17.03.1958
Neðri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

95. mál, sala jarða í opinberri eigu

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég er því algerlega sammála, að eðlilegt sé, að þorp eignist það land, sem þau standa á. Ég er því að meginefni til samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir. En það er visst atriði, sem ég teldi þörf á að upplýst væri.

Þannig stendur á, að Reykvíkingar hafa sótt allmikið steypuefni austur til Eyrarbakka, einmitt í land þeirra jarða, sem hér um ræðir, og mun sá háttur hafa verið á, að reykvískir vörubílstjórar hafa flutt þetta efni suður.

Um það mun þó einhver deila hafa komið upp, hvort þeir ættu heldur að flytja efnið eða starfsbræður þeirra þar eystra, en heildarsamtök þessara manna munu hafa fallizt á eða samþykkt, að eðlilegt væri, að Reykvíkingarnir sæktu sjálfir það efni, sem hér á að nota.

Nú hef ég heyrt því fleygt, að einhverjar grunsemdir séu um, að þessu eigi að breyta, ef þetta frv. nær fram að ganga, að þá muni það vera tilætlunin að neita að selja þetta efni hingað suður, nema á flutningi þess yrði hafður annar háttur en verið hefur, og jafnvel segja sumir, að það sé ein af ástæðunum fyrir því, að frv, sé nú flutt.

Ég veit engin sannindi þessa, en ég taldi rétt, að þetta kæmi hér fram, og vildi óska þess, að hv. flytjandi málsins, sem var frsm. n., gerði okkur grein fyrir því, hvort honum er þetta kunnugt, og ef honum er það ekki, að þá athugaði nefndin það, hvort í þessu kynni að vera eitthvað til og hvort hér væri ef til vill þá um það að ræða, að úr þessu yrði alvarlegt deilumál í þessu tiltekna sambandi innan þessarar starfsstéttar, sem hér á hlut að.

Ég tel það langbezt, að slíkt mál sem þetta sé rætt fyrir opnum tjöldum og það liggi alveg ljóst fyrir, hvort nokkrar slíkar ráðagerðir eru uppi. Ef það er ekki, þá er það gott. Ef það er, þá þurfa menn að átta sig á, hvort það eigi að hafa nokkur áhrif á framgang þessa máls.

Ég treysti mér ekki til þess að segja það, eins og sakir standa, en treysti því, að nefndin veiti okkur þá vitneskju um þetta, sem hún hefur, og ef hún hefur hana ekki, þá afli hún hennar, annaðhvort með þeim hætti, að umr. verði frestað nú, eða fyrir 3. umr.

Ég tel ekkert á móti því út af fyrir sig, að málið gangi til 3. umr. Ég er því að meginstefnu til samþykkur, eins og ég segi. Ég tel það vera hollt og rétt, að kauptún eigi það land, sem þau standa á. En menn þurfa þá að vita, ef verið er með því að blanda sér í viðkvæmt deilumál, sem búið er að leysa með einhverjum tilteknum hætti, og lausnina á svo að knýja fram á annan veg eftir þessari leið. Þá þarf að meta það, hvaða áhrif það eigi að hafa á afstöðuna til málsins.