31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. taldi, að það væri ástæðulaust að óska þess, að þessi brtt. yrði tekin aftur, því að það væri rangt hjá mér, að það væri óvenjulegt, að brbl., sem lögð væru fyrir þingið til staðfestingar, tækju þar breytingum.

Ég verð að endurtaka það, að þetta er rangt hjá hv. þm. Það er ákaflega sjaldgæft, að brbl. sé breytt efnislega í meðferð þingsins, ef það hefur nokkurn tíma komið fyrir. Gæti hann kannske nefnt mér dæmi þess, ef þau eru mörg? — En látum útrætt um það atriði. Það skiptir ekki miklu máli. Hann synjaði því sem sé að taka þessa brtt. aftur í sambandi við frv. um staðfestingu brbl., og er ekkert við því að segja. Það er hans afstaða.

Hér er þó um það að ræða, að hann tekur eitt efnisatriði úr löggjöfinni um húsnæðismálastjórn og vill fá því hnýtt hér saman við bráðabirgðalagafrumvarpið. Ég fullyrði, að það er ekki meiri þörf á að taka þetta efnisatriði út úr hinni almennu húsnæðismálalöggjöf og fá það tengt saman við þetta bráðabirgðalagafrumvarp heldur en mýmörg önnur meiri háttar efnisatriði úr löggjöfinni, þ. á m. alla fjáröflunina til annarra hluta en útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Það er einmitt sú almenna fjáröflun í gildandi löggjöf, sem hefur reynzt ófullnægjandi með öllu. En þetta er einasti liðurinn í löggjöfinni, þar sem hefur orðið afgangur af fé, fjárveitingin, sem fyrir hendi var, gert meira en að svara eftirspurninni. Hvorki Reykjavík né aðrir kaupstaðir hafa torgað. Þau voru ekki myndarlegri í framkvæmdunum við að útrýma heilsuspillandi húsnæði á liðnum tveimur árum heldur en það, að þau torguðu ekki þessu. En af 100 milljónunum, sem voru áætlaðar á pappírnum til húsbygginga almennt, skilaði sér ekki nema brothluti, og það er ástæða til þess að koma með brtt. um það, um fjáröflunina almennt til húsnæðismálanna, ef við ætlum að fara yfirleitt að hrófla við efni þeirra laga almennt. Þessi till. er því furðulega tilefnislítil, af því að hún tekur einmitt á því efnisatriði gildandi löggjafar, sem bezt var séð fyrir, og þetta er hv. þm. alveg áreiðanlega ljóst.

Hann kvartaði undan því, að ég hefði talað óvirðulega um þetta merkilega tillögufóstur hans. Ég mótmæli því alveg. Ég fór engum óvirðingarorðum um hana. En mér finnst till. vera í litlu efnislegu samhengi við þetta frv., sem hér liggur fyrir hv. deild, og benti á, að það mundi eiga fremur heima i væntanlegri húsnæðismálalöggjöf, sem lögð verður fyrir þetta þing.

Hann fullyrti nú, að ég hefði sagt, að sú löggjöf yrði samþykkt hér á Alþingi. Ég held, að það hafi verið hártogun hjá þessum virðulega þingmanni. En svo mikið er víst, að ég hygg, að allir séu sammála um það, að þar sem um tímabundna löggjöf er að ræða um húsnæðismálin nú, verði ekki hjá því komizt, að nýja löggjöf verður að setja um hana. Húsnæðismálaástandið, eins og fráfarandi stjórn skilaði því af sér, er slíkt, að það dugir ekki framlenging á þeirri löggjöf óbreyttri, og verður að bæta þar um, og verður áreiðanlega ekki hjá því komizt að setja nýja löggjöf um það. Frv., sem ég kynni að leggja fram um það, gæti vissulega tekið breytingum, en ég þykist hins vegar sannfærður um, að löggjöf um það efni verður samþykkt hér frá þinginu, — með breytingum hv. þingmanns og annarra þingmanna ef til vill og vafalaust. Það er því enginn einræðisbragur á því að fullyrða, að slík löggjöf muni verða afgreidd frá Alþingi. Það vita allir um þá nauðsyn, sem til þess liggur, og þeirri nauðsyn yrði að svara með nýrri löggjöf, ef öngþveiti það, sem hefur skapazt í þessum málum á liðnum tveimur árum, á ekki að halda áfram óbreytt eða versna.

Það má vel vera, að það standi nú fyrir dyrum hjá Reykjavíkurbæ að gera átak í að útrýma heilsuspillandi húsnæði. En það er þá alveg nýtt, það er þá einhver endurfæðing lífsins hjá bæjarstjórn Reykjavíkur, því að allar skýrslur sýna, að heilsuspillandi húsnæði hefur aukizt í Reykjavíkurborg á undanförnum árum og áratugum og aldrei verið fleiri börn í bröggum í Reykjavík en nú. Væri mjög ánægjulegt, ef þeir væru að endurfæðast í þessum efnum.

En það er svo sem ekki á eina bókina lært hjá Reykjavikurbæ. Hvernig hefur verið með framkvæmd Reykjavíkurbæjar á meira en 20 ára gamalli löggjöf um íbúðir í kjöllurum? Í þeirri löggjöf átti að banna íbúðarhúsnæði í kjöllurum, sem ekki svöruðu alveg sérstökum heilbrigðiskröfum. Þetta átti bæjarstjórnin að sjá um, hún mátti taka upp á skýrslu 1/20 af ólöglegum íbúðum í kjöllurum á ári hverju og veita bráðabirgðaheimild til þess að búa í þeim. En 1/20 hlutann átti síðan að taka á ári hverju á skrá. Þessa skrá átti að gera í janúarmánuði ár hvert og skila þeirri skrá í ársbyrjun, og síðan átti að útrýma þeim. Þessum íbúðum átti að útrýma á 20 árum. Nú vil ég spyrja: Hvað er Reykjavíkurborg komin langt nú með að útrýma ólöglegum íbúðum í kjöllurum? Hafa skrárnar verið gerðar frá ári til árs í janúarmánuði ár hvert? Er hægt að fá þær í félmrn.? Eða er þetta allt saman svikið? Hefur þessi löggjöf legið dauð og ómerk hjá garði undir þessari áhugasömu bæjarstjórn Reykjavíkur í húsnæðismálum? Ég vona, að hv. 6. þm. Reykv., sem er hér að þenja sig um ágæti Reykjavíkurbæjarstjórnarinnar i húsnæðismálum, svari þessu um framkvæmdina á liðnum 20 árum um útrýmingu íbúða í kjöllurum og gefi skýrslu um það. Ég hef áður óskað eftir því að fá skýrslu um þetta. Það hefur farið fram viðræða um þetta mál við fulltrúa frá bæjarstjórn Reykjavíkur, og upplýsingarnar, sem við höfum fengið um það, eru þær, að lögin hafi ekki verið framkvæmd að neinu, engin skýrsla sé til um þessar íbúðir, engin tilraun gerð til þess að útrýma 1/20 þeirra á hverju ári, og þær eru í notkun eftir sem áður. En að fenginni þessari reynslu af bæjarstjórn Reykjavíkur í því viðfangsefni að útrýma heilsuspillandi húsnæði væri mér næst skapi að setja löggjöf um það, að bæjarstjórn Reykjavikur skyldi ekkert með þau mál hafa að gera, af því að hún hafi brugðizt þeim gersamlega og ekki hlýtt gildandi lögum um þessi verkefni, og að það væri betur komið í höndum annarra aðila en bæjarstjórnar Reykjavíkur að fást við það.

Ég held, að það sé þess vegna alveg réttmætt af mér að óska eftir því, að hv. 6. þm. Reykv. taki þessa till. sína, ef hann er eins áhugasamur um þessi mál og hann læzt nú vera, og láti þessa till. sína koma fram í sambandi við væntanlegt frv. um húsnæðismálin í heild, þar sem verða sérstaklega auðvitað tillögur um fjáröflunina til húsnæðismálanna og þ. á m. auðvitað ákvæði um, hversu mikið fé skuli ætla til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis í kaupstöðum.

En framkvæmdina á gildandi lögum um íbúðir í kjöllurum bið ég hv. 6. þm. Reykv. að taka nú til athugunar, til þess að ekki verði áframhaldandi vanefndir á framkvæmd þeirra laga.

Hann spurði um frelsið til að byggja, hvort það eigi nú að fara að afnema það kannske, og tekur upp Tímann til þess að styðja þá fsp. sína við. Ég spyr: Hversu notadrjúgt hefur frelsið í byggingarmálum verið á undanförnum tveimur árum, þegar fólki voru gefnar vonir um það, að hver maður, sem færi af stað með að byggja íbúð yfir sjálfan sig, skyldi fá 100 þús. kr. lán? Upp á þá von og lagasetningu, sem byggð var á loforðum um þetta, fóru menn á stað, ekki hundruðum, heldur þúsundum saman, og byggðu, stofnuðu sér í fjárhagslegar ógöngur, sem þeir sitja nú og brjótast um í. Er það ekki dásamlegt frelsi?

Ég hefði haldið það. Þeir eru eins fjötraðir núna og þeir geta verið, þessir menn, sem voru gabbaðir út í byggingar, þegar fjármagnið var svo ekki fyrir hendi til þess að svara þörf þeirra, eftir að þeir voru komnir á stað með byggingarnar. Þetta er frelsið, sem fráfarandi stjórn veitti þessu fólki. Slíkt frelsi er lítils virði, það verð ég að segja. Það eina, sem getur gert menn frjálsa í húsnæðismálunum, sérstaklega það fólk, sem er að brjótast í að byggja, er, ef sæmilega vel er um hnútana búið um það, að menn geti fengið að eðlilegum leiðum í gegnum lánastarfsemina eðlilega aðstoð í byggingarstarfseminni og að hægt verði að standa við það, sem lögfest er hverju sinni í þeim efnum. Þá væri betra meira að segja að draga eitthvað úr því, að menn gætu farið á stað með byggingar, ef svo væri hægt að tryggja þeim með löggjöfinni, að við það, sem hefði verið lofað, væri hægt að standa.

Ég er alveg reiðubúinn til þess að ræða húsnæðismálin almennt við fulltrúa Reykjavíkurborgar, hv. 6. þm. Reykv., því að þeir hafa á engan hátt tekið svo myndarlega á lausn þeirra mála, að það sé þar af neinu að státa. Og það mætti fyllilega draga upp þá mynd af því, að hv. þm. hefði enga ástæðu til að vera ánægður með sjálfan sig eða höfuðborg landsins fyrir frammistöðuna.

En ég vík aftur að því, að ég legg algerlega á móti því, að þessi brtt. hv. þm. sé tekin inn í þetta frv., mun hins vegar taka með sanngirni á henni, ef hún kemur fram í sambandi við væntanlega heildarlöggjöf um lausn húsnæðismálanna, sem þetta þing hlýtur að fjalla um. Og ég er sannfærður um, að bæði hv. 6. þm. Reykv. og ég erum sammála um það, að slíka löggjöf verði að setja, eins og ástandið í húsnæðismálunum er nú, eftir að búið er að framkvæma húsnæðismálalöggjöfina, eins og hún var sett fyrir tveimur árum, fram til síðustu áramóta, því að hún komst alveg í þrot, eins og ég gerði grein fyrir að nokkru hér fyrir skömmu í þessari hv. deild.