06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Rang. taldi, að ekkert hefði verið gert í þessum málum nema fjölgað í stjórn húsnæðismálastjórnarinnar, ekkert fé væri til úthlutana úr sjóðnum, hæstv. ríkisstj. hefði ekkert gert til að útvega fé o.s.frv. Heldur hv. 1. þm. Rang., að með setningu þessara laga út af fyrir sig hafi myndazt eitthvert sérstakt ástand til hins verra í þessum málum? Ég held, að það sé mesti misskilningur. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að verkefni húsnæðismálastjórnarinnar er ekki að útvega fé í sjóðinn. Lögin taka þar alveg skýra afstöðu. 3. og 4. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta, segja m.a.:

„Komið skal á fót almennu veðlánakerfi til húsbygginga undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands, og skulu lánveitingar innan þess vera í samræmi við hinar almennu útlánareglur húsnæðismálastjórnar (sbr. 6. gr.).

Í þessu skyni skal veðdeild Landsbanka Íslands vera heimilt að gefa út bankavaxtabréf, samtals allt að 200 millj. kr. Vaxtabréf þessi skulu vera þannig, að annar hlutinn, A-flokkar, verði með föstum vöxtum og afborgunum, en hinn hlutinn, B-flokkar, þó eigi yfir 40 millj. kr., verði með vísitölukjörum, þannig að binda má greiðslur afborgana og vaxta vísitölu framfærslukostnaðar.“

Svo segir hér í 4. gr.:

„Í varasjóð hins almenna lánakerfis rennur:

a) Afborganir og vextir lána, sem veitt hafa verið eða veitt verða af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum.

b) Eignir lánadeildar smáíbúða, þegar greiddar hafa verið skuldir hennar.

e) Lántökugjald af lánum veðdeildarinnar samkvæmt lögum þessum.

d) Höfuðstóll og vaxtafé, sem komið er í gjalddaga til útborgunar, sé þess eigi vitjað innan 20 ára frá gjalddaga, sbr. 18. gr. laga 55/1945.

Varasjóður þessi skal vera í vörzlu veðdeildar Landsbanka Íslands.“

Það er sem sagt ekki í lögunum ætlazt til þess, að sjálf sjóðsstjórnin útvegi féð. Ástandið í þessum málum, áður en þessi lög voru sett, var langt frá því að vera viðunandi. Ég skal fyllilega viðurkenna það, að með setningu þessara laga var nokkur bót ráðin á því ástandi, sem áður var, þótt hins vegar verði ekki hægt að segja, að þetta væri nein endanleg bót á því ófremdarástandi, sem áður hafði ríkt.

Hv. 1. þm. Rang. taldi, að hæstv. ríkisstj. hefði ekkert gert í því að útvega fé til þessarar lánastofnunar. Ég ætla ekki að gerast hér talsmaður fyrir hæstv. ríkisstj. Til þess eru ráðherrarnir sjálfsagt einfærir. En ég vil þó fullyrða, að á sinum tíma muni hæstv. ríkisstj. gera það, sem í hennar valdi stendur, til að útvega aukið fjármagn til þessarar útlánastarfsemi, en til þess þarf náttúrlega lengri tíma en hæstv. ríkisstj. hefur haft yfir að ráða fram að þessu. Ég vil segja það til hv. alþm. Sjálfstfl., að þeir hafa ekki a.m.k. fram á þennan dag lagt það mikið af mörkum til þess að styðja ríkisstj. í þessu máli eða öðru, heldur þveröfugt, þannig að henni hefur ekki gefizt a.m.k. fyrir þeirra atbeina sérstaklega mikill starfsfriður.

Hv. sjálfstæðismenn eru fyrst og fremst á móti þessari breytingu brbl. fyrir það eitt, að fjölgað var mönnum í stjórninni. Það hefur komið greinilega fram. Það mætti kannske segja, að það væri mannlegt út af fyrir sig af þessum hv. alþm. að verja þau réttindi, sem sjálfstæðismenn hafa hrifsað til sín undanfarin ár í skjóli hinnar illræmdu helmingastaðareglu, sem kom mjög skýrt fram í lögunum um húsnæðismálastjórn.

Hinu þurfa þessir hv. alþm. ekki að vera neitt sérstaklega hissa yfir, þó að þeir þingflokkar, sem nú standa að hæstv. ríkisstj., krefjist yfirráða bæði yfir þessum málum og öðrum til jafns við aðra.

Það væri mjög freistandi að ræða úthlutun lána úr húsnæðismálasjóði undir stjórn m.a. fulltrúa Sjálfstfl. Ég er ekki frá því, að þá mundi koma ýmislegt í dagsljósið, sem almenningur mundi hafa mjög gott af að kynnast.

Ég hef ekki átt kost á því að sjá öll gögn þessu máli viðkomandi, á máske ekki rétt á því. En ef sérstakt tækifæri gefst þar til, má vel vera, að það verði á öðrum stað en hér eitthvað um þessi mál birt, og færi þá betur, að hlutur sjálfstæðismanna í þessu máli væri eins glæsilegur og þeir vilja vera láta.

Ég veit ekki, hvort það hefur verið og sé algild regla hjá hv. sjálfstæðismönnum, þegar þeir hafa yfir fjárveitingum að ráða, að þar sé farið fyrst og fremst eftir því, hvort maðurinn er góður flokksmaður eða ekki eða góður stuðningsmaður þess flokks, sem útvegar lánið. Máske geta hv. alþm., m.a. hv. 1. þm. Rang., upplýst mig og aðra hv. þm. um það, hvort hafi verið fylgt þeirri reglu við úthlutun lána úr þessum sjóði það tímabil, sem þeir voru mestu ráðandi í stjórn. Ég held, að helmingaskiptareglunni hafi verið fylgt alveg út í yztu æsar, og mun geta fært orðum mínum betur stað síðar meir, ef þess verður óskað. Ég endurtek það, að það var þessi regla, sem farið var eftir við framkvæmd nefndra laga. Út fyrir helmingastaðaregluna var ekki farið. Það var fyrst og fremst látið ráða, í hvaða flokki var þessi eða hinn, sem lánið fékk. Eftir því var lánunum úthlutað.