27.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég veit, að hv. 2. þm. Eyf. (MJ) virðir mér það til vorkunnar, þó að ég hafi ekki við höndina allar tölulegar upplýsingar, sem hann spyr um, á stundinni, og væri að því leyti betra, að hann bæri fram ákveðið formaða fsp, hér í þinginu um slíkar upplýsingar. En ég hef ekki legið á neinum þeim upplýsingum, sem ég hef haft nærtækar.

Það fór svo, að þegar hann fór að vitna í málgagn Landsbankans, þá kom þar fram orðalagið „allt benti til þess“, það var nú orðalagið í skýrslu Landsbankans, að það hefði komið ekki minna út, heldur en lofað hefði verið. Og hvers vegna er Landsbankanum jafnvel óhægt um vik að upplýsa, hve mikið fé hafi farið til húsnæðismála alls á landinu? Það er einfaldlega af því, að sparisjóðirnir úti um allt landið, sem skipta tugum, lána hver á sínu viðskiptasvæði m.a. til húsnæðismála, en venjulega í víxilformi, og það er ekki einn einasti aðili til, hvorki hagfræðideild Landsbankans né aðrir, sem getur gefið upp það örugglega, hvað af útlánum sparisjóðanna hafi farið beint til húsnæðismála og hvað ekki. Þetta eru allt saman áætlaðar tölur hjá Landsbankanum að því er þetta snertir, og það veit ég að hv. 2. þm. Eyf. verður að viðurkenna. Þess vegna hefði verið miklu betra, ef hv. sjálfstæðismenn hefðu ekki fundið, að þeir stóðu þar höllum fæti, að halda sér við, hvað hefur fyrir beinar aðgerðir fyrrv. ríkisstj. og núverandi ríkisstj. verið með sérstökum ráðstöfunum útvegað í gegnum veðlánakerfið hjá fyrrv. ríkisstj. og gegnum húsnæðismálastofnun ríkisins hjá núverandi ríkisstj. til húsnæðismála, því að það er það rekstrarfé, sem hefur verið útvegað. Sparisjóðirnir störfuðu á sínum grundveili þá og gera það enn. En það er ákaflega erfitt að sýna, hvaða tölur það eru, sem þeir hafa lagt fram sem lánsupphæðir til húsnæðismála í báðum tilfellunum.

Hv. 1. þm. Eyf. vitnaði nú í málgagn Landsbankans, og ég bað hann að lána mér ritið. En það er þá Morgunblaðið. Ég sé ekki betur en þetta sé Morgunblaðið, og mér er það ekki alveg sama sönnunargagn, Morgunblaðið og hagtíðindi Landsbankans. Það hefur verið sagt, að það hafi tekizt stundum að ljúga á skemmri leið, en frá Galíleu til Reykjavíkur, og það getur skolazt ýmislegt bara úr dálkum hagtíðinda Landsbankans og í Morgunblaðsdálk. En ég þarf ekkert að vefengja í þessu efni annað en þetta, að Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., nefndi ekki eitt ár, þegar hann var að gefa sína viðmiðun, hann nefndi 17 mánuði eftir hagtíðindum Landsbankans og sagði þá, að allt benti til þess, að það hefði verið varið fyllilega 100 millj. kr., kannske upp í 120 millj., en það var áætlunarupphæð, svo að það var alls ekki hægt að tilgreina þar nákvæmar tölur. Það gerði Landsbankinn ekki heldur. En svo vék hv. 2. þm. Eyf. að því, að þegar ég hefði tekið við þessum málum, þá hefðu verið höfð í frammi orð um það, að nú yrði bætt úr, það yrði látið meira fé til húsnæðismála, en áður, og það er þegar sannað mál, að það hefur verið gert. Það hefur verið breytt lögum um verkamannabústaði þannig, að framlög af hendi bæjarfélaga og sveitarfélaga hafa verið tvöfölduð síðan. Þar af leiðir, að framlag ríkissjóðs á móti þeirri tvöföldun hefur einnig verið tvöfaldað, og það er ekkert ómerkilegur þáttur í húsnæðismálunum, sem löggjöfin um verkamannabústaði innir af hendi.

Þá er það löggjöfin um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Þar hefur fjármagnið af hendi ríkisins verið aukið um 25%, hækkað úr 3 millj. kr. í 4 millj. kr., og útlánin á vegum húsnæðismálastofnunar ríkisins hafa stóraukizt frá því, sem var á árinu 1955, síðasta heila ári fyrrv. ríkisstj., að því er snertir hið almenna veðlánakerfi þá og starfsemi þess. Þetta þýðir allt saman, að í hverjum einasta þætti byggingarmálaframkvæmdanna hefur komið aukið fjármagn og þannig verið nokkuð bætt úr frá því, sem áður var. Hitt skal játað, að enn þá er verkefnið svo stórt, að það er ekki leyst til fulls, og margir umsækjendur bíða enn, en þó munu þeir vera heldur færri en þegar við var tekið. Það sýnir, að heldur vinnst í áttina, enda hefur fjármagnið til húsnæðismálanna verið aukið að því er snertir framlög til verkamannabústaða, að því er snertir framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og að því er snertir fjárframlög gegnum húsnæðismálastofnun ríkisins, áður veðlánakerfið.

Ég þakka fyrir lánið á Morgunblaðinu.