25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

1. mál, fjárlög 1957

Jón Sigurðsson:

Herra forseti: Ég á hér eina brtt. á þskj. 292, og er hún sú 9. og síðasta í röðinni á því þskj. Tillaga þessi, sem er við 22. gr. fjárl., er að mestu samhljóða áskorun á ríkisstj., sem samþ. var á aðalfundi Stéttarsambands bænda á Blönduósi s.l. haust með samhljóða atkv. því nær allra fundarmanna. Stjórn Stéttarsambandsins sendi ríkisstj. að sjálfsögðu þessa áskorun, og auk þess hafa viðræður farið fram um málið milli formanns Stéttarsambandsins og vissra manna innan ríkisstjórnarinnar. En þar sem enn liggur ekkert fyrir opinberlega um afstöðu ríkisstj. til þessara mála og 3. og síðasta umr. fjárlaganna er hafin, taldi ég það skyldu mína sem stjórnarnefndarmanns í Stéttarsambandi bænda, og þess eina, sem sæti á hér á hv. Alþ., að bera þessa till. fram hér á Alþingi og gera grein fyrir henni.

Það, sem veldur því, að þessi till. er fram borin, er hinn mikli munur á útborgunarverði mjólkur til bænda frá mjólkurbúunum á Suðvesturlandi og á Norðurlandi. Í fjórum búum á Suðvesturlandi var meðalverðið fyrir árið 1955 kr. 2.89 pr. lítra, en í norðanbúunum fjórum var mjólkurlítrinn á sama tíma kr. 2.48 til 2.59 og meðalverðið kr. 2.55 lítrinn. Mismunurinn á meðalverði til bænda sunnanlands og norðan var því 34 aurar á lítra.

Það, sem veldur þessum mikla mismun, er, að norðanbúin hafa miklu minni neyzlumjólkursölu og verða því að vinna úr miklu af sinni mjólk smjör, skyr, ost og þurrmjólk, og birgja Reykjavík og aðra bæi víðs vegar um land að þessum vörum. Þetta gefur miklu minna í aðra hönd en nýmjólkursalan hér í Reykjavík og nágrenni, sem sunnanbúin sitja ein að lögum samkvæmt.

Verðmiðlunargjaldið, sem nú er tekið til að jafna þennan mismun, nemur 7 aurum á lítra á alla selda mjólk og er notað til verðjöfnunar milli norðanbúanna, en er aðeins um helmingur af því, sem þyrfti að vera. Áskorun aðalfundar Stéttarsambands bænda á ríkisvaldið er því, að ríkið greiði til viðbótar sem næst í aurum á hvern seldan mjólkurlítra til verðjöfnunar milli þessara búa, sem lægst verð fá. Má ætla, að það mundi kosta ríkissjóð í kringum 2 millj. kr., því að mjólkurframleiðsla norðanbúanna er tæpur þriðjungur af mjólkurmagni allra mjólkurbúanna.

Það, sem hrindir þessari áskorun af stað, er almenn óánægja norðanbænda með mjólkurverðið. Bændum norðanlands er reiknuð mjólkin til tekna í verðlagsgrundvellínum á miklu hærra verði en þeir fá nokkru sinni fyrir hana, þegar stéttarbræður þeirra hér sunnanlands fá sumir hverjir fullt verðlagsgrundvallarverð. En kostnaður við búreksturinn er mjög líkur á báðum stöðum. Þessi aðstöðumunur veldur því, að ástæða er til að óttast aukið aðstreymi til Suðvesturlandsins úr þessum héruðum, ef ekki tekst að jafna, svo að um munar, þennan mikla verðmismun. Tillagan miðar að því að jafna aðstöðu þeirra mjólkurframleiðenda, er mjólkursölu stunda, án þess að rýra kjör þeirra bænda, er betur vegnar, enda væri það hin mesta ósanngirni, meðan sunnanbændur fá ekki almennt einu sinni það verð, sem þeim er reiknað í verðlagsgrundvellinum, þótt nokkrir þeirra nái því.

Þá má benda á, að í Noregi fá bændur, sem mjólkursölu stunda, en eiga við erfiðleika að etja, t.d. í fjallabyggðunum norsku, eins konar erfiðleikauppbót í hærra mjólkurverði, sem ríkið greiðir og miðar að því að halda fólkinu í þessum byggðum.

Það er mikið talað um hættuna af látlausu aðstreymi fólks til Suðvesturlandsins frá öðrum landshlutum. Till., sem hér liggur fyrir, er ein af þeim leiðum, sem verður að fara til að sporna við þessum flótta úr sveitunum. Ég skal játa, að það er hægt að fara aðra leið, sem verður að fara, ef Alþ. og ríkisstj. kjósa hana heldur. Það er hlutverk framleiðsluráðs að hlutast til um, að bændur fái að meðaltali það verð fyrir afurðir sínar, sem verðlagsgrundvöllurinn segir til um hverju sinni, þ. á m. fyrir mjólkina. Til þess að bændur fái almennt eitthvað í áttina við það mjólkurverð þarf að hækka, eins og ég sagði áðan, sölumjólkina um 7 aura lítra og nota alla hækkunina til verðmiðlunar milli norðanbúanna. Slík hækkun á söluverði mjólkurinnar mundi valda vísitöluhækkun, sem gizkað er á að mundi kosta ríkissjóð álíka upphæð að greiða niður og þær 2 millj. kr., sem hér er farið fram á að ríkisstj. megi verja til verðjöfnunar milli mjólkurbúanna utan fyrsta verðjöfnunarsvæðis. Fyrir ríkissjóðinn er því nokkurn veginn sama, hvor leiðin er farin. Með till. minni er Alþ. gefinn kostur á að velja milli þessara tveggja leiða.