22.10.1956
Sameinað þing: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

1. mál, fjárlög 1957

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, gefur sem slíkt ekki til kynna stefnu stjórnarinnar í efnahagsmálum. Fjárlagafrv. ber að leggja fram í þingbyrjun, og því lagaákvæði hefur hér verið fullnægt. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki tekið ákvarðanir sínar um það, hver skref skulu stigin til að skapa framleiðsluatvinnuvegunum möguleika eða aðstöðu til að dafna og þróast með eðlilegum hætti. En það er á allra vitorði, að aðgerða er þörf í þeim efnum, því að sá atvinnuvegurinn, sem næstum öll okkar utanríkisverzlun byggist á, stendur mjög höllum fæti. Á meðan ekki er ráðið fram úr vandamálum atvinnulífsins, hlýtur fjárlagafrv. að standa opið, og það hlýtur að taka verulegum breytingum í meðförum þingsins.

Það er augljóst, að stjórninni er að nokkru legið á hálsi fyrir það að skila ekki hér inn í þingbyrjun frv., sem gefur til kynna, hver stefna hennar er í fjármálum og hver skref hún ætlar að stíga í efnahagsmálunum til þess að koma atvinnulífi landsmanna í heilbrigðara horf.

Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt, að slíkt frv. hefði getað legið hér fyrir, en ef litið er um öxl og rifjaðir upp fáeinir athurðir frá síðustu árum og mánuðum, verður fljótt ljóst, að vandamál atvinnu- og efnahagslífsins eru slík, að ný stj. verður að hafa nokkurt undanfæri til að ákveða, hversu við skuli bregðast.

Það hefur verið mikill siður íhaldsins á undanförnum árum að telja allan þjóðfélagsvanda af því sprottinn, að kaupgjald væri of hátt, og í krafti þeirrar kenningar hafa þrásinnis verið gerðar ráðstafanir af opinberri hálfu til þess að minnka kaupmátt launanna. Sú viðleitni hefur að sjálfsögðu fætt af sér kaupdeilur og verkföll, svo að þjóðarbúið hefur uppskorið margháttaðar framleiðslutruflanir og stórtjón. Samt var í engu látið af þessari vígaferlastefnu, á meðan íhaldið átti setu á stjórnarstólunum, heldur fjandskapaðist það við verkalýðshreyfinguna, svo sem föng voru á, en hún bar að sjálfsögðu af sér spjótalögin eftir megni.

Á fyrra árshelmingi ársins 1947 munu kjör launþega hafa orðið hvað bezt, en einmitt það ár hófust til valda þau íhaldsöfl, sem létu skammt stórra högga í milli í því augnamiði að knésetja verkalýðshreyfinguna og lækka kaupmátt launanna. Hér er þess ekki kostur að rekja í smáatriðum, hvernig þessi hernaður stjórnarvaldanna gegn alþýðu landsins fór fram né heldur hver viðbrögð verkalýðssamtakanna voru hverju sinni til varnar eða gagnsóknar, en um það, hverjar sveiflur urðu á kaupmætti launanna, liggja fyrir nokkuð glöggir útreikningar.

Hinn l. febr. 1955 var kaupmátturinn fallinn niður í um það bil 84 á móti 100, sem hann var á miðju ári 1947. 8 ára barátta íhaldsaflanna frá 1947 til 1955 hafði því borið þann árangur að skerða kaupmátt verkamannslauna um 16%, og þannig stóðu málin þegar til hinna miklu verkfallsátaka kom í marz og apríl á s.l. ári. Þeim verkföllum lyktaði, svo. sem muna má, með nýjum kjarasamningum verkamanna, þar sem verulegar kjarabætur fengust. Íhaldið, sem sótt hafði á í átta ár, varð að hörfa svo verulega, að enn, þann 1. ágúst í ár, stóð kaupmáttur launanna í 90 á móti 84, sem komið var niður í fyrir verkfallið. Þó hefur kaupmátturinn mikið rýrnað á tímabili hins nýja samnings, enda ekkert til sparað af íhaldsins hálfu að eyðileggja þann árangur, sem þarna náðist. Það er flestum enn í fersku minni, hvernig strax upp úr verkföllunum voru framkvæmdar mjög stórfelldar og óeðlilegar hækkanir á alls konar verðlagi í mikilli náð þáverandi verðlagsyfirvalda. Íhaldið réttlætti þá allar slíkar hækkanir með því, að þær væru afleiðing kauphækkana verkafólks, þótt slíkt væri að minnstum parti satt og stundum hrein fjarstæða. En í þessu ofstæki gegn verkalýðsstéttinni og í því verðhækkunarflóði, sem íhaldið magnaði upp 1955, eftir ósigur sinn í átökunum við verkalýðshreyfinguna, var útvegurinn bókstaflega kaffærður í dýrtíð.

Þegar þetta ár, 1956, gekk í garð, rumskuðu þáverandi stjórnarvöld við það, að útvegurinn hafði stöðvazt, vélbátaflotinn alveg, en togaraflotinn hálfvegis. Efnahagur þessara atvinnugreina leyfði ekki frekari fiskveiðar. Þetta var afleiðing langvarandi íhaldsstjórnar í viðskiptamálum, þar sem hvers konar milliliðum hafði verið gefinn laus taumur til að hagnast hóflaust á skiptunum við útveginn, enda döfnuðu þeir aðilar og blómguðust að sama skapi og harðnaði á stallinn hjá útgerðinni sjálfri. En þegar fiskveiðarnar voru niður lagðar, þótti íhaldinu blómi skjólstæðinga sinna, milliliðanna, helzt til fallvaltur, svo að eitthvað þurfti að gera. Janúarmánuður fékk raunar að líða svo, að ekkert varð aðhafzt annað en það, að þáverandi stj. sótti í sig veðrið til nýs áhlaups í þágu dýrtíðarpúkans. Og svo gerði stjórnin útrásina. Nýir vöruskattar voru á lagðir og gamlir tollar hækkaðir, svo að nam hundruðum milljóna króna, 250 milljónum, að því er margir telja, og var þetta allt dýrtíðaraukning. Jafnframt voru útgerðinni ákveðnar nokkrar greiðslur, svo að hún hóf starfsemi að nýju. Við, sem andvígir vorum þessum aðgerðum, sögðum þá strax, að auk þess sem þessar náðstafanir kæmu mjög ranglátlega niður á þjóðfélagsþegnana, þá væru þær ekki þess megnugar að veita fiskiflotanum þá aðstöðu, sem nauðsynleg væri, enda færi sá atvinnuvegur sízt varhluta af þeirri dýrtíðaraukningu, sem hér var kallað á. Við bentum á, að þessar ráðstafanir hlytu að valda því, að framleiðslukostnaðurinn mundi stíga stórlega, og afleiðing þess hlyti að verða enn alvarlegri úlfakreppa fyrir útveginn en nokkru sinni fyrr. Við margítrekuðum þá viðvörun, að þessar stóru ráðstafanir mundu ekki einu sinni geta haldið útgerðinni gangandi árið út. En íhaldið taldi sig engin ráð þurfa að sækja til okkar andstæðinga sinna. Það taldi sig nógsamlega vita, hvað við ætti, og undir þess forustu var öllum till. okkar um aðrar leiðir hafnað. Og landsfólkið fékk á sig nýju skattabyrðina. En ef einhver skyldi enn halda, að grundvöllur útgerðarinnar hafi verið tryggður með tilkomu framleiðslusjóðs og þeirra tekna, sem í hann er aflað skv. lögunum frá febrúarbyrjun í vetur er leið, þá er það fjarri öllum sanni.

Það fóru fram kosningar til Alþ. hinn 24. júní í vor, svo sem flestir muna, og strax fyrir þær blasti ný stöðvun útgerðarinnar við. Íhaldið slapp ekki einn sinni fram yfir kosningarnar með heilt skinn frá stuðningsráðstöfunum sínum til handa framleiðsluatvinnuvegunum, en svo voru þeir vanir að kalla skattana sína. Hinn 21. júní, þrem dögum fyrir kosningar, gaf Ólafur Thors, þáverandi forsætís- og útvegsmálaráðberra, út sérstök brbl. um nýjar uppbætur á norðanlandssíld, kr. 57.50 á hverja saltsíldartunnu og 10 kr. á hvert mál til bræðslu, auk vátryggingargjalda af skipaflotanum. Ekki hafði verið gert ráð fyrir þessu í lögum um framleiðslusjóð, og var þarna því efnt til 18 eða 20 millj. kr. útgjalda, sem engar tekjur voru til fyrir. Og síðan hefur hver stöðvunin af annarri vofað yfir, svo að núverandi ríkisstj. hefur enn orðið að taka á framleiðslusjóð kvaðir, sem engir tekjustofnar eru fyrir. Í þeim ráðstöfunum er m.a. samningurinn við togaraeigendur, þar sem ákveðin er 15 aura verðuppbót á hvert kg af fiski, sem lagður er upp til vinnslu hérlendis, gegn því skilyrði, að tveir þriðjungar togaraaflans a.m.k. verði lagðir upp hér heima, en ekki seldir óunnir erlendis, enda hefði hvort heldur sem var, stöðvun togaranna eða útgerð fyrir erlendar sölur eingöngu, skapað hið alvarlegasta atvinnuástand heima fyrir, enda alkunna, að þjóðarbúið hreppir þrefaldar gjaldeyristekjur af afla þess togara, sem leggur upp til vinnslu, miðað við hinn, sem selur erlendis.

Líklegt er, að upphæð sú, sem framleiðslusjóður hefur verið skuldbundinn til greiðslu á umfram það, sem tekjuáætlun hans leyfir, nemi um 35 millj. kr., ef aflabrögð verða svipuð fram til áramóta og verið hefur á sama tíma að undanförnu.

Allar þessar ráðstafanir eru að vísu umdeilanlegar, en sameiginlegt er þeim það, að þær eru gerðar til að forða öðru verra, forðast stöðvun og atvinnuleysi eða verzlun, sem þjóðarbúinu var óhallkvæmari en það, sem gert var. Það er sem sagt komið enn rækilegar á daginn en við andstæðingar stóru skattanna frá s.l. vetri, við, sem vorum þá í andstöðu við stjórnina, sem kom þeim á, sögðum fyrir, að sú leið, sem þar var valin, var ófær. Hún gerði illt verra og var í senn óhóflega þung á herðum alþýðu manna og útgerðinni ófullnægjandi, enda henni dýrust í ýmsum efnum.

Ef setið hefði við lagasetningu s.l. vetrar, er það óumdeilanlegt, að síldveiðarnar norðanlands hefðu skilað mun minni árangri en raun varð á, það hefði engin síldveiði verið stunduð sunnanlands og togaraflotinn væri annaðhvort hættur veiðum eða legði allan aflann upp í erlendum höfnum, svo að þar töpuðust þjóðinni stórfelldar gjaldeyristekjur, sem henni nú áskotnast þrátt fyrir allar veilur efnahagskerfisins.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við, var hið blómlega bú, sem íhaldið telur hana hafa setzt í, sem sagt með undirstöðuatvinnuveginn á slíku nástrái, að íhaldið hafði sjálft þegar skrifað honum 18 eða 20 millj. kr. ávísun, sem engin innstæða var fyrir. Erfiðleikar hindruðu fulla nýtingu flotans, og alger stöðvun vofði yfir sunnanlandssíldveiðunum og veiðum togaranna fyrir innanlandsvinnslu. Við allt þetta bættist það svo, að dýrtíðin hélt áfram að æða upp úr öllum veðrum með öllum þeim afleiðingum, sem hækkaður framleiðslukostnaður hefur í för með sér. Sýnilegt var, að án sérstakra ráðstafana mundi dýrtíðin vaxa svo, að vísitala sú, sem kaup er greitt eftir, hækkaði úr 173 stígum, sem lögð voru til grundvallar, þegar síðast var samið um rekstrargrundvöll útgerðarinnar snemma á þessu yfirstandandi ári, í 190–200 stig. Hefði því 17–27 stiga hækkun bætzt ofan á ríkjandi vandræðaástand.

Fyrsta skrefið, sem stjórnin steig til þess að halda þessum vandamálum innan viðráðanlegra takmarkana, var að leita samkomulags við verkalýðs- og bændasamtökin um, að spyrnt yrði við hinum válega dýrtíðarvexti. Og raunin varð sú, að þessar stéttir reyndust fúsar til þess að eiga góðan hlut að lausn þessara vandamála þjóðfélagsins, enda eru það allt aðrir aðilar en íslenzk alþýða, sem skjóta sér undan réttmætum skyldum við samfélagið. Og þótt stundum heyrist skrafað um útveg og landbúnað sem ómaga ríkisins, sem kaupsýslustéttin fóðri, þá vita verkamenn, sjómenn og bændur, að þar er sama fjarstæðan á ferðinni og sú, sem eitt sinn átti sér nokkra rót í hugum manna, en finnst nú sem betur fer aðeins í frásögum í bókum, að kaupmaðurinn hafi í rauninni allt þorpið á framfæri sínu og hið vinnandi fólk sé aðeins hans ölmusulýður, þótt það skapi öll þau verðmæti, sem sá hinn sami kaupmaður varð svo ágætur af. Erfiðleika útvegsins og aðstoð við hann ber oft hærra í ræðu en hitt, sem er eldri staðreynd og þó alltaf jafnný, að útvegurinn leggur þjóðarbúinu til langmestan hluta þess gjaldeyris, sem þjóðin þarfnast.

Samkv. stefnu sinni og markmiðum hlaut ríkisstj. að leita allra ráða til stuðnings útveginum, annarra en almennrar lífskjaraskerðingar, gagnstætt því, sem tíðkazt hefur að undanförnu, þegar vandamál hefur borið að garði.

Þau brbl., sem ríkisstj. gaf . út 28. ágúst s.l., verða að sjálfsögðu að skoðast í því ljósi, að öll aðstaða er önnur og hægari til að tryggja eðlilegan og tafalausan rekstur fiskiflotans, ef aðeins þarf að mæta verðlags- og kaupgjaldshækkun, sem nemur 5 vísitölustigum, heldur en ef sú hækkun næmi um eða yfir 20 stigum.

En hefur þá ekki verið gengið á lífskjör hins almenna launþega með brbl. um stöðvun kaupgjalds og verðlags? Við þeirri spurningu er máske ekki hægt að gefa eitt svar fyrir alla. Lögin innihalda þrjú meginákvæði: 1) Launþegar sleppa tilkalli til 6 stiga verðlagsuppbótar á kaup. 2) Búvöruverð er ekki látið hækka til neytenda. 3) Almenn stöðvun á verðlagi er framkvæmd það tímabil, sem ákvæði laganna gildir.

Vera má, að einhverjir misbrestir séu á framkvæmd síðasttalda atriðisins, en þótt svo kunni að vera, hefur það óumdeilanlega mikil áhrif til stöðvunar á verðhækkun.

Hinn 1. sept. átti kaupgjald að hækka um 6 vísitölustig, þ.e. tímakaup verkamanns átti að hækka um 62 aura. Í þrjá mánuði nemur þetta 372 kr., miðað við átta stunda vinnu á dag, en 501 kr., ef reiknað er auk þess með tveggja stunda eftirvinnu. Fyrsta hálfa mánuðinn, frá 1.–15. sept., fórnaði verkamaðurinn þessu. Það er því rétt, að verkamenn og aðrir launþegar eru þeir, sem byrjuðu að fórna. En hinn 15. sept. hefði gengið í gildi hækkun á búvöruverði, sem nam 11.4% til bænda og nokkru meira í verðlagi út úr verzlunum. Þar hefðu týnzt óbætt 5.3 af hinum fyrrnefndu 6 vísitölustigum, miðað við neyzlu meðalfjölskyldu. Eftir 1. des. hefði þessi búvöruverðshækkun lyft kaupinu aðeins um 0.8 vísitölustig, þ.e.a.s. um eitt eða ekkert vísitölustig, því að mestur hluti hækkunarinnar hefði orðið á vinnu bóndans og aðkeyptri vinnu, eins og það heitir í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, og í lögum er ákveðið, að þeir liðir komi ekki inn í vísitöluna til kauphækkunar.

Hið almenna bann við verðhækkunum ætti að sjálfsögðu að tryggja launþegum það, sem vantar á fullar bætur fyrir það, sem niður fellur úr kaupinu, og í flestum tilfellum nokkru betur.

Þótt segja megi, að ekki komi þetta alveg jafnt niður á alla launþega, þá er allténd gott til þess að vita, að eftir því sem fjölskyldan er stærri og launin í lægra launaflokki hjá hverjum einstaklingi fyrir sig, þá verka stöðvunarlögin til aukins hagræðis fyrir þann, sem í hlut á, og fyrir hlutarsjómenn eru þau einskær hagnaður.

Það skref, sem stigið var með kaup- og verðstöðvunarlögunum, er þó að því leyti hagkvæmast þjóðinni allri, að það skapar möguleika til, ef slíkt samkomulag næst til frambúðar, að komizt verði hjá framleiðslutruflunum og örþroti því, sem yfir útgerðinni vofði og ekki hefði úr greiðzt nema með ráðstöfunum, sem sárt hefðu brunnið á baki allrar alþýðu.

Hér hafa verið dregnar upp dökkar myndir og ljótar. Þær bera vott um undangengna óstjórn. Þær eru arfur liðins tímabils, arfur, sem að vísu verkar á daglegt líf Íslendinga nú og mun gera það um eitthvert skeið enn þá. En þá tekst verr til en skyldi, ef mörg ár líða svo, að þjóðin nái ekki að sigrast á erfðasyndunum frá íhaldstímabilinu. Þrátt fyrir alla óstjórnina, allar framleiðslustöðvanirnar, og þrátt fyrir það takmarkalausa sinnuleysi um endurnýjun framleiðslutækjanna, sem gleggst má marka af því, að enginn togari hefur verið keyptur til landsins á þessum áratug, er efnahagur þjóðarinnar slíkur, að engin ástæða er til bölsýni. Þjóðin á að vísu ekki gjaldeyri nema til næsta máls, og ýmsa hluti skortir í landinn sjálfu. En framleiðslan fer vaxandi ár frá ári þrátt fyrir allt. Í ár er það einkum togaraflotinn, togaraaflinn og síldveiðin á norðurmiðunum, sem er meiri en á s.l. ári. Hinn 1. sept. nú sem leið nam verðmæti útflutningsins 602 millj. kr. á móti 499 millj. kr. á sama tíma 1955, sem þó var metár í framleiðslunni. Birgðir af útflutningsvöru voru nú um 80 millj. meiri en í fyrra á þessum tíma. Í heild er framleiðslan því um það bil 180 millj. kr. meiri nú á þessu ári en á sama tíma á fyrra ári. Til samanburðar má geta þess, að 1954 nam útflutningsframleiðslan 846 millj., 1955 hækkaði hún um 102 millj. í 948 millj., þar af var að vísu ekki útflutningsaukning nema um 2 millj. kr., en birgðaaukning um 100 millj. kr. Á þrem fyrstu ársfjórðungum þessa árs er þegar framleitt verðmæti fyrir 782 millj. kr., en það gefur vonir um, að útflutningsframleiðsla ársins nálgist 1100 millj. kr. um það er árinu lýkur.

Það er á allra vitorði, sem nokkuð þekkja til okkar útvegsmála, að framleiðsluna er hægt að auka stórlega, bæði með betri og stöðugri nýtingu þeirra tækja, sem þegar eru tiltæk, og eins hinu, að þjóðfélagið stuðli að eðlilegri framþróun í tæknilegri aðstöðu fiskvinnslustöðvanna, heilbrigðari fjárhagsgrundvelli útvegsins og einnig með aukningu skipastólsins.

Íslendingar eiga ekki sjálfir handbært fjármagn til stórfelldra skipasmíða eða annarra fjárfrekra framkvæmda atvinnulífsins. En svo er sjómannastéttinni fyrir að þakka og öðrum þeim, sem að framleiðslunni vinna af meira dugnaði en þekkist með öðrum þjóðum, að okkur hefur skapazt traust og álit meðal viðskiptaþjóða okkar, og má ætla, að ekki séu á því vandkvæði, að erlendis fáist nauðsynleg lán til nýrra stórátaka um uppbyggingu og eflingu atvinnulífsins í landi okkar.

Ríkisstj. hefur þegar tekið ákvarðanir um, að þetta skuli gert verða, og hefur af hennar hálfu verið lagt hér fram frv. um smíði 15 nýrra togara og nokkurra annarra fiskiskipa og um ríkisútgerð til atvinnujöfnunar. Það er grundvöllur að framtíðarlausn þess vanda, sem að steðjar á efnahagssviðinu, að framleiðslan verði stórlega aukin. Til þess þarf þrennt að ske. Það þarf að afla nýrra framleiðslutækja, það þarf að nýta vinnuafl landsmanna betur en nú er gert, og það þarf að rýmka um efnahag framleiðsluatvinnuveganna, fyrst og fremst með því að létta af þeim milliliðaokri því, sem um skeið hefur sífellt færzt í óhóflegra horf og tekur til útflutningsviðskipta, þjónustu og innflutningsverzlunar, þ.e. til allra þáttanna, sem íhaldið vildi engan gaum gefa, meðan það hafði aðstöðu til, heldur að beina baráttu þeirra, sem að útgerð unnu, eingöngu til andófs gegn kaupi sjómanna og verkafólks. Hér skal ekkert um það fullyrt, hve nálægt hallalausum rekstri muni hægt að komast með því að minnka möguleika þeirra samskiptaaðila útgerðarinnar, sem oftekið hafa hagnað á undanförnum árum, en það, sem á kann að vanta, verður að tryggja með því að endurkrefja gróðastéttina um hluta af hinu oftekna. Nú hefur hún að sjálfsögðu ekki skilið þá fúlgu, sem til þarf, eftir á neinum einum stað, þar sem hægt er að ganga að henni og flytja hana yfir til verðugri aðila. Engu að síður hljóta hin nýju stjórnarvöld að leita allra ráða til þess, að núverandi lífskjör almennings þurfi ekki að skerða, og þau hljóta að forðast þær aðgerðir, sem leiða til aukinnar dýrtíðar.

Frá því að Alþingi samþykkti að segja upp hernámssamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku í því augnamiði, að her sá, sem átt hefur hér setu um árabil, hyrfi úr landinu, hafa ýmsir reynt að telja þjóðinni trú um, að með brottför hersins væri lokað fyrir tekjulind, sem ein allra væri þess megnug að skapa hagsæld á Íslandi. Sú kenning er röng með öllu. Að vísu hafa tekjur fengizt fyrir vinnu hjá hernámsliðinu og einstakir viðskiptaaðilar hagnazt á samskiptum sínum við herinn, en íslenzkir atvinnuvegir hafa þjáðst af vinnuaflsskorti, og einnig af þeim sökum er framleiðslan mun minni en möguleikar voru á.

Segja má, að engum sé of gott að boða þjóðinni trú á þjónustustörf hjá erlendum stríðsmönnum og vantrú á íslenzka atvinnuvegi að sama skapi, svo sem Sjálfstfl. nú gerir. En þegar á það er litið, að á yfirstandandi ári er það lægri gjaldeyrisupphæð, sem fengizt hefur fyrir setuliðsvinnuna, en það, sem framleiðsluaukning ársins ein gefur hjá hinni fátæku, hrjáðu og aðþrengdu atvinnugrein, fiskveiðunum, verður það augljóst, að lofsöngur íhaldsins um gullkálfinn í Keflavík er með öllu úrelt villutrú. Þótt eingöngu sé litið á efnahagshliðina, sem íhaldið jafnan hefur talið svo bjarta, að ljómi hennar væri meira en til jafnvægis á skuggahliðar hernámsins, þá kemur í ljós, að íslenzka þjóðarbúinu væri betra og drýgra til gjaldeyristekna að bæta jafnmörgum mönnum og nú vinna fyrir Ameríkana við í framleiðslustörf útvegsins en að láta sitja við það, sem er, um störf Íslendinga fyrir herinn.

Hér ber því allt að sama brunni, hvernig sem á er litið. Þrátt fyrir allar snurður, sem hlaupið hafa á þræði íslenzks efnahagslífs að undanförnu, sést glöggt á vaxandi útflutningi og stöðugt vaxandi þjóðartekjum, að engin ástæða er til að fyllast hrolli eða kvíða, þegar litið er til framtíðarinnar. Þótt íhaldsstjórnin væri þjóðinni einkar óhagkvæm, þá mátti hún sín þó minna en dugnaður alþýðunnar við framleiðslustörfin, og því eru möguleikar þjóðarinnar til hagsældar ekki þrotnir. Fyrirsjáanlegt er þó, að þunga dýrtíðarinnar verður ekki létt af herðum alþýðustéttanna að sinni, en hitt er jafnaugljóst mál, að ekkert réttlæti væri að leggja aukinn þunga leiðréttinganna á hag útvegsins á bak þeim, sem þjóðhollastir eru og einlægastir í viðleitni sinni til umbóta og hafa þegar sýnt það í verki. Þar á móti verður að leita uppi þá, sem fremur öðrum valda vexti dýrtíðarinnar með óhóflegu verðlagi á vörur og þjónustu, og svipta þá aðstöðu til slíks og láta þá gjalda misgerðanna og bæta þann skaða, sem þeir þegar hafa valdið, eftir því sem við verður komið.

Öll afgreiðsla fjárlaga hlýtur að mótast að verulegu leyti af því, hverjar leiðir verða valdar að markinu: öruggur rekstur framleiðslutækjanna, óskert lífskjör almennings, og það standa vonir allra þjóðhollra manna til, að það takist vel til og því markmiði verði náð.