24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Á nýliðnu sumri var það augljóst mál, að mikill skortur íbúðarhúsnæðis var hér í Reykjavík og í nokkrum öðrum kaupstöðum, og það var enn fremur vitað, að þrátt fyrir þennan skort íbúðarhúsnæðis var sýnt, að allmargir aðilar í Reykjavík voru á leið með að taka til annarra nota húsnæði, sem hafði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði og ekki verið sótt um fjárfestingarleyfi fyrir, af því að í þessu húsnæði höfðu verið teiknaðar eldhúsinnréttingar og teiknaðar smáar íbúðir, og húsunum unnvörpum verið komið upp á þann hátt, en sýnt, þegar innréttingu hélt áfram, að það var ætlunin að taka þetta húsnæði til annarra nota en íbúðarbúsnæðis. Þá þótti alveg óhjákvæmilegt um slíkt húsnæði, sem byggt hafði verið, bundinn í gjaldeyrir og byggingarefni og fjármagn sem væntanlegu íbúðarhúsnæði, að það yrði lagt bann við því, að hægt yrði að taka það til annarra nota. Þess vegna voru brbl. sett um þetta efni.

Í 1. gr. er það skýrt fram tekið, að húsnæði, sem hafi verið teiknað sem íbúðarhúsnæði og fengið staðfestingu af byggingaryfirvöldum sem slíkt, megi ekki taka til annarra afnota. Til þess að fyrirbyggja, að þetta bann sé brotið, eru sektarákvæði í 4. gr. frv. Þau eru allhá. Þau eru frá 10 þús. kr. upp í milljón, og eiga þær sektir að renna í varasjóð hins almenna veðlánakerfis.

Því hefur verið haldið fram, að þessi lög hafi verið sett gagnvart einum aðila. Það er hinn mesti misskilningur. Ég hafði fulla vissu um það, áður en brbl. voru sett, að hér voru margir aðilar á þessari leið, og fékk enn þá betur að kynnast því næstu daga, eftir að brbl. voru sett, því að þá fékk ég heimsókn af mjög mörgum aðilum, sem vildu biðja um undanþágu frá lögunum, þannig að þeir mættu taka húsnæði, sem hafði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði, til annarra nota.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það, en það leiðir af sjálfu sér, að ég hef ekki veitt eina einustu undanþágu, frá því að lögin voru sett, og tel, að hér hafi verið um marga tugi íbúða, e.t.v. nokkur hundruð íbúða að ræða, sem voru á þeirri leið, að það væri verið að taka þær frá notkun til íbúðar og til verzlunar- og skrifstofuhúsnæðis og annars atvinnuhúsnæðis.

Ég skal hins vegar fyllilega fallast á það, að sá háttur, sem hafður hefur verið að undanförnu, að neita nálega undantekningarlaust um fjárfestingarleyfi fyrir verzlunar- og atvinnuhúsnæði, gengur ekki til frambúðar, þegar komið er í veg fyrir, sem ég tel eðlilegt, að tekið sé sífellt af íbúðarhúsnæði til þessara nota. Vitanlega getur verzlunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði verið nálega alveg eins nauðsynlegt og íbúðarhúsnæði. En það þarf að gerast á þann hátt, að þeir, sem sanna óumdeilanlega almenningsþörf fyrir slíkt húsnæði, fái til þess nauðsynleg og eðlileg leyfi og framkvæmi byggingu á slíku húsnæði á fyllilega löglegan hátt, en taki það ekki í atvinnuhúsnæði, sem látíð er í veðri vaka að eigi að koma til þess að bæta úr skorti íbúðarhúsnæðis hér í borg eða annars staðar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Efni frv. er þetta eitt, að bann var lagt við því að taka nothæft íbúðarhúsnæði eða íbúðarhúsnæði, sem hafði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði, til annarra nota en íbúðar. Sektarákvæðin voru höfð það há, að ekki þætti líklegt, að neinn vildi vinna það til að fá slík viðurlög fyrir að brjóta lögin, og hef ég ekki heldur orðið var við, að brot hafi átt sér stað, en húsnæðismálastjórn var þegar í stað falið að fylgjast með þessu og ganga úr skugga um, að lögin yrðu framkvæmd.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þetta frv. verði að umr. lokinni látið fara til hv. heilbr.- og félmn., og hef ekki meira um málið að segja að sinni.