01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir brtt. við 3. gr. frv. um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum.

Í 3. gr. er kveðið svo á, að félmrh. sé heimilt að undanþiggja kaupstaði ákvæðum þessara laga, ef fyrir liggi ósk um það frá hlutaðeigandi bæjarstjórn og ekki sé þar um skort á íbúðarhúsnæði að ræða.

Um þessa gr. vil ég segja það, að ekkert bæjarfélag gat orðið þessarar undanþágu aðnjótandi, nema þar væri enginn skortur á íbúðarhúsnæði, og ekkert bæjarfélag hefur farið fram á það að vera undanþegið lögunum.

Nú er hér brtt. um það, að aftan við þessa gr. bætist þetta efnislega, að einnig sé félmrh. heimilt að veita undanþágur frá þessum lögum um það húsnæði, sem hagkvæmara þyki að nota sem atvinnuhúsnæði en til íbúðar, ef fyrir liggi tvennt: umsókn eigandans og meðmæli hlutaðeigandi bæjarstjórnar.

Til þess að taka afstöðu til þessarar till. þarf maður að leggja fyrir sig þá spurningu: Var það rétt að gera tilraun til þess að hindra það, að íbúðarhúsnæði væri í húsnæðislausum bæjum tekið úr notkun sem íbúðarhúsnæði og til verzlunar- eða skrifstofuhalds eða annarra nota, og húsnæði, — og á það legg ég öllu þyngri áherzlu, — sem hefði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði, en síðan ætlunin að nota til allt annarra hluta og fara þannig þessa leið að láta teikna eldhúsinnréttingar í íbúðir í slíkum húsum, nota það bara sem skálkaskjól til þess að þykjast vera að byggja íbúðarhúsnæði, en vera að byggja í allt annarra manna þágu en húsnæðisleysingjanna? Var það rétt að stöðva þetta, eða átti löggjafinn að horfa á í bæjum, þar sem húsnæðisneyð var ríkjandi, að þetta héldi áfram sífellt í vaxandi mæli? Ég held, að það hafi verið rétt að leggja alveg bann við þessu hvoru tveggja í bæjum, þar sem húsnæðisneyð er ríkjandi, og að það sé ekkert þjóðfélagshneyksli, ekkert nálægt því, heldur sjálfsagður hlutur. Enda get ég skýrt hér frá því, að hv. 1. þm. Reykv. (BBen) sagði í umr. um þetta mál í annarri deild, að það hefði verið stórvansi fyrir löggjafarvaldið, ef það hefði látið þetta afskiptalaust, og ég held, að hann hafi kveðið miklu fastar að orði um það meira að segja.

Hvað yrði nú eftir af lögunum, ef þessi brtt. væri samþykkt? Ég sé ekki, að það stæði nokkur hlutur eftir. Fyrra skilyrðið er, að það liggi fyrir umsókn frá eiganda. Ég efast ekkert um það, að umsóknirnar muni drífa að, og hitt, að það fengjust meðmæli viðkomandi bæjarstjórnar. Ég er því miður afskaplega hræddur um það, að bæjarstjórn Reykjavikur léti ekki á sér standa í flestum þeim tilfellum, sem hér yrði um að ræða, og mælti með, og ef Alþingi væri svo búið að láta í ljós vilja sinn um að víkja frá ákvæðum laganna um bann við annarri notkun íbúðarhúsnæðis en einmitt til íbúðar, þá þætti félmrh. nokkurn veginn skylt að gefa undanþágu, ef þessi skilyrði væru fyrir hendi, að umsókn lægi fyrir og bæjarstjórn hefði mælt með. Lögin væru hrunin og hér væri hægt að fara greiða götu með það íbúðarhúsnæði, sem hefði verið teiknað sem íbúðarhúsnæði, en ætlað til allt annarra hluta, setja það í verzlunar- og skrifstofuhúsnæði, og húsnæðisleysingjarnir stæðu á köldum klaka eftir sem áður. En hér er um hundruð íbúða að ræða bara í Reykjavíkurborg einni og hinir ólíklegustu aðilar, sem eiga hlut að máli.

Það er alveg vitað, að það eru nokkur brögð að því eða voru nokkur brögð að því, að haldið væri hér auðu húsnæði. Ég segi: Það var rétt að láta sömu viðurlög varða, þegar menn hafa hér ónotað íbúðarhúsnæði, en þjóðfélagíð er í nauðum statt og þúsundir einstaklinga bókstaflega í nauðum staddir vegna húsnæðisskorts, og við þessu liggur allt að einnar milljón króna sekt.

Það er m.a. í þjónustu okursins, sem það hefur gerzt, að íbúðum hefur verið haldið kannske árum saman auðum hérna í bænum, af því að viðkomandi íbúðir hafa verið í sölumeðferð hjá fasteignasölu. Fasteignasalinn hefur sagt við eigandann: Ég hef enga möguleika til þess að selja þessa íbúð á hinn uppsprengda verði, sem ætlunin er að selja hana, nema því aðeins að hún standi auð. — Og sölumeðferðin hefur í sumum tilfellum staðið meira en eitt ár, stundum tvö ár. Þetta varð að taka fyrir. Þessar íbúðir urðu að takast í notkun aftur sem íbúðarhúsnæði, og það hefur í mörgum tilfellum orðið, síðan lögin voru sett. Það hefði ekki verið samboðið siðuðu þjóðfélagi að láta þetta viðgangast, og það er ekki samboðið siðuðu þjóðfélagi að samþykkja brtt. við þessa nauðsynlegu löggjöf, sem færi í þá átt, að refjamenn kæmust fram með þann verknað, sem hér var framkvæmdur, áður en bráðabirgðalögin voru sett. Ég mæli því eindregið á móti till.