24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér varð ljósara nú en áður, að allt tal hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) um svik, sem hann nú nefndi vanefndir af hendi ríkisstj. í húsnæðismálunum, byggist á miklum misskilningi frá hans hendi. Hann er vafalaust ekki að fara þarna rangt með vísvitandi, heldur fer hann með þetta vegna misskilnings, og hann passar alltaf að setja inn á milli í frásögn sína orðið nýtt: nýjar upphæðir, ný loforð, en á því byggist allur hans misskilningur. Það, að verkalýðshreyfingin gekk eftir því, að áður gefin loforð væru efnd, stafaði af því, að það gekk afar seint að toga út úr bönkunum það fjármagn, sem byggt hafði verið á, í þeirri löggjöf, sem sett var hér á síðasta þingi, að kæmi frá þeim og tryggingafélögum og opinberum sjóðum, og þá hertu verkalýðsfélögin á sínum kröfum, að þetta væri samt knúið fram, og var þannig verið að ganga eftir því, að áður gefin loforð væru efnd.

Og þá komum við að kjarna málsins: Hvernig hafa þau svo verið efnd?

Jú, það er bezt, að það komi skýrt í ljós, hverjar niðurstöðurnar eru. Síðasta árið, sem ríkisstj, Ólafs Thors fór með þessi mál, fóru alls í A- og B-lánum 34 millj. 559 þús. kr. til húsnæðismálanna í landinu samkv. þessari löggjöf. Nú hefur á árinu 1957 og það sem af er þessu ári, og því hefur hv. 5. þm. Reykv. haldið fram, að hafi öllu verið úthlutað í desembermánuði og janúarmánuði, sem sé kosningamánuðunum, eins og hann sagði, — en það sanna er, að þessi úthlutun á fénu, sem útvegað var á árinu 1957, stóð fram í marzmánuð, og var ekkert mér vitanlega breytt vinnubrögðum í húsnæðismálastjórn við að úthluta því, hún hélt áfram þennan fyrsta ársfjórðung ársins að úthluta þessu fé, og þá var það, sem hafði verið útvegað á árinu 1957, en var verið að úthluta allt fram í marzmánuð 1958, 65 millj. 436 þús. kr. Geta menn þá haft þær tölur, sem hér liggja fyrir um það, hvort minna hafi farið af fé til þessara mála nú eða hjá fyrrv. ríkisstj. Þetta er fyrsta heila árið hjá núverandi ríkisstj. Hitt, sem ég gat um áðan, 34 millj. 559 þús., var síðasta heila árið, sem fyrrv. stj. fór með þessi mál.