10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

35. mál, útsvör

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Í útsvarslögunum frá 1945 voru sett ákvæði um það í 26. gr., 2. málslið, að þegar kært er yfir útsvari, skuli ekki taka kæru til greina, nema í ljós komi, að breytingin nemi 10% til lækkunar eða hækkunar frá útsvarsálagningu. Þetta ákvæði hefur án efa verið sett til þess að koma í veg fyrir, að menn væru að gera sér leik að því að kæra útsvar sitt. Það yrði að liggja fyrir veruleg ástæða til þess, að kæran yrði tekin til greina. Þess vegna var 10% takmörkunin sett í lögin.

Það er vitað mál, að síðan útsvarslögin voru sett, hefur verðgildi krónunnar rýrnað mjög. Af þessu leiðir, að útsvör hvers gjaldanda hafa hækkað mjög í krónutali. Þetta út af fyrir sig getur réttlætt það, að sá hundraðshluti eða takmörkun sú, sem upphaflega var sett, 10%, sé lækkuð. En þegar svo er komið, eins og lagt er til í þessu frv., að takmörkunin er færð niður í 3%, þá sýnist mér þetta orðið svo hlægilega lítið, að ekki sé ástæða til þess að hafa nokkra takmörkun. Ég tel því réttara að afnema alla takmörkun og leyfa öllum að kæra, sem það vilja. Ég hef því með brtt. á þskj. 117 leyft mér að leggja til, að 2. málsliður 26. gr. útsvarslaganna verði felldur niður. Ég bið hv. n., sem þetta mál fær til athugunar, að íhuga, hvort hún getur ekki fallizt á þetta sjónarmið mitt, því að með 3% takmörkuninni er raunverulega fallið frá þeirri hugsun, sem lá að baki upphaflegu takmörkuninni. Þess vegna tel ég réttara að stíga sporið fullt út og afnema alla takmörkun.