun bara eftir beiðni olíufélaganna, og reyndar var þannig búið um hnútana, að þeim var bara gefið fullt frelsi til þess að verðleggja þessa togaraolíu alveg að vild. Það var ekki fyrr en í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem sett voru ákvæði um, að haft skyldi eftirlit með verðlagningu á togaraolíu og hún hlýddi verðlagsákvæðum og þess gætt, að þar væri ekki framkvæmd óeðlileg hækkun.

Um það atriði svo, hvað ég hafi ætlað að sýna þjóðinni með íhlutun minni, sem hann segir að verið hafi í sambandi við olíumálin, þá vona ég fyrir mitt leyti, að svo vel sem olíufélögin hafa þegar fundíð svona forleikinn að þessu, þá eigi þjóðin eftir að sjá, hvað á eftir kemur í sambandi við fyrirkomulagið á olíumálunum. Við skulum vona það, að þeir fulltrúar olíufélaganna, sem hér eru á Alþ., og hluthafar þeirra verði ekkert óánægðir með þá skipun og a.m.k. álíka glaðir og þjóðin í sambandi við verðlagsmál á olíu.