28.03.1958
Neðri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

18. mál, umferðarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skildist á hv. 10. landsk., að hann vildi halda því fram, að ákvæðin um ökuleyfissviptingu væru hert frá því, sem nú er í lögum, en það er ekki. Hann talaði um, að það væri skylt samkv. frv. að beita ökuleyfissviptingu, þegar um ákveðin brot er að ræða, í þessu falli akstur undir áhrifum áfengis, en þannig er það nú einnig í bifreiðalögunum. Þar segir, að bifreiðastjóri, sem ekur bifreið undir áhrifum áfengis eða neytir áfengis við bifreiðarakstur, skuli sviptur ökuleyfi sínu um ákveðinn tíma, þó eigi skemur en 3 mánuði, eða fyrir fullt og allt, ef miklar sakir eru eða um ítrekað brot er að ræða.

Þetta er alveg eins og nú er í frv., bara með þeirri breytingu, að nú er settur einn mánuður sem lágmarkstími í frv., en eru þrír mánuðir í gildandi lögum.

Um hitt atriðið, hvort rétt sé að hafa skyldu eða heimild til að endurkrefja þann, sem tjóni veldur, býst ég ekki við að þýði að ræða meira.

Ég geri ekki ráð fyrir að sannfæra hv. 10. landsk. um, að það sé heppilegra, sem ég held fram um þetta, og ég hef ekki heldur sannfærzt af hans rökum um, að rétt sé að breyta skyldunni í heimild. En hitt finnst mér ljóst, að ef þetta verður gert að heimildarákvæði, þá sé rétt að haga því þannig, að það verði meiri hlutinn, sem ræður, hvort heimildin er notuð eða ekki, þ.e.a.s. þeir aðilar, hvort sem það er eitt félag eða fleiri, sem hafa meiri hluta trygginganna með höndum. Eins og ég áður gat um, þá liggur það í hlutarins eðli, að það er ekki hægt fyrir nokkurn hluta tryggingarsalanna að taka upp þessa reglu, ef hinir gera það ekki, því að það gæti haft þannig áhrif í þeirra samkeppni um viðskiptin.