09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein):

Í sambandi við frv., sem hér er til umr., um eflingu fiskveiðasjóðs á þskj. 18, tel ég nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér grein fyrir heildarmynd málsins og mikilvægi þess. Það er annars vegar um að ræða fjárreiður fiskveiðasjóðs eins og þær nú eru, en hins vegar þá lánsfjárþörf, sem ætla verður að sé fyrir hendi á næstunni, miðað við verkefni fiskveiðasjóðs.

Ég skal fyrst ræða fyrri þátt málsins eða fjárreiður sjóðsins. Segja má, að þessu atriði séu gerð góð skil í grg. frv., og vil ég því einkum árétta það, sem þar er fram tekið og mestu máli skiptir, en auk þess benda á fleiri staðreyndir, sem hafa úrslitaþýðingu.

Ef litið er á fjárhag fiskveiðasjóðsins nú, koma m.a. fram eftirfarandi atriði:

Á yfirstandandi ári og fram til 25. okt. hefur sjóðurinn veitt lán, sem nema alls rúmum 42 millj. kr., og loforð sjóðsins um lán til afgreiðslu fyrir lok þessa árs munu vera nálægt 20 millj. kr. Þær koma ekki allar til útborgunar þessar upphæðir á þessu ári, vegna þess að yfirleitt hefur fengizt eins, tveggja og þriggja ára gjaldfrestur á helmingi andvirðis þeirra báta, sem erlendis eru smíðaðir. Útborganir til áramóta eða þar til um bil munu vera áætlaðar um 16 millj. kr., en bankainnstæður sjóðsins nú eru tæpar 10 millj. Er þá sjóðurinn meir en þurrausinn, þó að nokkrar tekjur falli til fram að áramótum, því að hér eru ekki heldur taldar ýmsar brýnar lánbeiðnir, sem fyrir liggja og nauðsynlegt væri að geta afgreitt á næstunni.

Þessar niðurstöður eru í framhaldi af og í samræmi við áætlanir og horfur síðari hluta árs 1955, en þá var fyrrv. hæstv. ríkisstj. bent á, að óhjákvæmilegt væri að afla fiskveiðasjóði viðbótarfjár, 10 millj. kr. á ári 1956 og 1957, til þess eins, að hægt væri að veita lán til skipasmíða, sem þá voru þegar hafnar eða um það bil að hefjast.

Í þessu sambandi verð ég að leiðrétta það, sem fram kemur í grg. frv. um framlög til fiskveiðasjóðs af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1955 og 1956, eins og þar stendur, en það á við árin 1954 og 1955. Áætlaðar árstekjur sjóðsins að óbreyttum kringumstæðum eru nú um 18 millj. kr. Það eru í fyrsta lagi afborganir og vextir, sem munu nema nálægt 7500 þús. Í öðru lagi hluti útflutningsgjalds af sjávarafurðum, sem mun nema nálægt 8500 þús. kr., og í þriðja lagi ríkissjóðsframlag samkvæmt síðustu lögum um fiskveiðasjóð, 2 millj. kr. Þarna er sem sé um 18 millj. kr. árlegar tekjur, sem vitað er um, að ræða. En næstu tvö árin, 1957 og 1958, falla hvort árið um sig til afborgunar af erlendu bráðabirgðalánunum til bátakaupanna undanfarið um 10 millj. kr. á ári, og verður þá handbært fé til útlána næstu tvö ár, að öðru óbreyttu, aðeins 8 millj. kr., sem eins og nú er hrekkur ekki einu sinni til að endurnýja vélarnar í bátaflotanum árlega, hvað þá meira.

Að vísu veit ég, að þessi fjárskortur fiskveiðasjóðs kemur hv. alþm. ekki á óvart, því að alkunna er, að reynt hefur verið að fá erlent lánsfé til fiskveiðasjóðs tvö undanfarin ár frá Alþjóðabankanum, en án árangurs.

Frv. það, sem hér er borið fram um að hækka hið árlega ríkissjóðsframlag þegar í stað um 10 millj. kr., miðar að því að firra vandræðum eins og nú horfir. Það leysir ekki lánsfjárþörfina, sem fram undan er, en það er vissulega að dómi okkar flm. ekki til of mikils mælzt, að af hinum risavöxnu útgjöldum ríkissjóðs fari árlega 12 millj. kr. í hinn mikilvæga stofnlánasjóð sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóð Íslands.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að lánsfjárþörfinni, sem fyrir hendi er, ef tryggja á, að fiskveiðasjóður geti haldið áfram að gegna sínu mikilvæga uppbyggingarhlutverki í íslenzkum sjávarútvegi.

Eins og fram kemur í grg. frv. á fskj. 4, er hin árlega lánsfjárþörf áætluð rúmlega 44 millj. kr., og er þá miðað við sömu eða svipaða þróun eða hraða í uppbyggingu bátaútgerðarinnar, bæði bátabyggingum og aðstöðu bátanna í landi, eins og verið hefur undanfarin 2–3 ár. En þessi áætlun sundurliðast þannig, að til aukningar bátaflotans, miðað við þessa sömu þróun, mundi þurfa rúmar 26 millj. kr., eða 26250 þús., til vélakaupa, þ.e.a.s. til að endurnýja vélarnar í bátaflotann árlega, með núverandi verðlagi um 9 millj. kr., í viðgerðir skipa og véla 2 millj. kr. og til verbúða og vinnslustöðva 7 millj., en samtals gerir þetta þessar 44250 þús. kr.

Ef til vill er þessi áætlun rífleg og mætti komast af með minna til sumra liða hennar. En þá er einnig á það að líta, að önnur aðkallandi verkefni eru fyrir hendi, sem fiskveiðasjóður hefur ekki treyst sér til að sinna eða ekki nema að nokkru leyti, og á ég þar við margs konar verkefni í sambandi við hagnýtingu aflans í landi, og alveg sérstaklega vek ég athygli á þeirri miklu þörf, sem fyrir hendi er hjá söltunarstöðvunum á Siglufirði og víðar til endurnýjunar og nýbyggingar, en margar eða flestar þessar söltunarstöðvar eru að verulegu leyti úr sér gengnar. Þörfum þessara aðila hefur fiskveiðasjóður ekki getað mætt, og ég óttast, að þeir eigi ekki í nokkur hús að venda, eins og nú standa sakir.

Af öllu þessu má marka, eins og fram kemur í grg., að til stórra vandræða horfir, enda þótt þetta nauðsynlega frv. yrði að lögum, ef ekki tekst jafnframt að hagnýta 50 millj. kr. lánsheimild þá, sem fyrir hendi er í gildandi lögum um fiskveiðasjóð, nr. 40 frá 1955.

Ég vil svo að lokum minna á eftirfarandi staðreyndir um þýðingu bátaútgerðarinnar fyrir fjárhag þjóðarinnar og atvinnuöryggi:

1) Viðskipti þjóðarinnar út á við og fjárhagsleg afkoma er meira undir útveginum komin en nokkrum öðrum atvinnuvegi þjóðarinnar, en framleiðsla sjávarútvegsins hvílir á tveimur meginstoðum, annars vegar bátaflotanum, en hins vegar togurunum.

2) Af því aflamagni, sem á land kemur árlega, eru nærri 57% frá bátaflotanum, og svipað verður hlutfallið að því er snertir þau verðmæti, sem framleidd eru til útflutnings úr aflanum.

3) Á bátaflotanum munu að jafnaði vera 4–5 þús. sjómenn, sem hafa aðalframfæri sitt af þessari atvinnugrein. Í öllum kaupstöðum og kauptúnum á suðvesturhluta landsins, ef frá er tekin Reykjavík og að nokkru leyti Hafnarfjörður, byggist afkoma manna að langmestu leyti á bátaútveginum, og sérstaklega má nefna staði eins og Vestmannaeyjar, sem byggja afkomu sína að öllu leyti á bátaútveginum. Víðs vegar um landið eru vaxandi sjávarþorp með nýtízku fiskiðnaði í landi, nýjum og vistlegum íbúðarhúsum og almennri velmegun ávöxtur bátaútgerðarinnar.

4) Bátaflotinn hefur sérstöðu til hagnýtingar auknum aflabrögðum vegna friðunarráðstafana i hinni nýju og vaxandi landhelgi, og síldveiðarnar má segja að grundvallist á bátaflotanum.

5) Það er á færi einstaklinganna sjálfra, sjómanna og samtaka þeirra, að stofna til bátaútgerðar, svo sem hin öra þróun og nýsköpun bátaflotans á síðustu tveimur og hálfu ári sýnir, en á þeim tíma hefur hann aukizt um 4276 rúmlestir, en samtímis hefur aukning togaraflotans verið einstaklingunum algerlega ofviða.

6) Af framangreindu má m.a. marka grundvallarþýðingu bátaútgerðarinnar í þjóðarbúskap landsmanna. Hún skapar hlutfallslega mesta vinnu, skilar tiltölulega mestu af verðmæti aflans til mannanna, er að útgerðinni vinna, tiltölulega mestum erlendum gjaldeyri og krefst minnsts fjármagns. Eru því fá verkefni Alþ. og ríkisstj. veigameiri en að skapa Fiskveiðasjóði Íslands aðstöðu til að gegna hinu mikilvæga hlutverki að veita bátaútveginum nauðsynleg stofnlán framvegis, því að ella væri fótum kippt undan einni meginstoð íslenzks atvinnulífs, bátaútveginum.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.