14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þó að ýmsar skoðanir hafi að vísu komið fram hér í hv. þingdeild við meðferð þessa máls, þá býst ég við, að um það sé ekki ágreiningur, vegna þess, hvað húsnæðisvandamálið er alvarlegt í mörgum kaupstöðum og kauptúnum landsins, að vinna beri að því eftir föngum, að notkun húsnæðis til íbúðar sé látin sitja fyrir öðrum afnotum húsnæðisins. Hins vegar er það annað mál, hvort hægt er að vænta mikils árangurs af þessu frv. í því efni, og mér virðist satt að segja, að margt sé vanhugsað í sambandi við þessi brbl., þannig að ég hygg, að engu væri spillt með því, þó að till., sem komið hefði hér fram frá hv. 1. þm. Reykv. um, að málið fengi nánari athugun, áður en það verður endanlega afgreitt frá d., verði samþykkt.

En það er eitt atriði, sem ég vildi benda á i þessu sambandi, af því að það hefur ekki komið áður fram í umræðum um þetta mál. Hér er um það að ræða, að gífurlegar sektir eru lagðar við því, að húsnæði, sem notað hefur verið til íbúðar eða teiknað sem íbúðarhúsnæði, verði tekið til annarra nota. Þar sem um svo ströng viðurlög er að ræða, lít ég svo á, að þá kröfu beri að gera, að einhver möguleiki sé á því að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga, þannig að hún verði ekki algert handahóf. En ég fæ ekki betur séð en að slíkt eftirlit hljóti að ýmsu leyti að verða mjög erfitt í framkvæmd.

Nú hefur það ævinlega verið þannig um allmörg undanfarin ár, að leitazt hefur verið við að greiða eftir föngum fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis, og hvað leyfaveitingar og aðrar fyrirgreiðslur af hálfu stjórnarvaldanna snertir, hefur íbúðarhúsnæði verið látið sitja þar fyrir. Afleiðing af þessu hefur óneitanlega verið sú, að tilraunir hafa verið gerðar til þess að fara í kringum þetta með ýmsu móti. Þar sem auðvelt var um langt skeið, einkum meðan fjárhagsráð starfaði, að fá leyfi til íbúðarhúsabygginga, en torveldara að fá slík leyfi, ef nota átti húsnæðið til atvinnurekstrar, verzlunar eða annars slíks, var það gjarnan látið líta þannig út, að um íbúðarhúsnæði væri að ræða, þó að ætlunin væri að nota viðkomandi húsnæði fyrir skrifstofur eða atvinnurekstur. En þá er spurningin þessi: Hvernig á að skera úr um það, hvort ákveðið húsnæði sé notað fyrir atvinnurekstur eða íbúð, þar sem húsnæði er kannske notað fyrir hvort tveggja? Ja, hugsum okkur t.d., að iðnrekandi, handverksmaður eða kaupmaður telji sig þurfa á húsnæði að halda fyrir sinn atvinnurekstur. Hann lætur teikna þetta og byggja þetta sem íbúð. En til þess að hægt sé að segja, að þetta sé notað sem íbúðarhúsnæði, þá kannske sefur hann sjálfur þarna á nóttunni eða lætur einhvern fjölskyldumeðlim sinn sofa þarna. Þá er spurningin sú: Hvað langan tíma af árinu þarf viðkomandi að hafa sofið í þessu húsnæði eða hvað margir fjölskyldumenn þurfa að hafa sofið þar, til þess að þannig beri að líta á, að þarna sé um íbúðarhúsnæði að ræða? Þetta er atriði, sem ég tel að sú hv. n., sem málið hefur til meðferðar, þurfi að gera sér nokkra grein fyrir, áður en samþykkja á slíkt frv., hvaða möguleikar séu á því að hafa eftirlit með framkvæmd þess. Ef þeir möguleikar eru ekki fyrir hendi, þannig að eftirlitið hljóti að verða að hreinu handahófi, þá þarf að búa betur um hnútana en gert er í þessu frv., til þess að hv. þingdeild geti verið þekkt fyrir að samþykkja það.