23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (2794)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú orðið langt síðan rætt var um fsp. út af olíumálunum hér á Alþingi. Má vera, að drátturinn stafi nokkuð af því, að ýmsir úr stjórnarliðinu telja sér ekki hagstætt að ræða um meðferð olíumálanna opinberlega.

Síðast þegar rætt var um þessi mál hér í Alþingi, var ekki vitað með vissu, hvað ríkisstj. hafði gert í sambandi við leigu á olíuskipum. En síðan hefur það upplýstst, sem vakið hefur furðu alls almennings í landinu, að ríkisstj. með viðskmrh. í broddi fylkingar neitaði olíufélögunum um að leigja 15 þús. tonna skip fyrir 120 sh. flutningsgjald á smálest með þeim afleiðingum, að síðar varð að leigja skip fyrir 220 sh. Þessi yfirsjón ríkisstj. kostaði þjóðina hátt á fjórðu millj. kr. En ríkisstj. hefur á herðum sér enn stærri syndabagga í sambandi við olíumálin. Ríkisstj. hefur afhent Olíufélaginu og SÍS 15 millj. kr., sem þessi fyrirtæki með leyfi ríkisstj. taka í flutningsgjöld fram yfir það, sem eðlilegt hefði verið að greiða. Með 80 sh. flutningsgjaldi á smálest verður Hamrafellið borgað niður að fullu á fjórum til fimm árum. Með því að leyfa svo fljóta niðurgreiðslu er betur séð fyrir rekstri þessa skips en annarra fyrirtækja í landinu. Það er sannað, að útgerðin hefði þénað vel með því að fá 80 sh. í stað 160 sh., eins og samið var um.

Lúðvík Jósefsson viðskmrh. afsakar sig og kennir félmrh., Hannibal Valdimarssyni, um þetta, þar sem verðlagsmálin heyra undir hann.

Það er fagnaðarefni, að Íslendingar hafa eignazt olíuskip, og flestir munu hafa talið, að þjóðin í heild gæti hagnazt á því. Ýmsir hafa á undanförnum árum haft áhuga fyrir kaupum á olíuskipum, þ. á m. Olíufélagið h/f og SÍS. Hafa þessir aðilar nokkrum sinnum sótt um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir olíuskipi. Þegar gjaldeyrisyfirvöldin spurðu um möguleika Olíufélagsins og SÍS á því að útvega fé til skipakaupanna og með hvaða kjörum þau byggjust við að fá fé í þessu skyni, fengust aldrei viðunandi svör, vegna þess að féð var ekki fyrir hendi. En loks 25. okt. 1955 töldu þessir aðilar sig geta útvegað fé með hagstæðum kjörum án ríkisábyrgðar. Var þeim því veitt leyfi fyrir olíuskipi 6. des. sama ár. Gildandi fragtir á þessum tíma höfðu verið í okt. 36 sh., í nóv. 46 sh. fyrir smálest. Er því ljóst, að reiknað var með að rekstrargrundvöllur væri fyrir skipinu með þeim flutningsgjöldum.

Þegar gera skyldi samninga um lántöku vegna kaupa á skipinu, kom í ljós, að Olíufélagið og SÍS höfðu fullyrt of mikið, þegar þau sögðust geta fengið skipið án ríkisábyrgðar. Það kom í ljós, að þau gátu ekki fengið lánið, nema ábyrgð Landsbankans kæmi til. Ábyrgð þjóðbankans jafngildir vissulega ábyrgð ríkisins. Til þess að kaupendur gætu eignazt skipið og fengið lánið varð Landsbankinn að ganga í ábyrgð fyrir 2. veðréttar láni, sem nam 20% af kaupverði skipsins. Enn fremur varð Landsbankinn, til þess að lánið fengist, að gefa yfirlýsingu um, að hann gengi í ábyrgð fyrir yfirfærslu vaxta og afborgana af kaupverði skipsins. Það er því mikill misskilningur, ef einhver heldur því fram, að SÍS og Olíufélagið hafi keypt umrætt skip án ábyrgðar hins opinbera. Vissulega á þjóðin öll að njóta þess, að þetta skip er komið undir íslenzkan fána og í eigu landsmanna. Það er mannlegt, þótt Olíufélagið og SÍS taki við þeim fjármunum, sem ríkisstj. af góðmennsku sinni réttir að þeim.

Trúað gæti ég því, að stjórnendur þessara fyrirtækja brosi góðlátlega í kampinn, þegar þeir sín á milli ræða um samning, sem gerður var við ríkisstj. um flutning á olíu með Hamrafellinu, en sá samningur gefur eigendum skipsins a.m.k. 15 millj. kr. fyrir fjórar ferðir í aukagróða, eins og áður hefur verið tekið fram.

Í grein, sem hæstv. viðskmrh., Lúðvík Jósefsson, skrifaði í Þjóðviljann 19. þ. m., viðurkennir hann, að ríkisstj. hafi vald, hafi heimild í lögum til þess að ákveða hámarksfragt með íslenzkum skipum, en þar sem engar reglur væru gildandi um hliðstæða flutninga, hefði ríkisstj. ekki talið ástæðu til að nota þessar heimildir að sinni.

Reynt er að afsaka þetta frumhlaup með því, að lagt hafi verið á eigendur Hamrafells 9 millj. kr. yfirfærslugjald samkv. lögum um útflutningssjóð. Þau lög gera ráð fyrir 16% yfirfærslugjaldi á vexti og afborganir, en það verða því aðeins 9 millj. kr., að lögin verði í gildi í 5–6 ár, meðan verið er að greiða allt kaupverð skipsins. Sé hins vegar gert ráð fyrir, að þessi ólög gildi aðeins yfirstandandi ár, og flestir munu vona, að þau standi ekki lengur, þá er hér aðeins um að ræða 1.5 millj. kr., sem eigendum Hamrafells er ætlað að greiða í yfirfærslugjald. Er enginn vafi á því, að eigendur skipsins telja það góð viðskipti við ríkisstj. að fá 15 millj. kr. á silfurdiski, en endurgreiða aðeins 1.5 millj. kr. í útflutningssjóð.

Það þarf varla að taka það fram, að 16% gjaldið nær til allra skipa, þótt þau hafi búið við hámarksfragtir á undanförnum árum og taprekstur. Það er því ónýtt hálmstrá, sem gripið er til, þegar reynt er að verja olíuokrið með 16% skattinum. Ef ein lög eiga að gilda í landinu, held ég 16% gjaldið komi á Hamrafellið eins og önnur skip, þótt flutningsgjöld með því væru hæfilega há.

Það út af fyrir sig, að eigendum Hamrafells er gefið tækifæri til að safna fjármagni á auðveldan hátt, væri ekki svo alvarlegt, ef það leiddi ekki til þess, að almenningur í landinu, sem ekkert hefur aflögu, verður að greiða þetta fé í hækkuðu olíuverði, sem nemur um 200 kr. á smálest, hækkuðu benzínverði og auk þess óbeinum sköttum, 22 millj. kr., til niðurgreiðslu á olíu, sem útgerðin notar. Ekki er að efa, að þjóðin gerir sér grein fyrir því, hvað hér hefur gerzt, að sú ríkisstj., sem telur sig stjórn hinna vinnandi stétta, leggur þungar álögur á fátækan almenning, til þess að auðfélög í landinu geti á auðveldan hátt rakað saman gróða, meiri en nokkur dæmi finnast til. Það hefur verið skrifað um það í stjórnarblöðin, að sjálfstæðismenn væru með pólitíska árás á SÍS og Olíufélagið með skrifum sínum um olíumálin. Það er augljós vitleysa. Hér er ekki um að ræða árás á SÍS eða Olíufélagið. Eigendur Hamrafells hafa ekki gert annað en taka við því fé, sem ríkisstj. í örlæti sínu afhendir þeim. Hvernig eigendur Hamrafells hafa talað við ríkisstj., veit ég ekki, en vitanlegt er, að þeir hafa frá öndverðu vitað, að þeir hefðu hvorki lagalegan né siðferðilegan rétt til þess að krefjast hærri flutningsgjalda en sem svari kostnaðarverði. Það er ríkisstj., sem er sek í þessu máli. Það er hún, sem verður dregin til ábyrgðar fyrir það að hafa skattlagt almenning að óþörfu. Ríkisstj. gat komið í veg fyrir þá gífurlegu hækkun á olíum, sem nú er fram undan, með því að nota heimild í lögum.

Ýmsir stuðningsmenn ríkisstj. hafa mestu andstyggð á því, sem gerzt hefur í olíumálunum. Fulltrúar Alþb. og Alþfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur hafa gerzt flutningsmenn að tillögu, sem vítir framferði ríkisstj. og afskipti öll í sambandi við olíumálið. Einn af flm. till. er þm. Alþýðubandalagsins, Alfreð Gíslason læknir. Þegar stuðningslið ríkisstj. hefur þessa skoðun á málinu, hygg ég, að fáir muni halda því fram, að við sjálfstæðismenn séum með pólitískt ofstæki, þótt við ræðum þessi mál og bendum á afglöp ríkisstj. Munu flestir að athuguðu máli telja það nauðsynlegt og þjóðþrifaverk að gera öllum almenningi ljóst, hvernig vinnubrögð ríkisstj. eru. Þjóðin verður að læra af reynslunni og losa sig við núv. ríkisstj., sem ekki virðist kunna skil á réttu eða röngu, strax þegar tækifæri gefst.