13.11.1956
Neðri deild: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

11. mál, skipakaup

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. því, sem útbýtt hefur verið meðal hv. þdm., hafði ég nokkurn fyrirvara um frv. í fjhn. og tel ég rétt að gera grein fyrir honum með örfáum orðum.

Um það var ekki neinn ágreiningur í n. og mun ekki vera neinn ágreiningur á þingi, eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram um málið, að nauðsynlegt sé að efla togaraflota landsmanna og því sjálfsagt að samþykkja heimild þá, sem hér er farið fram á hæstv. ríkisstj. til handa, til lántöku í því skyni að kaupa togara.

En eins og hins vegar hefur komið fram, virðast um það töluvert skiptar skoðanir, með hvaða hætti rekstur togaranna eigi að verða. Ég get ekki skilið frv. það, sem hæstv. ríkisstj. leggur hér fram, öðruvísi en á þann hátt, að það sé skoðun hennar, hvort sem það er nú skoðun allra hæstv. ráðh., eða málið liggur þannig fyrir, að um þetta eitt hafi getað orðið samkomulag innan hæstv. ríkisstj., — að það æskilegasta mundi vera að reka togarana í einhverju öðru formi en því, að um ríkisútgerð sé að ræða, þannig að ætlunin sé aðeins að grípa til ríkisútgerðar, ef aðrir möguleikar séu ekki fyrir bendi. Væri þetta rangur skilningur, væri ekki ástæða til þess að greiða svo mjög fyrir lánum út á þessa togara sem gert er í þessu frv., þar sem heimilað er að lána 85 og jafnvel allt að 90% af kaupverði togaranna. Væri það skoðun hæstv, ríkisstj., að ríkisútgerð væri æskilegasta leiðin í þessu efni, sé ég ekki neina ástæðu til þess að hafa lánsheimildina svo rúma.

Ég er algerlega sammála því, að ríkisútgerð sé neyðarúrræði í þessum efnum. Ég mundi heldur kjósa önnur rekstrarform og tel ríkisútgerð algert neyðarúrræði, þó að ég vilji ekki taka svo djúpt í árinni, að ekki komi til greina að fara þá leið, ef það sýnir sig, að aðrar leiðir séu útilokaðar. En þess vegna álít ég einmitt, ef svo er litið á, að ríkisútgerð sé neyðarúrræði, að þá sé ekki ástæða til þess að samþ. að svo stöddu 4. gr. frv., því að mér finnst það gefið mál, að fólk muni lítið leggja sig fram um það að leggja fram fé til togarakaupanna, ef því er fyrir fram lýst yfir, að takist ekki að safna fé til togarakaupanna, þá muni togararnir koma samt sem áður og þá gerðir út af ríkinu. Enn fremur er í frv. þessu gert ráð fyrir því, að lagt verði fram sérstakt frv. um ríkisútgerðina, hvernig henni skuli háttað o. s. frv. Sé ég því ekki ástæðu til þess, ef nýjar upplýsingar koma ekki fram í málinu að svo stöddu, að samþ. 4. gr. frv. og teldi eðlilegast, að afstaða yrði tekin til þess máls í sambandi við væntanlegt frv., sem lagt verður fram um ríkisútgerð, enda hefði þá áður verið athugað, að hve miklu leyti aðrir möguleikar eru fyrir hendi til að gera togarana út.