03.12.1956
Neðri deild: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3148)

66. mál, afnám aðflutningsgjalda af fiskflökunarvélum

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt, á íslenzk útflutningsframleiðsla mjög í vök að verjast vegna stöðugt hækkandi rekstrarkostnaðar, á sama tíma sem verð útflutningsafurða þessarar framleiðslu stendur í stað í íslenzkum krónum. Það er því lífsskilyrði fyrir þessa framleiðslu að geta hagnýtt sér þá tækni, sem er í vélaframleiðslu annarra þjóða, til þess að geta með því lækkað rekstrarkostnaðinn.

Fyrir ári var keypt til Vestmannaeyja ný vél til flökunar á fiski, sem búin var til í Þýzkalandi. Þessi vél hafði haft tiltölulega litla reynslu, en sú reynsla, sem fékkst með vél þessari í Vestmannaeyjum, var svo góð, að þeir menn, sem starfa að frystihúsarekstri, töldu, að lífsnauðsyn væri fyrir þennan rekstur að geta náð í slíkar vélar til þess að geta lækkað rekstrarkostnaðinn, en þessi vél vinnur á við marga menn á degi hverjum.

Þetta varð svo til þess, að nú hefur verið stigið skref til þess að vélvæða frystihúsareksturinn í stórum stíl með innkaupum á þessum vélum með aðstoð Framkvæmdabankans. Nú hafa verið pantaðar 56 af þessum vélum og þær kosta, komnar á höfn hér á landi, frá 435 þús. kr. og upp í 728 þús. kr. hvert stykki eftir stærð. Andvirði allra þessara véla, sem pantaðar hafa verið, er um 30 millj. kr., komnar hér í höfn. Hér er því um geysilega mikið átak að ræða fyrir frystihúsareksturinn, sem nú berst í bökkum vegna skorts á rekstrarfé. En samningur hefur fengizt um kaup á vélunum á þann hátt, að lítið eitt er borgað um leið og vélarnar eru pantaðar og afgangurinn á fáum árum, og gerir það frystihúsunum kleift að kaupa þær.

En sagan er ekki þar með öll sögð. Til þess að fá þessar vélar fluttar til landsins tekur ríkissjóður samkvæmt núgildandi aðflutningsgjaldatöxtum 101/2 millj. kr. á þessar 56 vélar, er leggst sem beinn skattur í viðbót við innkaupsverðið, 30 millj. kr. Ég geri ráð fyrir því, að menn geti verið sammála um, að ekki sé rétt, að ríkissjóður leggi þennan gífurlega skatt á vélarnar, sem nauðsynin hefur knúið menn til þess að flytja inn, svo að gera mætti þessa útflutningsframleiðslu samkeppnishæfa á erlendum markaði, ekki sízt þegar þess er gætt, að þeir aðilar, sem vélarnar flytja inn, verða, eins og ég hef þegar sagt, að berjast í bökkum með rekstrarfé. Þetta er alveg sérstakur innflutningur, sem ekki hefur verið reiknað með í þeirri áætlun um tolltekjur, sem gerð var, þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Það getur því ekki raskað neinu í sambandi við fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, þó að þessir tollar, sem nú hvíla á flökunarvélunum, séu afnumdir um ákveðinn tíma. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. sjái nauðsyn á því, að þetta nái fram að ganga og að frv. nái samþykki í þinginu.

Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjhn.