23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Jóhann Hafstein:

Það er nú fátt, sem gefur tilefni til athugasemda í þessari síðustu ræðu. Það er rétt að halda sig við það, sem gaf mér tilefni til þess að standa upp og hv. 2. þm. Rang. í fyrri ræðu sinni lagði megináherzlu á, en var nú horfinn alveg frá og vildi eiginlega drepa á dreif og láta gleymast, að það sé athugað betur, og það er bezt að gera nokkra kröfu til þess, að hann fylgist með því, að það sé athugað betur, að aðstaða annarra en Hamrafellsins, annarra skipafélaga, sem flytja heila farma til landsins, sé endurskoðuð og athugað, hvort þeir eiga ekki að sæta einhverjum verðlagshömlum eins og Hamrafellið að þeirra dómi er látið sæta hérna, en frá mínu sjónarmiði lítur nokkuð öðruvísi út, eins og ég skal koma að.

Spurt er: Hefur ekki verið hægt fyrir Eimskipafélag Íslands að flytja vörur í heilum förmum til landsins? Jú, vafalaust hefur Eimskipafélag Íslands haft alveg sömu aðstöðu í sjálfu sér og kannske betri aðstöðu til þess en Samband ísl. samvinnufélaga. En það hefur bara komið fram í þessu meiri þjóðhollusta Eimskipafélagsins í vöruflutningum sínum heldur en þessi vanalegi yfirgangur samvinnufélagsins og frekja samvinnumanna, þegar þeir sjá sér leik á borði að hagnast nokkuð, að það hefur hvað eftir annað komið fyrir, að skip Sambandsins hafa af ásettu ráði skilið eftir heilar vörusendingar, sem þó hefur verið til ætlazt og gert ráð fyrir að þeir flyttu af höfnum erlendis. til þess að taka hella farma, sem hin hærri farmgjöld hafa fallið á, og það hefur svo verið verkefni Eimskipafélagsins að taka þetta upp og flytja þetta með verðlagsákvörðunum á frögtunum til landsins, eftir að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafði hjá því sneitt til þess að geta náð hærri frögtum með sínum skipum.

Ég held, að menn hafi ekki gert ráð fyrir því hérna, að Hamrafellið þyrfti að fá hinar háu fragtir af því, að það væri svo mikil hætta að sigla inn í Svartahafið. Vitaskuld eru verðhækkanirnar fyrst og fremst í sambandi við það, að skipin hafa ekki verið tiltæk á heimsmarkaðnum, eftir að Súezskurðurinn lokaðist, vegna vöruflutninga annars staðar, en ekki vegna þess, að menn hafi álitið, að þeir kæmu ekki skipum sínum aftur heim, þótt siglt væri til Svartahafsins á þessum tíma.

Loks vil ég segja það. að hv. 2. þm. Rang. talar um það, það gerir hæstv. viðskmrh. líka og það er stöðugt talað um það af þeim, sem vilja verja þessa samninga við Hamrafellið, að það hafi verið tryggt minna gjald, minni fragtir en hægt hefði verið að fá á heimsmarkaðnum. En af hverju ekki að segja, að ríkisstj. hafi tryggt þessum aðilum hærri fragtir en lagðar voru til grundvallar, þegar skipakaupin voru gerð, og ríkisstj. hafði í hendi sér að meta, þegar skipið kom, hvernig fragtirnar ættu að vera? Það er ekki einhlítt að segja sem svo: Ja, heimsmarkaðsverðið er þetta, og með því að semja um eitthvað lægra hafa fragtirnar verið lækkaðar. — Skipið hefur einnig verið keypt inn í landið á grundvelli útreikninga um, hvað það þyrfti að hafa í fragtir, og með samningum við ríkisstj. hafa fragtirnar nú verið stórlega hækkaðar frá því, sem lagt var til grundvallar, þegar þetta skip var keypt.