23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (2808)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í sambandi við þessar olíuumræður hefur stundum verið vikið að mér og mínu nafni af hendi hv. sjálfstæðismanna, og tel ég því rétt að segja nokkur orð um málið. Það er rétt, að umboðsmenn olíufélaganna gerðu sér tíðförult til mín, þegar leið á sumarið, og sögðu mér, að þeir væru orðnir illa haldnir sem innflytjendur olíu, því að í fyrravor hefðu skrif Lúðvíks Jósefssonar um verðlag á olíum hér á Íslandi gert það að verkum, að fyrrverandi ríkisstj. hefði ekki haft hugrekki til að sýna þeim þá sanngirni að hækka verðlag hér á olíum, miðað við þær hækkandi fragtir, sem þá var farið að örla á; svo hefðu komið kosningarnar, og þá hefði ríkisstj. ekki þorað að hækka olíuverðið, þrátt fyrir það að fragtir hefðu þá farið hækkandi, og síðan sýndu þeir fram á, að fragtir hefðu haldið áfram að hækka núna seinni hluta sumarsins, eftir kosningar, og töldu þá sín rök orðin ærin fyrir því, að nú gætu þeir ekki lengur við þetta óbreytta olíuverðlag unað og yrðu að fá viðurkenningu á hærra olíuverði. Ég skal játa, að ég var mjög íhaldssamur um að vilja breyta því verði, sem hafði verið fyrri hluta sumarsins, og taldi þrátt fyrir þessi rök þeirra um hækkandi fragtir fyrir og eftir kosningar, að enn yrðu þeir þó að una við sama og óbreytt verð.

Það fór svo þannig, að þegar þeir höfðu fengið neitanir hjá mér nokkuð mörgum sinnum, fulltrúar olíufélaganna hvers um sig og jafnt þó að þeir kæmu allir saman í einni fylkingu, þá fóru þeir að bera það undir ríkisstj. í heild, hvort ekki væri hægt, þegar fragtirnar héldu áfram að hækka, að fá fyrir fram loforð fyrir því, að fragthækkanir yrðu teknar inn í væntanlegt verðlag, þegar byrjað yrði að selja þá farma, sem þá ætti að fara að flytja inn. Og þar er það, sem þessar olíuumræður eiginlega byrja.

Hér hefur því verið haldið fram, að sjútvmrh., viðskmrh. hafi neitað olíufélögunum um að leigja skip á því verði, sem þau gátu á ákveðnum tíma fengið. Þetta er alger misskilningur eða vísvitandi missögn, því að það er staðreynd, að olíufélögin þurfa ekki að fara til eins eða neins ráðh. til að spyrja um það, hvort þau megi leigja skip, og viðskmrh. hefur upplýst það með fullum sannindum, að þau þurftu ekki til ríkisstj. að fara um það að gera samninga um þau olíuskip, sem þau þurftu á að halda á hverjum tíma. Það, sem þau voru að fiska eftir, var að fá fyrir fram loforð hjá ríkisstj., fá viðurkenningu á verðlaginu, þegar væri farið að selja þá olíu, þá yrði hin hækkaða fragt tekin til greina. Skal ég taka á mig fulla sök um það, að ég hef allra manna mest staðið á móti því, að þeir fengju verðhækkanir á olíunum fram að þessum tíma vegna hækkandi fragta.

Þegar svo Hamrafellið kom um það leyti, hvaða sögu höfðu þá olíufélögin að segja um möguleika til að fá skip til olíuflutninga fyrir Íslendinga? Þá sögðu þeir okkur, að það væri hvergi hægt að fá skip fyrir minna en 120 sh. Það var hærra en það hafði verið nokkru sinni áður. Niðurstaðan þá varð sú, að Hamrafellið fékkst til þess að flytja þann farm, sem þá var um að ræða, fyrir 100 sh. Maður hefur ekki heyrt neinn lofsöng um það, að við þurftum þá ekki að sæta 120 sh. fragt, heldur fengum við hið nýja íslenzka skip til þess að koma sína fyrstu ferð heim með olíufarm fyrir 100 sh. tonnið, þegar öll olíufélögin sögðu: Við getum hvergi fengið skip fyrir minna en 120 sh. — En það var sýnt, að ekki var búið að tryggja, að við hefðum olíur og benzín út vetrarvertíðina fyrir það, þó að við fengjum þann farm, og þá komu þeir hver í sínu lagi og allir saman og bar saman um það, að fragtirnar færu enn hækkandi, og þar kom, að þeir sögðu, — og það fer ekkert á milli mála, eftir að Súezdeilan var byrjuð, — að það væri mjög mikil tregða á því að fá skip til siglinga inn í Svartahafið; skipaeigendurnir óttuðust, að skipin kynnu að festast þar, kyrrsetjast þar, vátryggingargjöld hefðu hækkað og áhættan væri stóraukin, fragtirnar hefðu rokið upp í verði, m.a. vegna þess, að siglingaleiðin hafði lengzt og meiri skortur á skipum, minna framboð. Og þetta mun allt vera rétt hjá olíufélögunum. Það er ekki til neins að koma með rangar upplýsingar um þessi atriði. Það er um skráð heimsmarkaðsverð að ræða á þessum skipum.

Um það leyti sem samningurinn var gerður við Hamrafellið, lágu fyrir samhljóða vitnisburðir olíufélaganna um það, að þau gætu hvergi fengið skip fyrir minna en 220 sh. tonnið til Íslands. Við urðum sannarlega varir við það, að Hamrafellseigendur vildu fá að sigla fyrir aðrar þjóðir og notfæra sér heimsmarkaðsverðið, 220 sh. Og hefði það verið gert, hvað hefðum við þá getað fengið? Ekkert annað en útlend skip fyrir 220 sh. tonnið. Það er alveg greinilegt, enda er það augljóst mál, að ef Shell eða BP hefðu getað nokkurs staðar fengið fluttar olíur og benzín til sín fyrir minna en 160 sh. tonnið, þá hefðu þau sagt: Ja, við útvegum okkur heldur skip út af fyrir okkur til þess að birgja okkur upp, heldur en að sæta þessum afarkostum, sem við eigum þarna að sæta. — Það er alveg augljóst mál, að ef íslenzkur aðill hefði ekki haft þetta skip á hendinni á þessum tíma eða Hamrafellið ekki látið undan með það að fara niður fyrir heimsmarkaðsverð, þá hefðum við orðið að kaupa allar okkar olíur á þessum vetri inn fyrir 220 sh. tonnið. (Gripið fram í.) Ja, þá hefði ekkert harmakvein verið rekið upp, bara gott, að útlendingar fengju það, fyrir kannske miklu eldri skip en Hamrafellið er og ódýrari.

Ég hef ekki heyrt, að neinn hafi boðizt til þess á þessum mánuðum að útvega olíuskip fyrir 60 sh. tonnið og ekki heldur 80 og ekki heldur tvisvar sinnum 80. Lægsta talan, sem maður hefur heyrt, er 220 sh. fyrir tonnið. (Gripið fram í.) Hvað segir olíusalinn, hv. 2. þm. Reykv. Hvað segir hann? (Gripið fram í: Fragtirnar eru núna 160 sh. tonnið.) Fragtirnar eru núna komnar það, segir hann. Það mun þá koma í ljós fljótlega og er gleðileg frétt. En verðlagsyfirvöldin eru að ganga frá og yfirfara — margyfirfara — „kalkúlasjónir“ frá olíufélögunum og öðrum. Og það, sem við höfum þar á milli handanna, er þrír olíufarmar. Það er Hamrafellsfarmurinn á 160 sh. tonnið og tveir farmar aðrir, báðir á 220 sh. tonnið. Og það er ekki Hamrafellsfarmurinn, sem kemur til með að hækka olíuverðið út frá þessu, heldur eru það farmar hinna tveggja erlendu olíuskipa, sem koma til með að hækka verðið hjá okkur nú á næstunni. Hitt er gott að eiga í bakhöndinni, og það vonar maður, að núna þegar líður á veturinn fari þessar fragtir lækkandi.

Það var einhver, sem varpaði því fram hér áðan, hvort það væri ekki líklegt, að fragtirnar væru nú óðar en varði komnar svo langt niður, að þær yrðu komnar niður fyrir 160 sh. Það færi betur, að svo yrði, en hingað til höfum við ekki haft fregnir af því, að það sé von til þess, að fragtirnar séu komnar í samt lag og áður, fyrr en þá í fyrsta lagi með vorinu. Og ég er alveg viss um það, að undir þungum ásökunum hefði núverandi ríkisstj. setið, ef hún hefði ekki gert ráðstafanir núna með haustinu og í byrjun vetrar til þess að tryggja, að hér væru olíubirgðir í landinu út vetrarvertíðina a.m.k. Þá hefðum við setið undir réttmætum og þungum ásökunum.

Ég held, að það muni koma í ljós, að fragtirnar verði ekki komnar, því miður, langt niður fyrir 160 sh. á tonn, áður en sá tími er liðinn, sem Hamrafellið átti að skila sínum fjórum förmum til Íslands. Og meðaltalsverðið má vera komið langt niður fyrir, um það bil er því tímabili lýkur, ef það ætti að sýna sig að hafa orðið í óhag að hafa tryggt sér Hamrafellið fyrir 160 sh. tonnið í fjórar ferðir, því að í 220 sh. hefur það staðið fram að þessu.

Ég álít, að með þessu sé fyllilega svarað spurningunni, sem hefur verið varpað fram, hvort það hefði ekki verið hægt að gera þetta fyrir minna. Það er áreiðanlegt, að við hefðum ekkert skip annað fengið fyrir minna, ekkert skip fengið fyrir neðan 220 sh. tonnið.

Viðvíkjandi öðrum skipafélögum og frögtum núna, þá er það a.m.k. ekki í lækkunarátt, því að nú um sinn hefur legið hjá mér erindi frá Eimskipafélagi Íslands með löngum rökstuðningi og miklum um nauðsyn þess félags um hækkanir á frögtum og upplýsingar um hækkanir á frögtum á heimsmarkaði líka almennt. Og það er ekki búið að kalla það erindi til baka enn, út frá því, að nú votti fyrir einhverjum lækkunum. Síður en svo. Það hefur aldrei verið sótt fastar á heldur en núna seinustu dagana um, að það verði að heimila Eimskipafélagi Íslands hækkandi fragtir og þá væntanlega jafnframt skipadeild samvinnufélaganna. Ég vildi vona, að það sé nú farið að rofa það til þar líka, að það verði horfið frá því að heimta hækkanir, og kannske komi nýtt erindi og verði nú upplýst fljótlega, að nú sé hægt að sætta sig við lægri fragtir.

Það var hér einn ræðumaður, sem sagði, að það hefðu allir fagnað því, að Íslendingar hefðu eignazt nýtt olíuskip. Ég vona, að svo sé. En mér finnst bara, að sá fögnuður hafi verið eitthvað blandaður, og fagnaðarópin hafi verið með þeim hætti, að manni hefur skilizt, að ekki væri alveg óblandinn fögnuður yfir þessu skipi.

Ég kemst ekki hjá því, þegar ég lít yfir allt þetta olíumál og þá staðreynd, að íslenzkt skip hefur fengizt til þess að flytja inn fyrir okkur olíur, þegar okkur reið mest á, fyrir 160 sh. tonnið, þegar ekkert erlent skip fékkst til að gera það fyrir minna en 220 sh. á tonn, að það styðji fyllilega þá sannfæringu mína, að þessi mikla herferð er því miður að öðrum þræði a.m.k. hafin af gamalli og rótgróinni óvild til samvinnuhreyfingarinnar.