31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Jóhann Jósefsson:

Hér hefur af hálfu þess hæstv. ráðh., sem fer með húsnæðismálalöggjöfina, verið haldið fram, að það hafi ekki verið nægilegt fé fyrir hendi samkv. þeirri löggjöf, er nú gildir um útvegun á fé til lána til bygginga frá 1955. Nú er það vitað, að samkv. þeim lögum kom feikimikill skriður á það, bæði í höfuðstað landsins og annars staðar á landi hér, að byggja, koma upp húsum yfir fólk, og þá mest, að menn hafa verið að byggja fyrir sjálfa sig. Og í viðræðum við menn, sem ég átti núna fyrir nokkrum dögum í mínu kjördæmi, var því haldið fram við mig, að samkv. þessum lögum og raunar byrjað áður á því tímabili, síðan frelsi manna til að byggja yfir sig var fengið, mundi hafa verið byggt tiltölulega miklu meira í Vestmannaeyjum en jafnvel í Rvík. Þessu var haldið fram við mig. Ég segi það ekki sem mína skoðun, en því var haldið fram þar. Svo mjög hefur þörfin á því að koma yfir sig þaki sagt til sín, bæði í Rvík og ekki síður úti um land, og ég vitna sérstaklega til míns kjördæmis í því efni, vegna þess að mér er það kunnast. Og þó að ég hafi nú ekki fyrir hendi fullkomna rannsókn á því, hvort þessi staðhæfing manna þar er rétt, að byggingar í Vestmannaeyjum hafi jafnvel farið hlutfallslega fram úr byggingum höfuðstaðarins, þá er eitt víst, og það sér hver maður, sem þar kemur og hefur komið þar nokkur ár á undan, að í þeim efnum hefur orðið stórkostleg breyting í sambandi við það frelsi í byggingarframkvæmdum, sem fengið var.

Á síðustu árum fjárhagsráðsins held ég mér sé óhætt að fullyrða að ég hafi hafið fyrstur upp mína rödd hér á Alþingi og kvatt hljóðs fyrir þeirri skoðun, að menn fengju frelsi til þess að byggja yfir sjálfa sig. Þetta ófrelsi í þeim málum var orðið svo grómtekið, að jafnvel fyrir að byggja tröppur við hús sín máttu menn eiga von á lögsókn og þvílíku, svo að það eitt er víst, að frjálsræði manna í þessum efnum hefur hrundið af stað stórmiklum framkvæmdum og stórmiklum úrbótum á húsnæðismálaástandinu yfirleitt.

Þetta ætla ég raunar ekki að fara að gera að umtalsefni. En ég hjó eftir því, að hæstv. ráðh. sagðist hafa útvegað 7 millj. kr., skildist mér, síðan hann tók við embætti, og ég skildi það þannig, að þessar 7 millj. kr. hefðu verið til útlána. En ég skildi hann á hinn bóginn þannig, að hann hefði ekki útvegað þær á grundvelli þessarar löggjafar, sem er frá 1955, eða innan þess ramma. Ég vildi þá gjarnan fá upplýst í þessu máli, á hvaða vegum, ef hann hefur ekki getað notazt við þann grundvöll, sem sú löggjöf lagði, hafi þá verið útvegaðar þessar 7 millj. kr. og eftir reglum hvaða laga þær hafa verið lánaðar út, ef ekki samkv. þeim reglum, er skapazt hafa, síðan þessi áminnzta löggjöf var sett. Það er fyrir mig og aðra, sem ekki eru kunnugir þessum málum, fróðlegt að vita um þetta og vita sem gleggst, þó að maður í raun og veru hafi ekki bein afskipti öðruvísi en ef til vill með atkvæði sínu hér á hinu háa Alþingi, af þeirri ástæðu einkum, að maður gengur varla svo fótmál innan um það fólk, sem á að eiga greiðan aðgang að hjálp síns þm. í þessum efnum, að fyrir mann sé ekki lögð sú spurning, hvort ekki sé unnt að fá fyrirgreiðslu á lánbeiðni, sem liggi hjá húsnæðismálastjórninni og hafi legið svo og svo, eins og gerist og gengur. Ég veit, að hv. þm. hljóta að kannast við þetta. Þess vegna, ef hæstv. ráðh. hefur þarna fundið nýja leið og nýja aðferð til þess að útvega, þó að ekki hafi verið nema í bili, 7 millj. kr., þá leikur mér forvitni á að vita það, af því að ég hef fyrir mitt leyti sem þingmaður áhuga á að greiða fyrir lánbeiðnum þeirra manna, sem eiga skylt, að ég bregðist ekki þeirra trausti í þessum efnum.

Ég skal að öðru leyti láta þessar deilur mér óviðkomandi, að öðru leyti en því, að ég er sannfærður um, að frelsið í byggingarmálunum, sem ef til vill þykir einhverjum óþarflega mikið verið hafa, hefur reynzt sú máttug vogarstöng, sem hefur lyft stórkostlegu Grettistaki í byggingarmálunum á undanförnum árum, ekki einasta í Reykjavík, heldur víðs vegar á landi hér. Og ég teldi fyrir mitt leyti mjög illa farið, ef svo færi í þeim efnum, að þessi driffjöður á framtak hvers einstaks manns í landi hér, sem þarf að koma þaki yfir síg og sitt fólk, yrði á einhvern hátt veikt eða tekin úr starfi. (PZ: Er frv. um það?) Frv. er ekki um það, en það hefur komið fullt tilefni í þessum umr. til þess að minnast á þetta og ekki sízt sú upplýsing, sem ég hef ekki heyrt vefengda, að flokksblað hv. 1. þm. N-M. er farið að harma það og telja það hafa verið óhappastig, að þetta frelsi var veitt í löggjöf landsfólkinu. Og það er mjög trúlegt, að einmitt innan vébanda Framsfl. sé sú skoðun ríkjandi, að frelsi í byggingarmálum handa almenningi sé til óheilla, því að þar hefur aldrei annars gætt í þessum efnum en hneigðar til ófrelsis, heftingar og rangsleitni.

Ég vonast svo til, að hæstv. ráðh. upplýsi mig í þessu efni, og ég spyr bara út af því, að ég vildi gjarnan hafa fræðslu í þessum efnum.