13.02.1958
Neðri deild: 51. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

86. mál, skólakostnaður

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. flytur þetta frv. eftir beiðni menntmrn. Þegar héraðsskólarnir voru stofnaðir og húsmæðraskólar í sveitum, þá voru þeir skv. lögum sjálfseignarstofnanir. Ríkissjóður styrkti rekstur þeirra á þann hátt, að greiddur var ákveðinn styrkur á hvern nemanda skólans. Samkv. héraðsskólalögunum, sem sett voru 1940, var þessum greiðslum hagað þannig, að ríkið greiddi 6000 kr. fyrir fyrstu 15 nemendurna í slíkum skóla, síðan 250 kr. vegna hvers nemanda upp að 40 nemendum og loks 200 kr. á hvern nemanda úr því eða á þann nemendafjölda, sem var fram yfir 40. Allar þessar tölur voru að sjálfsögðu miðaðar við verðlag fyrir stríð. En með þessum stuðningi af hálfu ríkisins var reynslan sú, að allvel var séð fyrir fjárhagshlið þessara skóla. En með lögum um skólakerfi og fræðsluskyldu, sem sett voru 1946, var aðstöðu þessara skóla breytt verulega frá því, sem áður var. Nú eru þessir skólar ekki lengur taldir sjálfseignarstofnanir, heldur sameign ríkisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga. Og rekstrarkostnaður þessara skóla er þannig greiddur, að leigutekjur af húsnæði skólanna, þ.e.a.s. tekjur af húsaleigu kennarabústaða og vegna sérstakrar starfsemi, sem skólarnir eru einstöku sinnum leigðir til, skiptast milli ríkisins og hlutaðeigandi sýslu í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Aðrar tekjur skólans skiptast að hálfu milli ríkisins og hlutaðeigandi sýslu. En það, sem á vantar, að þær tekjur, sem aflast heima í skólunum, nægi til þess að standa straum af rekstrarkostnaði, ber ríkinu að greiða að hálfu, en hlutaðeigandi sýslum að hálfu.

Nú hefur reynslan sýnt, að fjárhagur þessara skóla er erfiður, svo að nauðsyn þykir til að hlaupa undir bagga, og í því skyni er frv. þetta flutt. Ákvæði frv. miða að því, að leigutekjur og aðrar tekjur heimavistarskóla gagnfræðastigsins, þ.e.a.s. héraðsskólanna í sveitunum, og húsmæðraskóla renni í hlutaðeigandi skólasjóð sem framlag sýslunnar eða héraðsins vegna kostnaðar af viðhaldi og rekstri skólans.

Með þessu verður að sönnu nokkur tilfærsla frá ríkinu og til hlutaðeigandi héraða, en tilfærsla, sem miðar í þá átt að auka að nokkru framlög ríkisins til rekstrarkostnaðar þessara skóla, en bæta aðstöðu héraðanna. En það er álit þeirra, sem að þessu máli standa, að hag þeirra skóla, sem hér um ræðir, sé þannig komið, að ekki verði hjá því komizt að breyta löggjöfinni í þá átt, sem hér er farið fram á, og það er enn fremum álit þeirra, að það muni ekki hagkvæmara fyrir ríkissjóð að fara aðra leið en þá, sem hér er lagt til.

Með því, sem hér er lagt til, er í raun og veru farið nærri þeirri stefnu, sem mörkuð var í öndverðu, að þær tekjur, sem safnast heima fyrir, bæði heimavistargjöld nemenda og leigutekjur af húsnæði skólanna, skoðist sem framlag úr héruðunum, og miðar að því að gera fjárhag þessara skóla sjálfstæðari, en verið hefur nú um skeið.

Eins og ég tók fram, er frv. þetta flutt af hálfu menntmn., og sé ég ekki þörf á að fara um það fleiri orðum.