10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

18. mál, umferðarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það kemur nú í ljós, að hv. þm. V-Húnv. misskilur fleira, en þessa sína eigin brtt. Hann virðist halda, að dómsmrh, eigi að segja dómurunum til um það, hvernig eigi að dæma, Það er eitt meginatriði okkar réttarfars, að dómsmrh. ræður engu um það, hvernig dómarar dæma. Dómarar eru sjálfráðir í sínum störfum og eiga að fara eftir túlkun laganna, eins og þeir telja hana vera rétta, en ekki eftir neinum fyrirmælum dómsmálastjórnarinnar. Það er vitað mál, að það hefur oft komið fyrir, að dómarar hafa sýknað þann, sent dómsmrh. hefur ákært fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis, þó að áfengismagnið hafi verið meira, en það lágmark, sem hér er til tekið, vegna þess að dómararnir telja ekki sannað, að áhrifin hafi verið slík, að þau hefði átt að telja aðila til sakaráfellis, og þar hafa þeir farið eftir því, sem vísindamenn hverju sinni telja sannast og réttast.

Það, sem er verið að gera með löggjöfinni nú eða frv., eins og það liggur fyrir, er að gera kröfurnar strangari, fara niður fyrir það áfengismagn, sem talið er örugglega sýna, að menn séu undir áhrifum áfengis, vegna þess að hér sé svo mikið í húfi, að það sé eðlilegt að gera mun strangari kröfur í þessum efnum, en gerðar hafa verið, og ef þetta áfengismagn er í blóðinu, þá sé rétt að telja mann óhæfan til að aka bifreið, þó að eftir ströngum vísindalegum reglum yrði talið, að hann væri ekki undir áfengisáhrifum. Löggjafinn er að setja hér annað mark, en talið er að rétt hafi verið að fylgja eftir ströngustu kenningum vísindanna, og það mark er sett vegna þeirrar stórkostlegu almannahættu, sem er því samfara, að áfengisneyzla komi til greina hjá þeim, sem aka bifreið.

Það tekur því ekki fyrir okkur, mig og hv. þm. V-Húnv., að vera að þræta um þetta. Okkar umsögn breytir engu, hvorki um álit vísindamanna í þessu né þá túlkun dómstólanna, sem verið hefur. Ef hann vill hafa það, sem rangt er í þessu máli sem öðru, þá hann um það.