23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2801)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það koma nú fram nýjar fsp. í þessum fyrirspurnatíma og þær sumar alleinkennilegar.

Hv. 1. þm. Reykv. spyr hér um það, hver eigi þær olíubirgðir í Hvalfirði, sem hafa dregizt aðeins inn í þessar umræður, þar sem upplýst hefur verið, að Íslendingar fái að nota nokkuð af þessum birgðum, á meðan stendur á flutningum á olíu til landsins.

Það er nú heldur einkennilegt, að þessi hv. þm. skuli spyrja um þetta, sem ég hélt að hann vissi manna bezt og reyndar öll þjóðin mundi fara nokkuð nærri um, hver ætti þær olíubirgðir í Hvalfirði, sem hér um ræðir. En það ber vitanlega skylda til að upplýsa hann um það, fyrst það hefur algerlega fallið úr vitund hans að skynja það, hver þetta á, en það mun vera svonefnt varnarlið, sem á þessa olíu. (Gripið fram í.) Já, það var spurt um það hér líka, ég ætlaði að koma að því. (Gripið fram í.) Ja, ætli við verðum ekki að segja það, að hv. þm. megi nota hvort sem hann heldur vill. Eins og ég hafði hér minnzt á áður, þá hefur það verið svo, að það hefur komið til þess áður, að Íslendingar hafa leitað eftir því að fá að taka af þessum olíubirgðum, sem geymdar eru í Hvalfirði, og nú, þegar dökkast var í álinn með það, rétt upp úr því að Súezstríðið skall á, að útvega olíuflutningaskip, — og þó að við hefðum nú eignazt Hamrafellið, þá gat það vitanlega ekki annað nema knöppum helmingi af því, sem þurfti að flytja til landsins, og þegar olíufélögin höfðu lýst yfir því, að þau væru algerlega ómáttug þess að útvega skip til flutninganna, — þá var m.a. horfið að því ráði að leita eftir að fá að taka af þessum olíubirgðum í Hvalfirði á svipaðan hátt og áður hafði verið gert. Það tókust fljótlega samningar um það, og í meginatriðum voru þeir á þeim grundvelli eins og áður, að miðað væri við það, að olíunni yrði skilað til þeirra aftur, jafnmiklu magni af olíu yrði skilað aftur, en hér var eingöngu um togaraolíu að ræða.

En vegna þess að verulegur vafi hefur leikið á því, hvaða fragt ætti að leggja til grundvallar, þá má nú af réttum aðilum, — það hefur mitt ráðuneyti ekki haft með að gera, og ég get því ekki gefið upplýsingar um það nú hér, — þá mun nú hafa verið fest eitthvert ákveðið verð, sem miða skal við, en við eigum vitanlega rétt á því að skila aðeins sama olíumagni aftur, því að miðað við það voru sjálf kjörin, ef við kjósum það frekar.

Þá var spurt um það, hvað ég hefði átt við með því orðalagi að segja, að það hafi verið lagður á Hamrafellið sérstakur skattur, sem nemur um 9 millj. kr., — en ekki 16 millj., eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði hér. Ég hafði ekki nefnt hærri tölu en 9 millj. kr., og hygg ég, að það muni vera mjög nærri því, sem rétt er.

Ég hef aldrei sagt, að það hafi verið lagður sérstakur skattur á Hamrafellið eitt. Það vitanlega hefði líka hv. þm. átt að vita, að ekkert slíkt hefur verið samþykkt hér á Alþingi, jafnvel þó að honum hafi gengið illa að skilja lagabálk þann, sem samþykktur var hér dagana fyrir jólin. Um það var ekki að ræða, en það var lagður sérstakur skattur á Hamrafellið eins og önnur skip, sem keypt eru til landsins og ekki teljast sem fiskiskip, og þessi sérstaki skattur, sem hér var samþykktur um þetta leyti á skip, nemur um 9 millj. kr., svo að þetta er að öllu leyti rétt. En að þessi skattur hafi verið lagður á Hamrafellið eitt, á það hefur aldrei verið minnzt, og það hefur vitanlega ekki verið gert.

Hv. 1. þm. Reykv. klykkti svo hér út með því, að þessar miklu umr., sem hér hefðu farið fram um olíumálin, stöfuðu af því, að upplýst hefði nú verið, að ríkisstj. hefði gefið einstöku félagi 15 millj. kr. í of há flutningsgjöld. Það er vitanlega mikill misskilningur að reyna að halda þessu fram nú hér á eftir, m.a. vegna þess, að þegar sú fsp., sem hér kom fram og umr. höfðu snúizt um lengst af, var lögð fram, þá var alls ekki búið að leigja Hamrafellið eða ákveða leigukjör á því. En hitt er svo rétt. að þetta hefur svo orðið einn af mörgum þáttum, sem inn í þetta hefur komið, leigan á Hamrafelli, sem reynt hefur verið að hamra mjög á, hversu væri miklu hærri en hóflegt er. Hins vegar hefur verið hér gefin á því full skýring, hvaða rök lágu til þess, að Hamrafellið fékk þau leigukjör, sem um var samið, og það stendur enn alveg óhrakið, að Hamrafellið er í þessu tilfelli eina skipið, sem hefur verið látið slá verulega af þeim frögtum, sem gilda á hinum frjálsa markaði, eina íslenzka skipið, sem hefur þannig flutning, að það flytji heila farma. Það var því gerð í þessu tilfelli undantekning í sambandi við Hamrafellið, þó að ýmsir séu á þeirri skoðun, að þar hefði mátt lengra ganga. En fyrst viðskmrh. Sjálfstfl. sá sér ekki fært af umhyggju fyrir Hamrafellinu að tryggja Íslendingum flutning á olíu fyrir 60 sh., af því að það væri eitthvað hallað á Hamrafellið, þá vona ég nú, að mér fyrirgefist það, þó að ég gengi ekki lengra í þessu tilfelli en að láta Hamrafellið þó slaka til þarna um 60-80 sh. fram yfir hina frjálsu fragt.