17.03.1958
Neðri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

18. mál, umferðarlög

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Mér kom það mjög á óvart, hvernig sumir hv. alþm. hafa tekið í þá till., sem ég flutti á þskj. 283 um lágmarksaldur barna við keyrslu dráttarvéla við landbúnaðarstörf utan alfaravegar. Af ummælum sumra hv. alþm. má gjarnan draga þá ályktun, að íslenzkur landbúnaður væri í yfirvofandi hættu, ef sett yrðu ákvæði inn í lögin um lágmarksaldur barna við keyrslu dráttarvéla.

Ég verð að segja það, að mér hefði ekki komið til hugar, að barnavinna við slík störf væri svo almenn eins og þessir hv. alþm. vilja vera láta. Ég þekki t.d. allmörg sveitaheimili, sem ekki láta 10 eða 12 ára börn vinna með slíkum vélum, telja það of mikinn ábyrgðarhluta. Aftur á móti þekki ég önnur sveitaheimili, þar sem börn og unglingar eru látin vinna með þessum vélum úr hófi fram. Þetta er að sjálfsögðu mjög misjafnt, og veltur þar á ýmsu. Hv. þm. Borgf. vildi t.d. halda því fram, að bændur væru færastir til að dæma um það, hvort börn væru fær um að keyra vélarnar, og þeim væri bezt trúandi til þess að kenna þeim rétt handtök o.s.frv. Ég veit, að margir bændur munu færir til þess að kenna börnum meðferð vélanna og gera það að sjálfsögðu. Hitt veit ég líka, að sumir bændur kunna tæplega með vélarnar að fara og eru illa færir til þess að kenna öðrum. Mér hefur t.d. oft sýnzt, að sumir bændur færu þannig með vélakost sinn, að ekki geti talizt til fyrirmyndar.

Hv. þm. Mýr. og hv. 1, þm. Rang. töldu báðir, að allar hömlur af hendi löggjafans í þessu máli mundu verða til mikils tjóns fyrir bændastéttina. Allir þessir hv. alþm. hafa haldið því fram, að landbúnaðurinn sé þannig á vegi staddur, að ef það opinbera setti inn í lögin ákvæði, sem bannaði 14 ára unglingum eða yngri að keyra dráttarvél, væri stórlega gengið á rétt bændastéttarinnar og mundi það hafa í för með sér stórt fjárhagslegt tap.

Enginn þeirra hv. alþm., sem talað hafa á móti till. minni, hefur minnzt einu orði á þá hlið, sem snýr að börnunum. Það hlýtur þó að vera aðalatriði málsins, þegar allt kemur til alls. Að halda því fram, að 10 eða 12 ára börn séu jafnfær til að stjórna vélum sem 14–15 ára unglingar, er hrein fjarstæða. Með hverju ári, sem líður, þroskast barnið líkamlega og andlega og verður þar af leiðandi færara um að stjórna vélinni. Því eldri sem unglingarnir eru, sem stjórna vélunum, verða afköstin meiri og slysahættan minni. Þetta liggur svo ljóst fyrir, að um það ætti ekki að þurfa að deila.

Hv. þm. Mýr. benti á, að hjá fullorðnum manni, sem stjórnar vél, kæmu iðulega fyrir slys, og benti þar t.d. á bílstjóra og að slík slys kæmu ekki síður fyrir hjá fullorðnum mönnum, en hjá börnum og unglingum, sem keyra dráttarvélar. Því miður verða oft slys á vegum úti. Flest þeirra slysa er hægt að rekja til ónógrar varasemi, og í sumum tilfellum orsakast slysin af hreinum og beinum trassaskap, m.a. af of hröðum akstri, of lítilli tillitssemi við aðra vegfarendur og fleiru þess háttar.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru einmitt mörg ný ákvæði, sem eiga að draga úr slysahættunni á vegum úti, og ég held, að allir séu sammála um, að það sé hin mesta nauðsyn að gera allt, sem hægt er, til þess að draga úr þeirri hættu. Því undrar mig alveg stórlega að heyra hv. alþm. mæla á móti því, að sett verði ákvæði inn í umferðarlögin um lágmarksaldur barna við keyrslu dráttarvéla.

Hér liggja fyrir skrifleg ummæli tveggja aðila um þetta mál, annað frá Slysavarnafélagi Íslands og hitt frá öryggismálastjóra ríkisins. Báðir þessir aðilar mæla eindregið með því, að till. verði samþykkt.

Það vekur alveg sérstaka athygli, að enginn af þeim hv. alþm., sem hér hafa talað á móti till., hefur minnzt á álit þessara aðila. Halda þessir hv. alþm., að t.d. stjórn Slysavarnafélags Íslands og öryggismálastjóri ríkisins, Þórður Runólfsson, viti ekki, hvað þeir eru að segja um þetta mál? Vilja þessir hv. alþm. halda því fram, að ekkert mark sé takandi á áliti og tillögum Slysavarnafélags Íslands? Eða vilja þessir sömu hv. alþm. neita algerlega réttmæti hins mjög svo rökstudda álits, sem fram kemur í bréfi Þórðar Runólfssonar öryggismálastjóra ríkisins, sem rökstutt er með áliti aðalsérfræðings í tæknideild aðalstöðva sænska öryggiseftirlitsins í notkun landbúnaðardráttarvéla? En hver er svo skoðun þessa sænska sérfræðings í þessu máli, svo að eitthvað sé bent á? Hún er í fæstum orðum sú, að ekki ætti að leyfa yngri börnum en 15 ára að aka dráttarvélum. Aðalrök hans eru þessi: Yngri börn en 15 ára taka yfirleitt starf sitt á dráttarvélinni sem leik og meta þess vegna ekki hætturnar með þeirri alvöru, sem eldri ökumenn gera og er nauðsynleg til þess að forðast yfirvofandi hættur. Dómgreind barna er ekki svo þroskuð, að þau geri sér jafnskýra grein fyrir hættunni og fullorðnir menn. Viðbragðsflýtir barna er minni en fullorðinna, og verða þau því seinni til að afstýra slysi eða draga úr hættunni. Börnin hafa minni hæfileika, en fullorðnir, til þess að dæma um fjarlægðir. Þeim hættir því við að gera of seint ráðstafanir til þess að forðast eða afstýra hættu, sem fram undan kann að vera.

Ég vil taka undir með öryggismálastjóra, þar sem hann segir: „Því mun oftast borið við, að fólksfæðin knýi menn til að láta börn aka dráttarvélum, en verður það vinnuafl ekki of dýru verði keypt?“

Að sjálfsögðu lætur enginn bóndi barn keyra dráttarvél nema í þeirri góðu trú, að allt sé í lagi og engin hætta geti verið fram undan. En hver er sá maður, sem vill og getur tekið ábyrgð á slíku? Vélar eru engin barnaleikföng, og vél og barn eru tvennt gerólíkt. Vél, sem t.d. skemmist, er í flestum tilfeilum hægt að gera við, en barn, sem slasast af vél, bíður þess máske aldrei bætur. Svo er annað mál, að börn, sem ung fara að keyra vélar, verða að meira eða minna leyti biluð á taugum, og yfirleitt ráða læknar eindregið frá því, að börn séu látin keyra eða vinna með vélum.

Ég hef talað við nokkra lækna um þetta mál. Og þeir, sem ég hef átt tal við, eru allir á einu máli um þetta atriði, að það sé ófært, að ung börn, 10, 12, 13 ára, séu látin vinna með slíkum vélum. Í Morgunblaðinu í gær var birt viðtal við nokkra menn um þetta mál. Ég leyfi mér að benda á ummæli Jóns Oddgeirs Jónssonar fulltrúa, sem þar voru, en hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það eru dæmi, að börn hafi beðið bana hér á landi í sambandi við dráttarvélaakstur. Stofnum ekki til fleiri slíkra slysa, og látum löggjöfina verja börn vor gegn slíkum slysum, jafnt í sveit sem kaupstað. Ég álít, að börn innan 14 ára ættu a.m.k. ekki að fá leyfi til þess að stjórna dráttarvélum, Í Danmörku er aldurstakmarkið til dæmis 16 ár.“

Í þeim viðtölum, sem birtust í sama blaði um þetta mál, komu fram skiptar skoðanir á þessu máli. Þó eru flestir sammála um hættuna, sem af því getur leitt að láta börn keyra dráttarvélar.

Þrír af meðnefndarmönnum mínum í allshn. flytja brtt. við 28. gr. umferðarlaganna. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við 28. gr. Síðasti málsl. 1. málsgr, orðist svo:

„Til aksturs dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við jarðyrkju- eða heyskaparstörf utan alfaravegar, þarf hæfnisskírteini.“

Ég vil taka það fram, að ég tel þessa till. til lítilla bóta. Í henni er t.d. ekkert um það sagt, hver eða hvaða aðili það skuli vera, sem ætti að gefa út slík hæfnisvottorð. Á t.d. viðkomandi bóndi að vera einráður í því, hvort hann gefi út slík vottorð? Hvað á að liggja til grundvallar slíku vottorði? Mér er spurn: Vilja bændur taka á sig þá ábyrgð, sem því fylgir að gefa slík vottorð út? Ég hlýt að draga það mjög í vafa, og ég held, að bændum sé lítill greiði gerður með slíku ákvæði í lögunum. Auk þess dreg ég það mjög í vafa, að allur þorri bænda á Íslandi sé fær um að gefa slík vottorð, m.a. vegna ónógrar þekkingar á vélinni sjálfri, og ekki hvað sízt vegna vöntunar á þekkingu á því sálræna, sem að börnunum snýr. Ég get því ekki fylgt þessari till. og mun greiða henni mótatkvæði. Eftir því sem ég hef kynnt mér þetta mál meira, er ég því sannfærðari um, að setja beri í lögin lágmarksaldur fyrir þau börn, sem keyra dráttarvélar, og að það lágmarksákvæði ætti að vera 14 ár í lægsta lagi.

Ég leyfi mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, þegar til atkvgr. kemur, að viðhaft verði nafnakall um þessa till. mína. Ég vil að lokum benda á það, að ég tel, að þeir hv. alþm., sem greiða mótatkvæði á móti minni till., taki á sig mjög mikla ábyrgð. Það verður ekki hjá því komizt, að þar sem slys kunna að verða og þeir, sem eru að því valdir, verði dregnir til ábyrgðar gagnvart verkum sínum.