04.12.1956
Efri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. fyrir að vissu leyti góðar undirtektir undir þær skriflegu brtt., sem ég hef flutt hér með hv. þm. Vestm. (JJós). Hins vegar held ég, að það sé ekki rétt hjá hv. frsm., að það skipti ekki meginmáli, hvort þessar brtt. verði samþykktar eða ekki. Ég leiddi rök að því í þeirri stuttu ræðu, sem ég flutti fyrir brtt., að endurnýjun togaraflotans og aukið atvinnuöryggi fengist greiðlegar með því, að nú yrði samið um smíði 20 togara heldur en 15. Það er auðsætt, að þessi skip verða ekki öll afhent á einu eða tveimur árum. Afhending þeirra dreifist yfir nokkurt árabil, og þá er heppilegra að semja strax nú í upphafi um 20 togara heldur en 15. Segjum, að við getum fengið þessi skip, hvort heldur þau verða 15 eða 20, á 3–4 árum, við skulum segja þremur árum. Þá munar íslenzkt atvinnulíf ekki svo lítið um það að fá fimm skipum fleiri ,en færri.

Ég held þess vegna, að það hafi mjög raunhæfa þýðingu, að einmitt nú verði samið um þessa tölu nýrra togara, sem nefnd er í brtt. okkar hv. þm. Vestm.

Um málsmeðferðina get ég alveg fallizt á það, sem hv. frsm. sagði. Það eru tvær leiðir til í þessu, til þess að hv. n. geti athugað þessar brtt., einnig þá brtt., sem hv. þm. Vestm. flytur einn: í fyrsta lagi að fresta umr. nú og hv. n. athugi till., þar til málið næst verði tekið fyrir, sem væntanlega gæti orðið n. k. fimmtudag, eða þá að við tækjum brtt. aftur, einnig sú leið er mjög hugsanleg. En ég vil benda hv. frsm. á það, að ef hv. n. getur svo ekki fallizt á brtt. við 3. umr., þá eigum við flm. þessara till. engan kost á að flytja nýjar brtt. Við sjáum það ekki fyrr en í lok 3. umr., hver örlög okkar till. verða, og þá eigum við þess engan kost að flytja nýjar brtt., sem við kynnum að vilja flytja eða aðrir hv. þm. kynnu að vilja flytja.

Ef hæstv. forseti teldi það þess vegna ekki stefna málinu í hættu, sem ég fæ ekki séð, þá væri mér ljúfari og geðþekkari sú aðferð, ef hæstv. forseti vildi nú fresta umr., og ég skal lofa því, að ég mun ekki verða til þess að tefja þetta mál með löngum ræðum. Enn erum við staddir það snemma í desembermánuði, að engin hætta er á því, að þetta mál, sem raunverulega allir eru sammála um í höfuðatriðum, dagi uppi hér í hv. þd. eða í hv. Nd., ef einhver smábreyting yrði á því gerð og það þyrfti að fara aftur til hv. Nd.