23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hér er á dagskrá svo mikilvægt mál, sem verið hefur og er eitt af vandasömustu og viðkvæmustu félagsmálum okkar, að mér þykir hlýða, þegar það nú kemur á dagskrá þingsins, að fara um það nokkrum orðum, þ.e.a.s. húsnæðismálin og þau löggjafaratriði, sem hér um ræðir í sambandi við þau.

Það hefði að vísu mátt ætla, að hin nýja vinstri sinnaða umbótastjórn kæmi fram fyrir Alþ. af meiri alvöru í húsnæðismálunum en þetta frv. ber vitni um, og séu það nokkur mál, sem þörf krefur að séu tekin á hverjum tíma verulega sterkum og alvarlegum tökum, þá eru það þessi mál. En það sýnist nú, að a.m.k. sé ekki hæstv. ríkisstj. enn í dag viðbúin að leggja neitt nýtt til í þessum málum, sem efnislega skiptir neinu máli, og fyrsta ræða hæstv. félmrh. í húsnæðismálunum hér á hv. Alþ., eftir að hann tekur við þessu virðulega embætti, má kallast sannkallaður kattarþvottur, því að í raun og veru kom mál hans húsnæðismálunum í sjálfu sér lítið eða ekkert við. Hæstv. ráðh. er að reyna að verja þá ráðstöfun sína og ríkisstjórnarinnar að gefa út brbl. þvert ofan í ákvæði stjórnarskrárinnar nokkrum dögum áður en þing kemur saman og reyna að finna því stað, að einhver nauðsyn hafi rekið til að gefa út þessi brbl. og í þeim felist nokkuð annað en það eitt, sem allir vita, að hér er verið að reyna að styrkja pólitíska aðstöðu samflokksmanna þessa hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstjórnar. Í sjálfu sér væri miklu mannlegra að vera ekki að reyna að fela þennan ásetning á bak við einhver tyllirök og tylliástæður.

Ef við fyrst lítum á formshlið þessa máls, sjálf brbl. og lögin, sem fyrir voru um húsnæðismálastjórn, þá er það þannig, að eldri lögin segja, að í húsnæðismálastjórn skuli vera fimm menn. Það er ekki eitt einasta ákvæði í lögunum um húsnæðismálastjórn um, að tveir menn hafi framkvæmdastjórn þessara mála á hendi. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefni húsnæðismálastjórnar er að beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum og að hafa yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga í landinu.“

Þetta eru lagaákvæðin um húsnæðismálastjórn. Það er hún, fimm menn, sem á eftir lögunum að sinna þessu verkefni. Hafi einhver önnur skipan verið á þessum málum, þá er það ekki gert með lagabreytingu. Þá hefur hæstv. fyrrverandi félmrh. væntanlega gert það með reglugerðarákvæðum, sem þurfti ekki brbl. til þess að breyta, ef hæstv. ráðh. þótti ástæða til. Það er sem sagt alveg nýmæli í þessum brbl„ sem er kannske nokkuð einstakt í sinni röð, að það er sett í lögin, að af sjö manna húsnæðismálastjórn skuli þrír menn hafa á hendi stjórn allra framkvæmda á vegum hennar og eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.

Ég vil minna á það, að þegar húsnæðislagafrv. á sínum tíma var lagt hér fyrir á Alþ., var gert ráð fyrir þriggja manna húsnæðismálastjórn. Síðar var í meðferð þingsins aukin tala stjórnarmeðlima upp í fimm, og í sjálfum lögunum er, eins og ég sagði áðan, ekkert, sem ráðgerir þessa verkaskiptingu, sem hæstv. ráðh. er að tala um. Hitt er svo alkunnugt, að fyrrverandi ríkisstj. og þá væntanlega félmrh. mun hafa falið — ég geri ráð fyrir skv. reglugerð — tveimur mönnum að annast sérstaklega einn þátt þeirra mála, sem húsnæðismálastjórn var falið að fjalla um, þ.e.a.s. að taka á móti lánbeiðnum og hafa viðtöl við þá, sem óskuðu eftir lánum, og hafa með höndum úthlutun lánanna. En fyrir mér og mörgum öðrum er það sannarlega ekki veigaminni þáttur, sem húsnæðismálastjórninni var falinn í hinum eldri lögum, að beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum og hafa yfirumsjón lánsfjáröflunar, en ekki aðeins það, hvernig hægt væri að úthluta lánsfé, sem þá væntanlega einhverjir aðrir menn reyndu að afla til þessara þarfa, en

átti þó að vera verkefni húsnæðismálastjórnar samkv. lögunum að hafa yfirumsjón með.

Það er mönnum kunnugt, að sá háttur hefur verið á hafður, að tveimur mönnum í húsnæðismálastjórninni, sem var skipuð fimm mönnum, hefur verið falinn þessi eini þáttur málanna, úthlutun lánanna. Og mig furðar ekkert á því og er ekki neitt undrandi, þó að hæstv. ríkisstj. vildi að einhverju leyti breyta þessu. Sjálfur hef ég aldrei verið hrifinn af þessari meðferð málanna, og það hefur ætíð verið mín skoðun, að húsnæðismálastjórnin í heild hefði átt að leggja síðustu hönd á verkið við lánveitingarnar, þó að eðlilegt væri, að einstakir menn úr húsnæðismálastjórninni, hvort sem það voru tveir eða fleiri, ynnu að því að hafa viðtöl við menn, beita sér fyrir tillögugerð til húsnæðismálastjórnarinnar um það, hverjir skyldu hverju sinni verða lánanna aðnjótandi. Þar sem ekki hefur tekizt að afla nægjanlegs lánsfjár til þessara mála, er þetta i sjálfu sér miklu veigameira en ella hefði verið, þar sem á hverjum tíma hefur verið mikill þorri manna, sem hefur bæði haft þörf og ástæðu fyrir þessi lán, án þess að hægt hafi verið að veita það nema a.m.k. eftir langa og kostnaðarsama bið hjá viðkomandi aðilum. En enda þótt sá háttur hafi verið hafður á þessu, þá er það líka einnig sannast, að innan fyrrverandi ríkisstj. var engan veginn samkomulag um það, hvernig framkvæmd þessara mála var, vegna þess að sjálfstæðismenn — eða ráðherrarnir — höfðu innan þessarar ríkisstj. aldrei gert annað samkomulag við Framsfl. en það að fela tveimur mönnum framkvæmd þessara mála, eins og vænta mátti, eins og hverjum öðrum valinkunnum sæmdarmönnum eða embættismönnum, sem áttu að vinna sitt verk i slíku sem umboðsmenn báðir, einn fyrir báða og báðir fyrir annan fyrir hönd ríkisstj. Mér er kunnugt um það, að hæstv. fyrrverandi félmrh. leit líka hiklaust þannig á þetta mál. Hafi framkvæmdin verið með öðrum hætti, þá mun það vera runnið undan rótum annarra en fyrrverandi hæstv. félmrh. hetta segi ég að gefnu tilefni vegna umræðna, sem um þetta mál urðu ekki alls fyrir löngu — eða um s.l. áramót — innan þáverandi hæstv. ríkisstj. og mér var kunnugt um.

Ég skal nú í sjálfu sér láta þessi orð nægja um formshlið málsins. Ég bendi á, að það er gersamlega að tilefnislausu, sem slík brbl. eru sett, nokkru áður en þing kemur saman, og rökstuðningurinn fyrir brbl. er sá, að verkefni stjórnarinnar séu svo mikil, að það þurfi að fjölga í húsnæðismálastjórn úr fimm og upp í sjö, og um leið er ákveðið, að þrír af þessum sjö skuli vinna öll verkin.

Ég held þess vegna, að hæstv. félmrh. hefði getað haft viðkunnanlegri hátt á þeirri breytingu einni á framkvæmd þessara mála og löggjöf en hér hefur verið hafður, að bera fram þessi brbl., og í sjálfu sér hefði hann getað með reglugerðarákvæðum vafalaust komið þessum málum að einhverju leyti öðruvísi fyrir. Hins vegar brestur enn þá rökstuðning fyrir því, að það hafi þurft með lögum að gera þessa breytingu, og allra sízt, að það hafi borið svo bráðan að, að sá háttur sé hafður, eins og ég sagði, að bera þau fram nokkru áður en þing kemur saman. En eins og mönnum er kunnugt, þá hefur ekkí ríkisstjórn á hverjum tíma vald til þess að gefa út brbl., nema brýna nauðsyn beri til og almenningsheill krefji á milli þinga.

En það er svo önnur hlið á þessum málum, sem er miklu veigameiri, og það er efnishlið málsins i heild, sem ég vil fara um nokkrum orðum. Mig undrar á því, nú þegar Alþ. kemur saman, að hæstv. félmrh. skuli engan boðskap hafa að flytja þinginu og alþjóð í því sambandi.

Fyrrverandi hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir nýrri löggjöf á sviði þessara mála, og var um það samið, þegar ríkisstj. undir forsæti Sjálfstfl. tók við eftir alþingiskosningarnar 1953, að gera ráðstafanir til varanlegra úrbóta í lánsfjármálunum varðandi íbúðabyggingar. Þau veigamestu atriði, sem fyrrverandi ríkisstj. beitti sér fyrir, voru að auka íbúðafrelsið, afnema fjárfestingarhömlurnar, sem á því voru, að menn gætu byggt sér eigin hagkvæmar íbúðir, og jafnframt að útvega lánsfé, áður en lögð var fyrir þingið heildarlöggjöfin um veðlánastarfsemina. Var það fyrsta verk stjórnarinnar sem sagt að auka athafnafrelsið og síðan að útvega 20 millj. kr. á fyrsta þinginu, eftir að stjórnin tók við, til smáíbúðalána til viðbótar þeirri lánveitingu til smáíbúða, sem þá hafði farið fram. Síðan var það, að ríkisstj. skipaði n. til þess að undirbúa þetta mál, og hún vann alilangan tíma að undirbúningi málsins, og sett voru svo, eins og kunnugt er, lögin um húsnæðismálastjórn og veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða 1955.

Með þessum lögum var lagður grundvöllurinn að nýrri útlánastarfsemi í þessu þjóðfélagi til íbúðabygginga, að létta mönnum að koma upp íbúðum yfir sjálfa sig og sína, en fram til þess tíma höfðu þessi lánsfjármál verið í fullkominni óreiðu, að því er segja má.

Það mátti öllum vera ljóst, að hér var fyrsta skrefið aðeins stigið og vísir lagður að nýrri löggjöf og nýjum leiðum í þessu vandasama máli, sem miklu skipti að haldið yrði áfram með einurð og festu, og ef unnið væri að þeim málum skaplega, þá er enginn vafi á því, að í framtíðinni hefur hið nýja veðlánakerfi möguleika til þess að bæta úr margvíslegum erfiðleikum og þörf manna fyrir lánsfé, að mínum dómi ekki aðeins til íbúðabygginga, þegar fram í sækir, heldur margvíslegra annarra þarfa í þjóðfélaginu.

Ég held, að þessi skilningur hafi verið nokkuð almennur, þegar frv. var lagt fram hér á Alþingi. Hins vegar var það mjög áberandi, að þáverandi hæstv. stjórnarandstæðingar töldu, að málið væri lítils virði, vegna þess að það væri allt of skammt gengið í lánsfjáröflun, bæði væru allt of veigalitlar ráðstafanir gerðar til þess að afla nýs fjár til íbúðalánabygginga og auk þess væru lánin til of skamms tíma og vaxtakjör allt of óhagstæð fyrir almenning í þessu landi.

Það var m.ö.o. flest, og skal ég víkja nánar að því síðar, fundið þessu frv. til foráttu, og skyldi því mega vænta, þegar þessir aðilar nú eru komnir í stjórnaraðstöðu og leggja till. í húsnæðismálunum fyrir Alþingi, að úr einhverju af því, sem þeir fundu mest að þá, mundi nú vera bætt og áréttað, og þá fyrst og fremst,

að gerðar væru ráðstafanir til að afla meira lánsfjár og með hagstæðum kjörum, sem voru höfuðásakanirnar í þessu efni.

Mig langar til þess að bregða upp dálítilli mynd af húsnæðismálunum og þeirri brýnu þörf fyrir gagngerðar aðgerðir á þessu sviði og þá einkum að reyna að binda hugann við það, sem ég tel mest aðkallandi og hverri ríkisstj. hefði borið skylda til að leggja megináherzlu á til frekari aðgerða í þessum málum nú. Það er að mínum dómi enginn vafi á því, að ef hægt væri að tryggja framhald íbúðabygginga með svipuðum hætti og fyrrv. hæstv. ríkisstj. lagði grundvöll að, þá mundi vera hægt að leysa úr húsnæðisvandræðunum á næstu tveimur til þremur árum. Sumt af því, sem ég kann að segja hér til rökstuðnings í þessu máli, á öðru fremur við um höfuðstaðinn, en þó er það svo, að margt, sem um byggingarmálin hér er sagt, er sama eðlis annars staðar á landinn.

Ég vil vekja athygli á því, að það er mjög athyglisvert, að á tímabilinu frá 1945 og til 1954 eru byggðar samtals 4357 íbúðir í Rvík, en fólksfjölgunin á sama tíma er um 17300 manns. Það koma þannig um fjórir manns á hverja nýja íbúð af fólksfjölguninni, og má því segja, að miðað víð fólksfjölgunina sjálfa hafi húsnæðisþörfinni verið fullnægt á þessu tímabili, árunum 1945–1954. En hér koma að sjálfsögðu mörg fleiri vandamál til úrlausnar og þ. á m. samansafnað lélegt húsnæði og ónothæft um lengri ára bil, sem vissulega þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr. Einnig vil ég vekja athygli á því, að rannsókn, sem hagfræðingur Reykjavíkurbæjar hafði gert árið 1954, leiddi í ljós, að í sumum eldri götum hér í Rvík hafði fólki fækkað allt upp í 25%. Hér er fyrst og fremst orsakanna að leita til hins bætta efnahags fólksins á þessum árum eftir stríðið, sem leiddi til þess, að menn búa í stærra húsnæði en áður eða auka við sig afnotin af eldra húsnæðinu. Ég held, að því fari mjög fjarri, að menn hafi almennt gert sér grein fyrir því, hversu áhrifamikill þessi þáttur og þessar staðreyndir hafa verið í húsnæðiseklunni á undanförnum árum. En áður en gerðar voru þær ráðstafanir, sem fyrrverandi stjórn beitti sér fyrir með setningu laganna um húsnæðismálastjórn, má í raun og veru segja, að fjárhagslega hafi byggingarframkvæmdir, bæði hér í Rvík og annars staðar á landinu, grundvallazt fyrst og fremst á peningaflóði stríðsáranna, meðan það entist, en í öðru lagi á þeirri heillavænlegu sparifjáraukningu, sem var ávöxtur þeirrar stefnubreytingar í efnahagsmálunum, sem sjálfstæðismenn mörkuðu við stjórnarmyndunina eftir alþingiskosningarnar 1949 og mótuð var í gengisbreytingarlögunum frá 1950.

Þetta tvennt vil ég nokkuð frekar árétta. Á árunum eftir stríðið voru geysilega miklar íbúðabyggingar hér í Rvík og þó þannig, að það var engin sérstök veðlánastarfsemi í sambandi við þessar byggingar. Veðdeild Landsbankans, hin gamla fasteignalánastofnun, var meira og minna óvirk á þessum tíma. Samt sem áður bar yfirleitt ekki á fjárskorti til byggingarframkvæmda. Menn áttu sjálfir eftir stríðsárin nægilegt sparifé, og nægilegt fé var í bönkum og öðrum peningastofnunum, til þess að menn gætu þá fengið fasteignalán, þó að það væri hjá peningastofnunum, sem annars hefðu það höfuðmarkmið að lána fé til rekstrar atvinnuveganna, en ekki fasteignalán.

Þegar þetta þraut, þá vitum við það, að við mikla erfiðleika var að etja i þessum efnum, og þá var það, eins og ég sagði, að það eina, sem úr gat bætt á þessu sviði, og það eina, sem bætti úr, var hin athyglisverða og mikla aukning sparifjárins á árunum eftir gengisbreytinguna. Ég vek athygli á því, að árið 1950 var sparifjármyndunin í landinu 16.9 millj. kr. og 1951 15.8 millj. kr., og ef farið er lengra aftur í tímann, þá sést, að hér er um svipaða þróun að ræða. En árið 1952 fer sparifjármyndunin upp i 94.5 millj. kr., 1953 177.1 millj. kr., 1954 170.9 millj. kr. og á s.l. ári 106 millj. kr., og ég get bætt því við, að á fyrra hluta þessa árs eða fram til júlíloka hefur átt sér stað mjög veruleg sparifjáraukning í þessu landi, eða um 136.2 millj. kr., enda þótt þá hafi orðið í því þáttaskil og töluvert verulega hafi minnkað sparifjármyndunin frá þeim tíma.

Það er ekki aðeins, að þessi mikla sparifjármyndun, sem nemur á örfáum árum 500–600 millj. kr., hafi verið grundvöllurinn undir byggingarframkvæmdum á þessu árabili, heldur einnig m.a. öðrum framkvæmdum, eins og t.d. raforkuframkvæmdunum, en lánveitingar innlendra banka til þeirra mála voru fyrst og fremst grundvallaðar á sparifjáraukningunni, og forsenda fyrir áframhaldandi lánveitingum af þeirra hálfu hlaut að vera áframhaldandi sparifjáraukning í landinu, enda kom það skýrt fram í viðræðum þáverandi hæstv. ríkisstj. við bankana. Að sjálfsögðu skildi ríkisstj. það fullvel, að forsendan fyrir því, að áframhald gæti orðið á þeim lánveitingum, sem þar væri um að ræða, og í vaxandi mæli, miðað við vaxandi þörf, væri vissulega áframhaldandi sparifjármyndun í landinu. Þetta eru einfaldar efnahagslegar staðreyndir, sem í sjálfu sér öllum mega vera ljósar.

Ég vil í sambandi við þetta vekja athygli á því, að áríð 1952, sennilega, eða 1951, held ég hafi verið lágmark íbúðaframkvæmda hér í höfuðstað landsins og hafi verið svipuð þróun annars staðar í þjóðfélaginu, en þá var ekki lokið við nema 282 íbúðir í Reykjavík á einu ári. Síðan hefur þróunin orðið sú, að á árinu 1952 var hér lokið við 329 íbúðir, 349 árið 1953, 487 1954, 564 íbúðir árið 1955, eða m.ö.o.: þróunin í húsbyggingarmálunum á undanförnum árum — og vil ég leyfa mér að leggja áherzlu á það — hefur verið sú, að aukningin, miðað við árin á undan, er þessi: Á s.l. ári, miðað við 1954, er aukningin 16%, 61% miðað við 1953, 70% miðað við 1952 og 100% miðað við 1951.

Af þessu mega menn sjá, um hversu athyglisverða þróun hér er að ræða, og ég vek athygli á þessu til þess að undirbyggja þá staðhæfingu mína, sem ég sagði áðan, að ef takast mætti að halda þessum málum í svipuðu horfi og hæstv. fyrrv. ríkisstj. tókst, þótt ekki væri nema um 2–3 ára skeið enn þá, þá hygg ég, að mestu vandræði, sem af húsnæðiseklunni stafa, væru leyst.

Það er m.a. í Reykjavík vegna þess, að á árunum eftir 1950 er fólksfjölgunin verulega miklu minni en áður eða að meðaltali á árunum 1950–54 ekki nema 1300 manns á ári, en var 2800 manns á árunum frá 1945 og fram til 1950. Þetta hefur auðvitað verulega mikið að segja, sérstaklega í sambandi við lausn húsnæðismála hér í Rvík, en skapar svo að vísu hlutfallslega meiri erfiðleika annars staðar og þá í nágrenni Rvíkur, eins og okkur er kunnugt um, bæði í Kópavogi og suður með sjó, kringum Keflavík og annars staðar. En ef lítið er á ástand málanna um s.l. áramót hér í höfuðstaðnum, þá er það samkv. skýrslum byggingarfulltrúa þannig, að þá voru 1808 íbúðir í smíðum í Rvík og þar af voru 835 íbúðir taldar fokheldar eða meira. Nú hafði aldrei komizt eins hátt tala þeirra íbúða, sem lokið var við að byggja í höfuðstaðnum, eins og 1955, eða upp í tæpar 600. En um s.l. áramót er ástandið þannig, að það eru rúmlega 800 fokheldar íbúðir, og vissulega er ekki of mikið að gera ráð fyrir, að þessum íbúðum verði a.m.k. öllum lokið á árinu, 835 íbúðum, og ég vildi mega ætla, að ýmsum íbúðum, sem ekki voru fokheldar um s.l. áramót, verði lokið fyrir n.k. áramót og verði þess vegna tala þeirra íbúða, sem lokið verður að byggja hér í Rvík, mörgum sinnum hærri en nokkru sinni undanfarandi. Með hliðsjón af þessu, sem ég nú hef sagt, hef ég reynt að gera mér grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, að á næstu tveimur til þremur árum mundu hér mestu vandræði verða leyst, ef svo héldi áfram sem verið hefur. Það má reikna þetta dæmi þannig, að þó að ekki bættust við nema 300 íbúðir á næstu þremur árum til nýbygginga, sem byrjað væri á frá s.l. áramótum, þá mundi þetta samtals nema 2100 íbúðum á árunum 1955–57. Ef reiknað er með 4–5 manna íbúðum, þá skapast hér nýtt íbúðarhúsnæði fyrir 9450 manns, og ef fólksfjölgunin á sama tíma yrði söm og síðustu ár, þá mundi hún nema á þessum árum 3900 manns. Ætti þá að vera til ráðstöfunar nýtt húsnæði fyrir 5550 manns fyrir utan fólksfjölgunina af því fólki, sem nú er búsett hér og býr í ófullnægjandi íbúðum. Þetta samsvarar sem sagt um 1200 íbúðum, miðað við 4–5 manns í hverri, til útrýmingar á herskálum og endurnýjunar á öðru lélegu húsnæði í bænum á næstu 2–3 árum. Hef ég þá aðeins gert ráð fyrir, að við bættust til nýbyggingar 300 íbúðir á 2–3 árum frá síðustu áramótum, sem sjálfsagt er þegar byrjað á og verða auðvitað miklu fleiri á næstu tveimur árum. En menn sjá, að ef framhaldið yrði eins og hér, að það fengjust bara til ráðstöfunar fram yfir þörf fólksfjölgunarinnar 1200 íbúðir á næstu 2–3 árum, og þegar haft er í huga, að herskálaíbúðir í Rvík eru um 500, þá er ekki óvarlegt það, sem ég er að gera ráð fyrir, að menn gætu horft fram á, að hér mætti gera verulegt átak til þess að leysa húsnæðisvandræðin, ef okkur rekur ekki í strand í þeirri þróun, sem átt hefur sér stað að undanförnu.

Mér sýnist þess vegna, að það sé alveg augljóst, að það, sem mesta þýðingu hafi nú í þessum málum, sé ekki, hvort það séu fimm eða sjö menn í húsnæðismálastjórn og hvort það þurfi að setja inn í lög, að þrír af þessum sjö skuli hafa alla framkvæmdarstjórnina á hendi, eða hvort það hefði verið gert með reglugerðarákvæði eins og áður, — það sé ekki aðalatriðið, heldur hitt, að ljúka sem fyrst því húsnæði og skapa mönnum aðstöðu til þess að ljúka því húsnæði, sem nú er í smíðum, og við það ætti öðru fremur að miða aðgerðir og ráðstafanir opinberra aðila, bæjar og ríkis og lánastofnana, á næstunni. Það er sorglegt til þess að vita, að þessi hæstv. ríkisstj. skuli svo koma fram hér á Alþ. með ekki veigameira innlegg í lausn húsnæðismálanna en þetta vesala brbl.-frumvarp er.

Reykjavíkurbær hefur fyrir sitt leyti viljað freista þess að stuðla svo sem verða má að lausn húsnæðismálanna. Forráðamönnum Reykjavíkur, sjálfstæðismönnum, sem eru þar í meiri hluta, er að vísu oft borið á brýn, að þeir séu of aðgerðalitlir í húsnæðismálunum, því að við heyrum það alltaf fyrir hverjar bæjarstjórnarkosningar. En á milli kosninga, eins og t.d. fyrir alþingiskosningarnar í sumar, heyrði maður það helzt til oft í Tímanum, að það væri allt að fara hér um koll í efnahagsmálunum, vegna þess að það væri svo mikið byggt, fjárfestingin væri svo mikil. Þetta mátti maður lesa í sama blaði og þá fyrir rúmu ári eða i ársbyrjun 1954 hafði haldið því fram, að það yrði að leggja alla áherzlu á að auka íbúðabyggingar, ekki aðeins í Reykjavík, heldur annars staðar á landinu. En enda þótt við þurfum þannig að hlusta á nokkurn tvískinnung í þessu máli, stundum sé of mikið byggt og stundum of lítið, þá er það sannast og það má öllum vera ljóst, að aðgerðir bæjaryfirvaldanna í höfuðstaðnum hlutu að takmarkast að verulegu leyti við aðgerðir hv. Alþ. í þessum málum.

Ýmsir af forráðamönnum sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni beittu sér fyrir því á þingi og innan ríkisstj., hjá samflokksmönnum sínum í stjórninni, að gerðar yrðu ráðstafanir til að auðvelda íbúðabyggingar í Reykjavik, bæði með því að veita fleiri fjárfestingarleyfi þangað en raun varð nú á, og mætti það oft andstöðu annarra manna í þessum efnum, og eins með því að gefa frjálsari fjárfestinguna en áður hafði verið og þá fyrst og fremst til bygginga smáíbúða, eins og gert var á sínum tíma. Jafnhliða þessu gerðu forráðamenn Reykjavíkurbæjar sér grein fyrir því, að ef takast mætti að leggja drög að varanlegri lausn lánsfjármálanna, þá væri skapaður sá grundvöllur, sem þurfti að vera fyrir hendi til stóraðgerða af hálfu bæjaryfirvaldanna í þessu máli. Þess vegna voru strax hafnar undirbúningsaðgerðir af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur til stóraukinna íbúðabygginga fyrir almenning í þessu bæjarfélagi, áður en lögin um húsnæðismálastjórn voru lögfest á Alþ., en eftir að þau komu til framkvæmda, hefur verið samþykkt fyrir frumkvæði bæjarstjórnarmeirihluta sjálfstæðismanna í höfuðstaðnum að byggja á næstu árum 600 íbúðir til þess að útrýma herskálum og öðru heilsuspillandi húsnæði í þessum bæ. Og það er sannast, að þessar aðgerðir eru í fyrsta lagi undirbúnar í trausti þess, að það megi lánast að koma á nýju veðlánakerfi til íbúðabygginga, og í trausti þess, þegar það var komið á og til framkvæmda, að þá mundu a.m.k. þeir, sem Reykjavikurbær beitti sér fyrir að byggja þannig yfir, ekki njóta verri aðstöðu til lána en aðrir. Ég vil leyfa mér að vænta, að framkvæmd málanna verði líka sú, að slíkt komi ekki til greina. Mér er að vísu kunnugt um, að það hefur gengið erfiðlega fyrir Reykjavíkurbæ eða þá aðila, sem hann hefur afhent húsnæði, sem byggt er til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum, að fá lán frá húsnæðismálastjórn, en ég vil ætla, a.m.k. að óreyndu, að það stafi í fyrsta lagi af einhverjum bráðabirgðaörðugleikum, og öll áætlun og fjárhagsgrundvöllur þessara mikilvægu byggingarframkvæmda Reykjavíkurbæjar er á því byggð, að þessir aðilar eigi fullan aðgang að hámarki þeirra lána, sem veitt eru á hverjum tíma, þeirra A-lána, og auk þess eigi þeir kost á að fá lán eftir II. kafla laganna til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, eins og þeim hefur verið gefinn kostur á.

Þessar framkvæmdir Reykjavíkurbæjar, og vafalaust annarra bæjarfélaga, sem ég geri ráð fyrir að svipað sé ástatt um, þó að ég tali mest um það, sem mér er kunnugast, geta að sjálfsögðu ekki haldið áfram og hljóta að stranda, ef ekki er hægt að tryggja áfram nægjanlegt fjármagn til hins almenna veðlánakerfis.

Ég held, að það hafi verið haldið á þessum málum af hálfu Reykjavíkur og af forráðamönnum þess bæjarfélags þannig, að það hafi verið hafður eins mikill hraði á þessum byggingarframkvæmdum og aðstæður leyfa, bæði varðandi vinnuafl og fjáraflanir fram að þessu. Reykjavíkurbær á þannig nú í byggingu af þessari 600 íbúða áætlun, sem sett var í nóvembermánuði s.l., 240 íbúðir, þar af 144 í raðhúsum og 96 íbúðir í fjölbýlishúsum, og það hefur verið ráðstafað alls 115 íbúðum í raðhúsahverfi við Réttarholtsveg, og verið er að afhenda nú 45, en 70 verða afhentar kaupendum íbúðanna skömmu eftir áramót. Þá hafa verið boðnar út til hugmyndasamkeppni teikningar að 220 íbúðum, þar af 120 i raðhúsum, smáum íbúðum, tveggja herbergja, með 55 m2 gólffleti, og ca. 100 í fjölbýlishúsum, tveggja og þriggja herbergja. Þessari samkeppni á að vera lokið fyrir áramót, og gert er ráð fyrir að hefja byggingu á þessum minnstu íbúðum á næsta ári. Það er skoðun þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað af hálfu bæjarfélagsins, að hér sé um einn nauðsynlegasta lið þessara mála að ræða til þess að geta leyst þau vandkvæði að útrýma bröggum eða herskálum og öðrum heilsuspillandi íbúðum í bænum, því að við getum ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd, að margir, sem hér eiga hlut að máli, eru því miður litlum efnum búnir, og verður því að freista þess að koma upp sem allra hagkvæmustum og ódýrustum og þá líka sem minnstum íbúðum til þess að leysa þarfir og vanda þessa fólks, íbúðum, sem aðrir mundu kannske ekki telja fullnægjandi, aðallega sökum stærðar, en eiga að vera um allan frágang sambærilegar við hverjar aðrar íbúðir, sem borgarar þessa bæjarfélags búa í.

Ég minni á þessar byggingarframkvæmdir höfuðstaðarins til þess að leggja áherzlu á þá miklu nauðsyn, að allar ráðstafanir séu gerðar í þessum málum og þá sérstaklega varðandi lánsfjármálin til þess að tryggja framhald þeirrar þróunar, ég vil segja heillavænlegu þróunar, sem átt hefur sér stað undanfarin ár, þó að mér sé fullkunnugt um þá gífurlega miklu örðugleika, sem bæði menn hér og um gervallt land hafa átt við að etja í sambandi við þessi mál. Og ég vil láta það koma fram hér, að það má heita furðulegt, hversu fjölskyldumenn hafa haft mikla atorku til þess að brjótast í því að koma sér upp myndarlegu húsnæði, bæði hér og annars staðar, miðað þó við þá erfiðu aðstöðu, sem menn hafa átt víð að búa.

Þetta vil ég segja um þetta mál almennt, að það eru núna veigamestu aðgerðirnar, sem gera þarf í húsnæðismálunum, að skapa mönnum áframhaldandi og bætta aðstöðu til þess fyrst og fremst að ljúka þeim mörgu byggingum, sem eru í smíðum bæði hér í Reykjavík og annars staðar. Ég geri ráð fyrir því, að við sjálfstæðismenn hér á þingi munum undir meðferð þessa máls freista þess annaðhvort að ná samkomulagi við hæstv. stjórnarsinna innan nefndar, sem fer með þetta mál, eða að flytja brtt., sem miða að því, nú þegar þetta mál er inn í þingið flutt, að gera þær nauðsynlegustu umbætur á þessu sviði, sem gera þarf.

Þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. undirbjó lögin um húsnæðismálastjórn, leitaði hún m.a. samráðs við bankana hér og náði samkomulagi við þá um tilteknar lánsfjárveitingar til þessara mála, en eins og hv. þm. er kunnugt um, var það samkomulag miðað við tvö ár og rennur út um áramótin, sem nú fara í hönd. Mér hefði sannarlega ekki komið það á óvart, þó að hæstv. núverandi ríkisstj. hefði verið farin að hugsa fyrir framhaldi þeirra mála, og kann að vera svo, þó að það komi ekki fram í ræðu hæstv. félmrh., að það leyni sér þar einhver undirbúningur og ráðagerðir. En svo mikið er víst a.m.k., að mér er ekki kunnugt um, að nýjar umræður hafi verið hafnar við banka og peningastofnanir um framhald þessara mála.

Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar, að það mundi verða erfitt að leysa einmitt þessi húsnæðisvandræði á svo skömmum tíma sem til var stofnað, nema með því að takast mætti að hagnýta þá heimild, sem sett var inn í lögin um húsnæðismálastjórn, að taka erlent lán til þessara framkvæmda. Ég var ásamt fleiri sjálfstæðismönnum flm. að því hér á þingi fyrir nokkrum árum, að veðdeild Landsbankans væri heimilað að taka erlend lán til íbúðabygginga og fara þar í kjölfarið á fyrri aðgerðum, sem Jón heitinn Þorláksson beitti sér fyrir á sínum tíma, að taka erlend lán til veðdeildarinnar, sem vissulega urðu fjölda manna í þessu bæjarfélagi og annars staðar til stórkostlegra hagsbóta á sinum tíma, á árunum fyrir 1930, og íslenzkt þjóðfélag hefur ekki á neinn hátt verið í erfiðleikum með að standa skil á. Þegar um er að ræða að gera á mjög takmörkuðum tíma vegna húsnæðiseklunnar verulega stórar aðgerðir, þá er auðvitað þeim mun meiri þörf á gjaldeyrisláni til þess að greiða í bili erlenda kostnaðinn af byggingarefni og öðru, sem til íbúðanna þarf. En fasteignalán hér á landi hafa verið ein öruggustu lán, sem veitt hafa verið, og veit ég, að það muni vera sameiginlegt mál fasteignalánastofnana, sem til slíkra þarfa hafa lánað fé. Við megum ekki hafa þá vantrú á íslenzku þjóðfélagi, að við séum ekki þess umkomnir í þessu sambandi, ef við ættum þess kost, að taka nokkurra tuga milljóna króna erlend lán til þess að leysa yfirstandandi vandkvæði.

Ég vil svo aðeins að lokum árétta það, sem ég sagði í upphafi, að þegar þessi mál voru flutt á sínum tíma, voru það þáverandi hv. stjórnarandstæðingar, sem nú eru stuðningsmenn ríkisstj., sem töldu, að féð væri af allt of skornum skammti, eins og þeir komust að orði, til þess að þetta mál hefði nokkra þýðingu. Þá var sagt sem svo í grg. minni hl. fjhn., sem Haraldur Guðmundsson undirritaði í Ed. og þeir gáfu út í Nd. hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og Karl Guðjónsson, — minni hlutinn í Ed. komst þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess er það fjármagn, sem frv. gerir ráð fyrir, ónógt, lánstíminn of stuttur, vextir of háir og fyrirhuguð lánsupphæð til hverrar íbúðar ófullnægjandi fyrir aðra en þá, sem eru mjög vel efnum búnir.“

Í Nd. sagði minni hlutinn, að höfuðeinkenni frv. væru, að „í því er ekkert stórátak gert til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Þessu húsnæði verður ekki útrýmt nema með myndarlegu átaki af hálfu ríkis og bæjarfélags, og til þess þarf rausnarleg fjárframlög.“

Undir allt þetta vildi ég leyfa mér að taka og tók á sínum tíma og vildi mega treysta því fyrir hönd þeirra mörgu, sem hér eiga hlut að máli, að núverandi hæstv. ríkisstj. beri gæfu til þess að sjá þessu máli áfram farborða, og mun áreiðanlega ekki standa á stuðningi okkar sjálfstæðismanna, eftir því sem við getum til lagt í sambandi við áframhaldandi lausn málsins.

Ég geri svo ráð fyrir, að undir meðferð málsins muni ég flytja brtt. við þetta bráðabirgðalagafrv., sem ég skal ekki fara verulega út í. En það voru ýmsar athyglisverðar till., sem fluttar voru á sínum tíma um meðferð og skipulag málanna og ýmsir hv. þm., sem nú eiga sæti á þingi, beittu sér fyrir og töldu eðlilegra, fluttu tillögur um, að það væri eðlilegra, að lánveitingarnar væru í höndum peningastofnananna, ýmist þannig, að þeir bankar og peningastofnanir, sem legðu fé til framkvæmdanna, veldu fulltrúa í eina n. til þess að hafa lánveitingarnar með höndum, eða þá hitt, eins og stungið var upp á og ég fyrir mitt leyti í sjálfu sér gat alltaf fellt mig vel við, að veðdeild Landsbankans hefði með höndum lánveitingarnar, en lánsféð rennur í gegnum veðdeildina, eins og fyrirkomulag málanna er nú. Þó er það svo, að samkv. lögunum getur hver peningastofnun, sem fyrrverandi ríkisstj. gerði samkomulag við, eða bankar veitt þetta fé sjálf, án þess að það fari í gegnum veðdeildina eða húsnæðismálastjórn. En ég held, að það hafi verið samkomulag frá upphafi við alla bankana hér í Reykjavík, sem um þetta mál var rætt við og tóku þátt í þessari uppbyggingu, að þeir að öðru jöfnu felldu sig vel við það og gætu sætt sig við, að sami aðilinn hefði með höndum lánveitingarnar, en í því felst þá einnig að hafa bæði mat á húsnæðinu, sem verið er að byggja, og setja þær almennu og algildu reglur, sem um þetta eiga að fjalla. Þess vegna er t.d. svo um þann banka, sem ég á sæti í, að það, sem hann hefur lagt af mörkum fram að þessu, hefur hann eingöngu gert með því að kaupa bréf af húsnæðismálastjórninni eða veðdeildinni, og það mundi sjálfsagt haldast þannig áfram, ef þannig framkvæmd verður á þessum málum, sem við fram til þessa höfum ekki haft við að athuga. En ég vil þó taka það fram, að í viðskiptum okkar við húsnæðismálastjórn hefur auðvitað beinlínis verið áréttað þetta atriði, að bankinn geti sjálfur, ef honum sýnist, veitt þessi lán og síðan sent grg. um það til húsnæðismálastjórnar, eins og lögin gera ráð fyrir, að svo og svo mikið af fé bankans hafi farið til þessara framkvæmda. Þetta eru atriði, sem ekki skipta aðalmáli í þessu sambandi, og sérstaklega, eins og ég sagði áðan, standa nú vafalaust fyrir dyrum einhverjar ráðagerðir af hálfu núverandi hæstv. ríkisstj. til þess að afla nýs fjár, þegar kemur fram yfir áramót, til þessara mikilvægu framkvæmda.

Ég minntist á yfirstjórn þessara mála, sem væri fullkomlega athyglisvert að gera brtt. um, og ég vil minna á annað atriði, og það er í II. kaflanum, um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, að í 13. gr. laganna er svo ákveðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú leggur sveitarfélag fram fé til íbúðabygginga í því skyni að útrýma heilsuspillandi íbúðum, annaðhvort sem óafturkræft framlag eða lán, og skal ríkissjóður þá leggja fram jafnháa fjárhæð á móti, allt að 3 millj. kr. á ári næstu fimm árin.“

Hér tel ég, eins og margir aðrir töldu á sínum tíma í þinginu, of skammt farið, og ég lét bæði í ljós skoðun mína um það hér í þingi og annars staðar opinberlega, en vil einnig minna á það, að fyrrverandi hæstv. ríkisstj. gerði líka mikla bragarbót í sambandi við þetta mál, þegar ákveðið var, að 13 millj. kr. skyldu ganga til þessara mála af tekjuafgangi ársins 1954. Hér þarf þess vegna áreiðanlega að bæta stórlega við framlög ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, og munum við sjálfstæðismenn vissulega freista þess að fá því framgengt undir meðferð málsins, enda veit ég, að við munum eiga þar marga góða og ötula stuðningsmenn í öllum núverandi hv. stjórnarflokkum, a.m.k. miðað við fyrri orð og till. þeirra í þessu máli.

Ég skal svo að þessu sinni, við 1. umr. þessa máls, ekki hafa fleiri orð, en vildi þó láta það koma hér fram, að þegar svo veigamikið mál sem hér um ræðir er flutt inn á dagskrá þingsins, þá er það ekki að ófyrirsynju, að þingmenn hefðu mátt vænta einhvers veigameiri boðskapar í þessu máli en fluttur var af hæstv. félmrh. En úr því sem komið er, þá er það þó aðalatriðið, að þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, takist að gera verulega bragarbót á þessu máli, bæta úr í sambandi við þau atriði, sem ég hef áður vikið að í máli mínu, og á öðrum sviðum, sem gefast mun tækifæri til að athuga nánar undir meðferð málsins.