28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki tilgangur minn að hefja hér almennar umr. um húsnæðismálafrv. eða það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hafði eiginlega hugsað mér að beina orðum mínum fyrst og fremst til þeirrar n., sem fær þetta, en það er víst svo komið, að það er enginn úr n. í deildinni, (Gripið fram í.) Jæja, ráðh, hefur þá ekki tekizt að þurrka alveg d. En þar sem fram er komið frv. um breytingar á lögunum um þetta, þá þykir mér ástæða til að benda á atriði, sem varðar alveg sérstaklega unga fólkið í sveitinni.

Í frv. er gert ráð fyrir margvíslegum undanþágum, eins og hæstv. ráðh. las upp hér áðan. Þessar undanþágur eru vitanlega nauðsynlegar, en þær ná í raun og veru of skammt, og sérstaklega er það gagnvart unga fólkinu okkar í sveitinni, og vil ég þá nefna dæmi.

Það er ekki óalgengt í ýmsum sveitum, að ungt fólk, sem starfar hjá foreldrum sínum, vinnur á búi þeirra og hefur að sjálfsögðu kaup, að það af því, sem ætlar sér búskap til frambúðar, tekur kaup sitt allt saman annaðhvort í fóðrum eða beinlínis í skepnum.

Ég hef orðið var við, að mörgum finnst það vera ósanngjarnt að láta lögin ná til þessa fólks. Fyrst og fremst er þarna ekki um neina peningagreiðslu að ræða, en þarna er vitanlega um fólk að ræða, sem starfar einmitt að því eða vinnur að þeim ákvæðum, sem hugsað er að skyldusparnaðurinn komi til leiðar. Það er að framkvæma þarna frjálsan skyldusparnað og leggur í það kannske hvern einasta eyri. Ég gæti t.d. nefnt menn í minni sveit, sem að vísu ætla sér að hefja búskap á næsta vori eða næstnæsta, sem býttuðu öllum hrútdilkunum sínum í gimbrar til þess að setja fleira á og lögðu ekkert lamb inn. Nú spyr ég: Finnst n. nokkur ástæða til þess að knýja þetta fólk, sem er að búa sig undir sitt lífsstarf, til þess að fara að leggja þarna talsverða upphæð fram, þegar það gerir það sjálft af frjálsum vilja? Ég gæti nefnt ýmis fleiri dæmi frá okkur í sveitinni, sem geta fært mönnum enn frekar heim sanninn um, að það er sanngirni að veita þessu fólki undanþágu engu síður en því fólki, sem nefnt er í lögunum.

Það var aðeins á þetta atriði, sem ég vildi leyfa mér að benda í þessu sambandi, því að úr því að breyting á lögunum er hér fyrir, þá tel ég það bæði rétt og skylt, að þetta atriði sé tekið til athugunar í þessu sambandi.